Ég neita að láta stimpla mig aumingja!

Klukkan var kortér gengin níu þegar ritari stóð alklæddur í Brottfararsal. Að vísu hafði hann gleymt hlaupatreyju, en notaði það ekki sem átyllu til þess að fella niður hlaup eins og sumir hefðu gert, nei, ég fór bara í bolnum sem ég stóð í. En nú voru góð ráð dýr, átti maður að bíða í fimmtán mínútur eftir öðrum hlaupurum, sem koma ævinlega seint, og eru auk þess svo hraðir að við fylgjumst eitthvað að út á Hofsvallagötu og svo ekki söguna meir. Síðan gæti sú staða komið upp að maður færi með Möggu einni og það er svona álíka og að fara einn í göngufrí með frú Ólöfu Ben. dönskukennara við Reykjavíkur Lærða Skóla og ráfa þannig um miðbæinn, sjálfum sér til lítillar frægðar. Nei, allt talaði fyrir því að ritari færi einfaldlega einn af stað að hlaupa í dag. Hver veit nema ég hitti frænda minn og vin, Ólaf Þorsteinsson, Formann til Lífstíðar, eitthvert mesta prúðmenni og sjéntilmann sem Reykvíkingar hafa eignast. Hann er jafnan á ferðinni á laugardagsmorgnum.

Það var ágætisveður, fremur svalt, einhver vindur en þurrt á stígum. Góð tilfinning að vera aftur á ferðinni eftir að hafa misst af föstudagshlaupi í gær. Maður er allur að koma til, orðinn léttari og sprækari eftir nokkra fjarveru. Fáir á ferli og ég hitti fyrst hlaupara er komið var að Kringlumýrarbraut, líklega Laugaskokk. Bjóst alltaf við að okkar eigið fólk næði mér á leiðinni en ég slapp upp Boggabrekku án þess að verða þeirra var. Raunar sá ég þau aldrei því að þau munu hafa farið á Kársnesið í dag og lokið 18 km hlaupi.

Merkilegt hvað skilyrði eru öll önnur á Veðurstofuhálendi og hjá Útvarpshúsi, þar er snjór og klaki yfir öllu, en auð jörð í Vesturbæ. Svona er láni manna misskipt hér í bæ. Áfram niður Kringlumýrarbraut og á Sæbraut var mann farið að langa í eitthvað að drekka, en allir lindir eru uppþornaðar á leiðinni og ekkert vatn í boði. Fúlt! Ég áfram hjá Hörpu, um Miðbæ og Hljómskálagarð, lauk þannig 14 km á rólegu tempói, líklega um 6 mín/km. Teygði vel og lengi á Plani.

Sat lengi einn í Potti, en loks birtist Ragnar og hafði farið með hópnum um morguninn og hafði verið sleginn af þessum sömu hugrenningum og ritari við upphaf hlaups: til hvers er að fara með fólki sem skilur mann bara eftir?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband