2.2.2011 | 21:04
Ofsögum sagt
Sumir hafa fullyrt að ritari fari með hreinar lygar í pistlum sínum, afflytji sannleikann um sómakæra einstaklinga og afskræmi skelfilega afrek þeirra á hlaupabrautinni. En hér vill ritari koma þeim vörnum við að um OFSAGNIR sé að ræða, fyrir misskilning eða misheyrn verði til ofsögn á hlaupum sem er þá ofsögð í pistli dagsins. Þetta er ekki beinlínis lygi, en ekki fyllilega farið rétt með og er þá réttlætingin sú að lögmál frásagnarinnar kalli á sveigjanleika í framsetningu helztu atriða og afstæðna vegna þessarar misheyrnar eða misgánings ritara. Fer hann hér með fram á afsökunarbeiðni frá þeim sem komið hafa þessum útbreidda kvitt á kreik. En þá að hlaupi dagsins.
Sökum viðvarandi meiðsla og örkumlunar var ritari ekki mættur í hlaup dagsins og kann að vera að menn spyrji: hvers vegna er þá verið að rita pistil? Ritari spyr á móti: er bannað að rita pistil óhlaupinn? Á maður bara að skammast sín, fara inn í skáp og draga eitthvað gamalt yfir sig, eins og Svíinn? Þessu hafnar ritari, hann lætur pennann rápa þegar innblásturinn kallar á slíkt.
Er komið var til Laugar um sexleytið var Rúnar að koma tilbaka og mun hafa farið stuttan skrepp að þessu sinni. Lítillega rætt um meiðsli og endurkomu til hlaupa eftir fjarveru, en upplýst að dagsskipunin hafi hljóðað upp á Þriggjabrúa.
Þessu næst er farið í Útiklefa, Heitasta, Gufu og svo í Örlygshöfn. Ekki hafði ritari legið lengi þar er hann sá blómasalann koma út á Laugarsvæðið og fara beint í Heitasta og hafði greinilega ekki farið langt að þessu sinni. Ekki var látið svo lítið að kíkja í pott til ritara og eru enn á ný staðfestir eineltistilburðir gagnvart veiku fólki. Ég lét þetta ekki á mig fá, enda nóg af gáfuðu og skemmtilegu fólki í potti að tala við. Segir ekki fleira af ferðum blómasala, nema hvað er komið var upp úr voru hlauparar komnir tilbaka úr spretthörðu Þriggjabrúa. Átti ritari erindi við Melabúðar-Frikka og settust þeir á rökstóla. Þar voru einnig Bjössi, Benzinn, Flosi, Hjálmar, dr. Jóhanna, Helmut, Ósk og líklega Jóhanna Ólafs í fettum á gólfinu. Síðan kom prófessorinn og sagði svakalega svallsögur af sér og bræðrum sínum, hálf- og semi-.
Er hér var komið minntust menn þess að næstkomandi föstudag er Fyrsti Föstudagur febrúarmánaðar. Af því tilefni er heimilt að hefja eins og hálfan bjór á loft og innbyrða bernaise-borgara á Ljóninu. Hvernig líst mönnum á það?
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.