27.2.2011 | 17:57
Níu hlupu á sunnudagsmorgni
Eftirfarandi hlauparar voru mættir til hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudagsmorgni: Jörundur, Maggi, Þorvaldur, Karl Gústaf, Kári, Helmut, René, ritari og ung kona að nafni Vala. Þar af voru nokkrir sem lítið höfðu iðkað hlaup upp á síðkastið og höfðu orð á að nokkur þyngdaraukning kynni hugsanlega að tefja fyrir þeim í hlaupi dagsins. En við erum yfirleitt róleg á sunnudögum og því engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af hægri yfirferð.
Athygli vakti að Formaður til Lífstíðar var ekki mættur, en það átti sér sínar skýringar. Lagt upp rólega, enda færðin dálítið erfið. Er við fórum yfir gangbraut á Ægisíðu varð á vegi okkar kampavínslit jeppabifreið innihaldandi kunnugleg andlit: sat þar við stjórnvölinn Formaður til Lífstíðar og veifaði tl félaga sinna. Við urðum furðu lostnir að mæta honum þarna, en engar skýringar fengust á staðnum á fjarvistum.
Við héldum hópinn nokkuð lengi, eða inn í Nauthólsvík, utan hvað Kári og Vala voru týnd. Nú sagði René skilið við hópinn, vildi fara hraðar og lengra en hefð er um á sunnudegi. Við hinir fórum fetið hefðbundið um Kirkjugarð og Veðurstofu. Það var staðnæmst á föstum stöðum og mikið rætt um Laugavegshlaup og skófatnað. Í Kirkjugarði var tekin málfræðiæfing, karlmannsnafnið Vöggur beygt með eftirfarandi tilbrigðum: Hér er Vöggur um Vögg frá Vöggu til Grafar, hins vegar Hér er Vöggur um Vögg frá Veggi til Veggjar. Gamall hlaupabrandari.
Stoppað við tréð hans Magga á Otharsplatz og því veitt nauðsynleg aðhlynning. Svo áfram niður á Sæbraut. Við vorum nokkuð góðir og héldum allir sex hópinn allt til loka hlaups, fórum um Hljómskálagarð og þá leið tilbaka, fulla 11,8 km. Teygt á Plani.
Pottur svellheitur og þar sat Formaður og hélt ádíens. Einnig mátti bera kennsl á frú Helgu Jónsdóttur, Einar Gunnar og litlu síðar kom dr. Baldur. Setið í góða klukkustund og rætt um þau málefni er hæst ber þessa dagana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.