13.3.2011 | 16:49
Vísbendingaspurningar til hægri og vinstri
Félagar í Hlaupasamtökunum eru beðnir um að leggja 14. apríl á minnið, því að stundvíslega klukkan 16 þann dag verður runnið skeið í tilefni 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Þar gefst okkur færi á að hlaupa 7 eða 3 km í félagi við háskólaakademíuna og getum miðlað mikilli yfirsýn og þekkingu á hlaupum. Að skipulagningu hlaups kemur Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson.
Annars var létt yfir mönnum á þessum sunnudegi, þeir sátu í Brottfararsal, Ó. Þorsteinsson og Þorvaldur er klukkuna vantaði 10 mín. í 10 í morgun og fengu vart hamið sig fyrir eftirvæntingu. Við bættust ritari, Flosi, Maggi, blómasalinn og Biggi. Góð þátttaka, þar af fjórir sem ætla Laugaveginn í sumar og því ekki seinna vænna að fara að gera eitthvað seríöst í þeim málum.
Veður ágætt, en færðin afleit, ekkert verið rutt lengi af stígum og er kom fyrir flugvöll var vart hægt að komast áfram. Það var því farið afar hægt yfir í dag, og það var líka allt í lagi. Eðlilega var mikið rætt um skólamál í borginni og ófarir fulltrúa hreppsnefndarinnar á fundum með fólkinu sem kaus hana. Nú þegar Biggi er farinn að hlaupa með okkur aftur er byrjaður venjubundinn hávaði á hlaupum. Í Nauthólsvík var sögð falleg saga af Halldóri Hansen lækni.
Sögð vísbendingaspurning: spurt er um mann og dóttur hans, frá fæðingu mannsins að dánardægri dótturinnar liðu 171 ár. Ó. Þorsteinsson hafði ekki svör við spurningunni, jafnvel þótt bætt væri við fleiri vísbendingum, en engum bílnúmerum. Minnir um margt á Ástu Þórbjörgu Beck sem lést fyrir fáeinum vikum, 173 árum eftir fæðingu föður hennar, Hans Jacobs Becks. Á endanum var ljóstrað upp að hér var spurt um Tryggva Gunnarsson og Maríu dóttur hans.
Það var farinn Laugavegur og menn voru að myndast við að telja tóm verzlunarrými, en ég held það hafi misfarist. Stöðvað iðulega til þess að skoða byggingar eða annað sem vakti áhuga. Farið um Miðbæ og Austurvöll. Í Potti voru auk hlaupara Mímir og dr. Baldur. Þar var haldið áfram með vísbendingaspurningar af ýmsu tagi.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt 14.3.2011 kl. 19:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.