4.3.2011 | 21:21
Eru það bara karlrembur sem hlaupa á föstudögum?
Sá misskilningur var uppi í hlaupi dagsins að þar hlypu bara karlrembur. Ekki er gott að geta sér til um hvernig sá misskilningur hefur orðið til, en hann þarf að leiðrétta. Þessir voru: Þorvaldur, Flosi, próf. Fróði, S. Ingvarsson, Maggi, Bjössi, Benzinn, ritari, Vala, Rúna, Denni og Frikki. Veður fagurt, sól, 5 stiga hiti og einhver gjóla.
Menn furðuðu sig á því að prófessorinn skyldi vera á stuttbuxum, því SVO hlýtt er nú ekki orðið enn. Hann lét sér fátt um finnast og lét viðvörunarorð félaga sinna sem vind um eyrun þjóta. Ekki var staldrað lengi við, heldur lagt í hann, ekki voru lögð nein sérstök drög að hægri ferð, en tempó látið ráðast af líðan og ástandi hversu hratt yrði farið. Það var undarlegt ferðalag á Þorvaldi, sem enginn skildi. Hann sást hraða sér út með hafurtask sitt stuttu fyrir hlaup og lét ekki svo lítið að tilkynna hvað væri í gangi. Getgátur voru uppi um að hann hefði gleymt einhverju.
Hersingin af stað og bara á þokkalegu tempói. Er komið var áleiðis í Skerjafjörð dúkkaði Þorvaldur upp utan úr fjarskanum. En talandi um Þorvald þá upplýsti próf. Fróði að hann hefði þegar haldið fyrirlestur sinn yfir gamalmennum í Neskirkju þar sem móðir Þorvaldar var meðal áhugasamra áheyrenda. Ekki voru þó allir jafnáhugasamir, því að gömul kona á fremsta bekk sofnaði undir annars áhugaverðum fyrirlestrinum. Athygli vakti að prófessorinn gleymdi að láta vini sína vita af fyrirlestrinum, trúlega haldandi það að við myndum mæta þarna og vera með frammíköll og truflanir.
Nema hvað það dró í sundur með þekktum aðilum, við Maggi vorum rólegir, drógum uppi Þorvald á leiðinni og tókum hefðbundinn föstudagshring. Á þessu róli lentum við með Frikka kaupmanni, nafna hans af Nesi og Rúnu. Það var farið fremur rólega, enda menn þungir og þreyttir. Einkum var til þess tekið er Denni sagðist hafa þyngst um tíu kíló, væri allur aflagaður í vextinum og farinn að minna á blómasala.
Er hér var komið vorum við á Klambratúni og bara á þokkalegu tempói. Ritari setti stefnuna á Sæbraut, en þar fór norðangjólan heldur betur að láta finna fyrir sér og hvarflaði að manni að hér hefði prófessornum orðið kalt á spóaleggjunum sínum. En hlaup var gott og ekkert sem gat stöðvað fyrirætlanir ritara. Hann var orðinn einn um þetta leyti, en kaupmaðurinn og frú hans einhvers staðar að baki.
Farið um Miðbæ og Hljómskálagarð og tilbaka til Laugar. Þá voru flestir hlauparar komnir tilbaka, sumir höfðu stytt um Laugaveg. Teygt vel og lengi í Móttökusal og spjallað. Lögð drög að kvölddagskrá á Ljóninu. Í Útiklefa varð á vegi okkar glottuleitur blómasali, en ekki vitund iðrunarfullur, gat þó engar skýringar gefið á fjarveru, einhver nefndi þó í Potti að hann hefði hlaupið þá um morguninn. Heitur Pottur og þéttur og setið um stund.
Það var Fyrsti Föstudagur og stefnan sett á Ljón. Þar safnaðist saman góður hópur, auk þess sem Helmut og dr. Jóhanna voru þegar mætt og byrjuð að þjóra. Það voru pantaðar veitingar og áttum við þarna saman góða kvöldstund helztu gleðimanneskjur samtaka vorra. Hér komu upp vangaveltur um hvers vegna við værum stimpluð karlrembur á föstudögum og prófessor Fróði tók mikla rispu um fyrirhuguð hlaup í óbyggðum í sumar og taldi sig finna fyrir miklum stuðningi félaga sinna til þess.
Í fyrramálið: Samskokk í Grafarvogi.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.