13.2.2011 | 14:41
Tvöföld upprisa
Á þessum sunnudagsmorgni urðu þau tíðindi að tveir skrópagemlingar frá hlaupum, Jörundur og ritari, mættu til hlaups í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar, höfðu verið fjarverandi um nokkurt skeið vegna meiðsla. Báðir báru sig illa og var ekki útséð um að þær kæmust lifandi í gegnum hlaup dagsins. Aðrir mættir: Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir og Þorvaldur. Mikil veikindi herja nú á hlaupara og vantaði af þeim sökum tvo aðra frambærilega hlaupara sem láta sig yfirleitt ekki vanta á sunnudögum: blómasala og Flosa. Utandyra var svalt í veðri og snjór á stígum, óttuðust sumir að hált væri undir. Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar, hlaupafæri var fínt í dag og örlaði varla á hálku.
Lagt upp á hægu nótunum og farið niður á Ægisíðu. Maggi að vísu farinn á undan okkur og var kominn með nokkurt forskot. Rætt um næstu jarðarfarir og seinasta Útsvar. Þótti skemmtilegt tilsvar sem Reykjanesbær gaf þegar hann sat uppi sem sigurvegari og spurður hvaða mótherjum þau vildu mæta næst. "Garðabæ" var svarið. En svo skiptu þau um skoðun og sögðu: "Nei, við viljum fá einhverja skemmtilega mótherja." Jörundur taldi sig geta lesið sérstaka merkingu í þetta svar og lét hana óspart uppi.
Það var góð tilfinning að vera kominn á ról aftur eftir allt of langa fjarveru frá hlaupum, enda þótt maður væri þungur og stirður, þá var þetta upphitunin sem maður þarf fyrir mánudagshlaup. Nú er um það að ræða að halda áfram þjálfun fyrir Laugaveginn. Um þetta stóra hlaup ársins var rætt á Ægisíðunni og fullyrti Jörundur að svo fáir hefðu sótt um að allir hefðu komist að. skýringin væri mikill þátttökukostnaður, samanlagt um 30 þús. kr. Slíkt er til þess fallið að fæla frá. Við þetta bætist síðan kostnaður við að koma sér á staðinn. En nú verður ekki aftur snúið, fjöldi hlaupara úr Hlaupasamtökunum skráðir í hlaupið og munu standa sína plikt.
Rætt um ástandið á Dödens avis og þær samfelldu hremmingar sem steðjuðu að þessum fjölmiðli síðustu vikurnar. Áttu menn bágt með að skilja hvernig stæði á því að vörður er staðinn um tiltekna einstaklinga þar sem hafa valdið blaðinu miklu tjóni með skrifum sínum. Þótti mönnum illa komið fyrir tíðndaritinu og litlar horfur væru á umbótum. Dokað við í Nauthólsvík þar sem Maggi beið eftir okkur og kvaðst hafa verið ósáttur þegar hann lagði upp, en við náðum að hressa hann við með fallegum sögum. Varð hann okkur samferða eftir þetta og allt til loka hlaups.
Næst stoppað í Kirkjugarði og rætt um hvernig við gætum glatt hann Villa okkar og hvatt hann áfram er hann mætir næst til leiks, hinn 4. marz n.k. Jafnframt leitt getum að því hvað yrði gefið ef svo fer sem menn ætla að Álftanes bíði lægri hlut, verður gefinn aðgöngumiði að sundlauginni dýru? Ekki var heldur hjá því komist að ræða sameiningarviðræður sveitarfélaganna, þó voru ekki nýjustu fréttir af gangi þeirra viðræðna.
Það var farið hefðbundið um Veðurstofuhálendið, Litluhlíð, Klambratún, Hlemm og niður á Sæbraut. Gengið á réttum stöðum, enda bárum við Jörundur okkur illa og varð að fara hægt okkar vegna. Hlaupið framhjá hinu nýja samkomuhúsi landsmanna við Höfnina þar sem ráðstefnur og árshátíðir framtíðarinnar verða haldnar. Komið tilbaka eftir ágætlega heppnað hlaup og teygt alllengi á Plani.
Nú brá svo við að Pottur var venju fremur kaldur og þar voru eingöngu dr. Einar Gunnar og dr. Baldur af hefðbundnu klíenteli. Varð af þeirri ástæðu fremur skömm vera í potti, en engu að síður tekinn hringur á viðburðum, menningu og bílnúmerum.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.