Kvartað yfir pistlaskrifum ritara

Ekki vissi ég að félagar mínir læsu bloggpistla mína. Ég hef frétt af ónefndum hrekkjusvínafræðingi sem kann pistlana utanbókar og getur rakið þá í réttri tímaröð með persónum og viðburðum margar vikur aftur í tímann. En þegar félagarnir eru spurðir út í nýleg skrif koma þeir af fjöllum og verða flóttalegir í framan: ha, hvað? Einna helzt er ég á því að algjörlega vandalausir aðilar lesi pistlana og skemmti sér ágætlega. Ef til vill var hluti af skýringunni afhjúpaður í potti  í dag að loknu hlaupi. Þar sögðu menn að það vantaði allan brodd í frásagnir, kvikyndisskapur væri á brott og það læki mannúð og umburðarlyndi úr hverri setningu. Þessu þyrfti að breyta.

Sem fyrr var ritari forfallaður í hlaupi dagsins vegna meiðsla, en vildi tryggja að Fyrsti Föstudagur gæti farið fram með sómasamlegum hætti.  Þá var blómasalinn að mæta tilbaka eftir erfitt hlaup, en allir aðrir löngu komnir aftur, skransalinn m.a.s. kominn í pott. Blómasalinn ku hafa týnst í miðju hlaupi og töldu viðstaddir að líklega hefði hann grafið sig í skafl í Suðurhlíðinni og það mætti byrja að leita að honum í vor. Á hlaupinu var Þorvaldur einnig upplýstur um það að hann væri að flytja til Sauðárkróks, en það kom honum á óvart.

Það var setið góða stund í potti og tekin rispa á helztu málefnum. Þar voru próessorinn, Karl Gústaf, Helmut, dr. Jóhanna, Flosi, Frikki, Denni, blómasalinn og ritari. Bjössi seinn og einhvers staðar var Benzinn að skvera sig til. Meðal þess sem bar á góma var Lagavulin-flaskan sem blómasalinn á en ritari ágirnist, eðalviskí úr skozku eyjunum. Mun blómasalinn hafa gripið til sérstakra ráðstafana til að koma flöskunni í öruggt var. Svo tóku menn að tygja sig til brottferðar á Ljónið.

Þessi vísa var flutt:
Hundrað prósent hef ég þrótt,
hár og myndarlegur.
Ég ætla að búa til barn í nótt
og byrja klukkan fjegur.

Góður hópur samankominn á Ljóninu og var pantaður Benni og bjór. Bernaise-borgarinn bragðaðist vel. Pólitíkin greind og spáð í nýjustu viðburði og bröltið í Engeyjar-Bjarna, getum leitt að því að hann væri að brjótast út úr skugga Hádegismóra og marka sjálfum sér bás sem formaður í krafti eigin mannkosta. Rætt um líklega forsetaframbjóðendur (þ.e. ef núverandi forseti fer ekki fram aftur) og ýmsir kostir nefndir. Var loks ákveðið að Hlaupasamtökin myndu tefla fram eigin frambjóðanda, en viðstaddir gátu ekki gert upp á milli Ó. Þorsteinssonar og V. Bjarnasonar og kallar erindið því á frekari umfjöllun í hópnum. Einhverjir hugðu á samskokk í fyrramálið, en áhyggjur voru viðraðar af færinu. Þó mun öruggt að hlaupið verður n.k. sunnudag kl. 10:10.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband