16.3.2011 | 22:30
Hvar er blómasalinn?
Er von menn spurji og séu áhyggjufullir: hvar er blómasalinn? Hann mætti ekki til hlaups á mánudaginn þegar sérstaki sánkaði að sér fólki til spurnínga, og enn lýsti hann með fjarveru sinni í dag, er hörðustu Naglarnir mættu til hlaups í afleitu veðri. Að vísu skal þess getið að ritari hitti hann í Morgunlaug og lék hann á als oddi og virtist ekki hafa áhyggjur af framvindu mála. Kvaðst hann þá vera á leið til Agureyris að renna sér á skíðum ásamt með fjölskyldu sinni. Hafði hann um það góð orð að renna sér fyrri part dags, en hlaupa seinni part dags. Já, einmitt, kanntu annan? Mun þurfa að bíða endurkomu Jörundar áður en hægt verður að koma skikki á þennan óviðráðanlega hlaupara sem á að heita að sé að búa sig undir Laugaveg.
Mætt: dr. Jóhanna, Ósk, Þorbjörg K., Rúnar, Þorvaldur, Flosi, Bjössi, Maggi, próf. dr. Fróði. Ritari. Prófessorinn leggur mikla vinnu í að hylja andlit sitt þessi missirin og gefur þá skýringu að vel græðandi bankar gætu orðið á hlaupaleið hans, en sá grunur kviknaði að hér væri verið að forðast óþef þann sem fylgir hlaupafatnaði hjálparlausra karla sem ekki fá notið nærveru kvenna sinna og annast þvotta. Um þetta leyti upphófst mikil þefun, þefaði hver af öðrum og var það þeygi fögur sýn.
Veður stillt og virtist bjóða til ágætishlaups. Lagt í hann án þess að fá fyrirsögn þjálfara, en eftir á voru höfð orð um að fara Suðurhlíð. Þar gefast ýmsir möguleikar, ýmist að halda áfram eftir Stokk og hjá Gvuðsmönnum og ljúka 10 km eða fara Flugvallarveg út í Nauthólsvík og tilbaka um Ströndina og ljúka 13 km. Hætta var á að okkar minnstu bræður myndu freistast til þess að fara Hlífðarfót. Af þeirri ástæðu stillti Rúnar þjálfari sér upp við Skítastöð og beið eftir eftirlegukindum til þess að leiðbeina þeim og hvetja áfram til góðra verka.
Færi sæmilegt á leið út í Nauthólsvík, og út að Kringlumýrarbraut, en upp Suðurhlíð var vonlaust færi. Hér var ritari orðinn einn og barðist þetta áfram af þrjóskunni. Upp að Perlu og svo niður stokk. Það skal viðurkennt að er hér var komið var kuldinn slíkur og mótvindur, að það hvarflaði ekki að ritara að fara út í Nauthólsvík, eins og fyrir hafði verið lagt. Vinstri hönd við það að detta af fyrir sakir kalskemmda. Nei, þá er ekki um annað að ræða en að halda áfram hjá Gvuðsmönnum og vestur úr til Laugar. Gekk bærilega, en ég varð að hafa vinstri hönd í jakkavasa til þess að forða henni frá kalskemmdum. Mikið dj... var kalt á þessum kafla!
Það vakti athygli viðstaddra í Potti að Björn mætti í pott með rauða sundhettu. Menn mátuðu þetta við aðildarskilyrði að Naglaklúbbnum og Clint Eastwood-klúbbnum, og voru í vafa. Spurt var: Björn, myndi Clint Eastwood nokkurn tíma ganga um með rauða sundhettu? Þá fylgdi langur kafli úr ævisögu Clints og í beinu framhaldi af því þekktustu díalógar úr Dirty Harry, sem Björn hafði á takteinum. Þetta var indæl stund sem ævinlega og aðeins trufluð af þeim verkefnum sem bíða félagsmanna í persónulega lífinu.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Athugasemdir
solskin og 18 stiga hiti og hafgola i morgun jori
jorundur (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.