7.3.2011 | 21:49
Þvælst um á Nesi - "...viljið þið reyna að ákveða ykkur!"
Þetta varð ævintýralegur dagur í lífi Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Albrjálað vetrarveður með suðvestanstormi og snjókomu öðru hverju. Er komið var í Útiklefa var ekki þurran blett að finna þar. Ritari hafði allt á hornum sér af þessu tilefni, en fyrir í Klefa var Benzinn. Hann var búinn að sölsa undir sig snaga ritara og var svo óforskammaður að hreyfa sig hvörgi þótt eftir því væri leitað. Síðan tíndust menn hver af öðrum til Klefa: Helmut, blómasalinn, Maggi kom til að létta á sér, og á þessu gekk þar til gengið var til Brottfararsalar. Það er jafnan líkast því að Clint Eastwood gangi inn á bæjarbúlluna þegar Naglar úr Útiklefa mæta til hlaups í Brottfararsal: afgreiðslustúlkur falla í stafi, aðsteðjandi gestir fyllast ógn, og aðrir hlauparar fá skjálfta í knén af aðdáun yfir mannvali og hetjuskap.
Magga þjálfari fjarri góðu gamni, einhver nefndi Algarve. En aðrir mættir: Ósk, dr. Jóhanna, Hjálmar, Bjössi, Friedrich Kaufmann og nýr hlaupari sem ritara vantar nafnið á. Dr. Jóhanna tók að sér forystu í hlaupi og mælti fyrir um fjölbreytt hlaup á norðanverðu Nesi, inklúsive brekkuspretti. Rúnar mætti um það bil er við héldum úr hlaði og fékk engu breytt um plan dagsins. Snjór á jörðu og víða hált, og við lentum í vetrarveðri á leiðinni. Fólk var létt á sér og góður hugur var í hlaupurum. Menn lýstu furðu á að menn eins og próf. Fróði lýsti með fráveru í dag, maður sem úthrópar aðra sem "sólskinshlaupara" jafnskjótt og tækifæri gefst. Einhver sagði að sennilega væri hann upptekinn við að festa skíðin á göngugrindina.
Farið upp á Víðimel og þaðan vestur úr, ritari með fremsta fólki, en blómasali aftarlega. Yfir á stíg með sjónum þar sem sjórinn gekk yfir í mikilfenglegum ham. Stígurinn þræddur vestur á Nes, en á leiðinni var ákveðið að fara upp í hverfið að norðanverðu, fyrsti sprettur upp íbúðargötu. Svo farið með stígum milli húsa, og jafnvel farið út í móa, afleita torfæru, grjót, dý og annað. Aftur komið inn á hefðbundna götu og farið að Bakkavör. Farið þar niður og svo sprett úr spori upp aftur. "Eigum við ekki að taka einar þrjár fjórar?" sagði Jóhanna liðsstjóri. En er upp var komið var hún greinilega búin að skipta um skoðun og hélt áfram í norðurátt, ekki fleiri Bakkavarir. Hér vonaði ritari að sprettum upp íbúðargötur væri lokið - no such luck!
Það var farið út á Lindarbraut og svo snúið tilbaka. Hér kviknaði vonin um að heimferðin yrði þægileg og átakalítil, en ég þekki greinilega ekki hugarheim dr. Jóhönnu nægilega vel. Hún átti eftir að þvæla okkur fram og tilbaka um Nesið, upp og niður íbúðargötur í blóðspreng slíkum að eitt skiptið henti eiginmaður hennar, Helmut, sér í götuna og æpti: "Ekki meir! Ekki meir!" En hlustaði Jóhanna? Hvað heldur þú, hlustandi góður? Viðstaddir töldu sig heyra hana segja "þetta er síðasta brekkan" þrimur sinnum áður en kom að hinni eiginlegu síðustu brekku.
Blómasali dapur framan af hlaupi, en lifnaði við eftir að hann fór að hitna og var farinn að taka vel á því í síðustu brekkum. Hann hafði líka haldið aftur af sér í bolluáti dagsins, en hans biðu fjórar bollur í bílnum og við þær var hugur hans festur allt hlaupið. Honum leist verr á miðvikudagshlaup, "þú veizt hvaða dagur er morgun" sagði hann við ritara. Ritari varar við því að menn fái sér baunir í hádeginu á miðvikudag, það hefur sýnt sig vera vondan grunn fyrir árangursríkt hlaup að kveldi. Treystið einum sem hefur reynt það.
Við lentum vægast sagt í ævintýralegu veðri á Nesinu í dag, það skiptist á uppstytta og snjóstormur með hagléli, á lokakafla hlaups var meira að segja útlit fyrir að síðustu menn yrðu úti eða þyrftu að grafa sig í fönn. Þeir sem fremstir fóru virtust hins vegar hafa litlar áhyggjur af þeim og héldu áfram hlaupi án þess að svo mikið sem líta við. Vart þarf að hafa orð á hverjir þessir síðustu menn voru.
Er komið var í Móttökusal var það niðurstaða hlaupara að hlaupið hefði tekizt gizka vel, hlauparar í misjöfnu ástandi og ólíkum þyngdarflokkum hefðu að mestu haldið hópinn og þannig hefði skapazt góður andi í hópnum, sem er aðal Hlaupasamtakanna. Slíkt mætti vera oftar. Teygt vel og lengi í sal. Blómasalinn kenndi nýja teygju sem dr. Jóhanna vildi læra. Hann leiðbeindi, en hún kvartaði yfir skítalykt. Einhver misskilningur varð uppi, en varanleg vinslit urðu ekki. Löng stund í Potti með frásögnum af útivistarferðum og hættuspili í vetrardýrð Íslands.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.