14.2.2011 | 20:47
Tinnasögur
Veikindi hafa herjað á Hlaupasamtök Lýðveldisins og margir af helztu hlaupurum rúmliggjandi þessi missirin. Af þeirri ástæðu var þunnskipaður flokkurinn í dag miðað við að það var mánudagur og kjöraðstæður til þess að lenda undir bíl vegna hálkunnar. Meðal hlaupara mátti þekkja dr. Friðrik, dr. Karl, dr. S. Ingvarsson og próf. dr. Fróða. Auk þeirra Rúnar, Möggu, Melabúðar-Frikka, Ósk, Þorbjörgu K., Jóhönnu Ólafs, Jörund, ritara, Benzinn og Hjálmar. Þessi hópur setti kúrsinn strax á Nes, það átti að streða í Bakkavörinni í dag.
Í ljósi þess að við Jörundur erum að stíga upp úr meiðslum ákváðum við að fara rólega. Færið bauð heldur ekki upp á neitt annað, glerhált hvarvetna og mátti heita heppni að enginn varð undir bíl, en á móti kemur að Þorvaldur var ekki með í dag og því enginn með æfingar í Óðagotsstíl. Benzinn slóst í för með okkur og virtist það henta honum vel að dóla sér með okkur. Eðlilega var rætt um Laugaveginn og það sem við gætum vænst þar. Nú erum við vonandi loksins komnir af stað í hið eiginlega prógramm og framundan því strangar æfingar sem kalla á einbeitni og karaktér.
Farinn Víðimelur og sú leið út í Ánanaust og svo lagt á Nesið. Þau hin eitthvað á undan okkur, en urðu að vísu að hægja á sér út af hálkunni. Héldum við þó 5:30 mín. tempói sem var heldur hraðara en við ætluðum okkur. Þessi tala er að vísu fengin frá Jörundi sem var ekki með neitt mælitæki með sér, en hann hefur góða tilfinningu fyrir hraða. Þó ber að hafa í huga að þetta er huglægt mat, ekki strangvísindaleg mæling. Enn er maður svolíitið þungur á sér eftir að hafa ekki hlaupið að ráði í sex vikur. Svo þurfa menn líka að taka mataræðið í gegn, hætta að borða brauð og fara að taka inn magnesíum.
Töltum þetta yfir á suðurhliðina og út í Bakkavör. Þar tókum við einn sprett rólega samkvæmt tillögu þjálfara, sem hlustaði ekki á kveinstafi okkar og sagði að þetta myndi herða okkur. Héldum svo tilbaka um Sólbraut, Lambastaðahverfi og Flosaskjól. Komum fínir tilbaka eftir ágætishlaup og teygðum á Plani. Lögð á ráðin um æfingar fyrir Laugaveginn, en í maí setjum við stefnuna á Esjuna þar sem við æfum hlaup í fjalllendi, niður brekkurnar.
Í pott mætti fjöld hlaupara, m.a. Bjössi og Flosi sem létu sér nægja að synda í dag. Rifjaðir upp þeir góðu dagar þegar Súsanna baðaði sig á dansstöðunum, við daufar undirtektir þeirra Óskar og Þorbjargar. í framhaldinu komst Bjössi á flug við að segja Tinnasögur sem voru aldeilis ódauðlegar. Gekk á því þar til klukkan var farin að nálgast átta, þá dröttuðust síðustu menn úr potti. Gott hlaup að baki sem lofar góðu um framhaldið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.