Fámennt á miðvikudegi

Aðeins helztu naglarnir voru mættir í hlaupi dagsins: Benzinn, blómasalinn, Kári, Bjössi, Þorvaldur, Maggi, Helmut - og svo sást Jóhanna í mýflugumynd. Magga mætti í Brottfararsal með dóttur sína, lítið skinn sem faldi sig bakvið mömmu sína þegar hún sá Bjössa og Kára sem vildu vingast, hún hefur trúlega haldið að þeir væru tröllkarlar. Einhver hafði á orði að á morgun yrði Powerade-hlaup og því mætti fara stutt í dag. "Já," sagði Helmut, "eigum við ekki að fara Hlíðarfót rólega?" Ritari samsinnti þessu og ekki þurfti að snúa upp á handlegginn á Magga til þess að fá hann til að fallast á stutt.

Veður var fallegt, hiti við frostmark, heiðskírt en farið að dimma og logn. Stefnan sett á Ægisíðu og hraðinn settur upp, farið á ca. 5 mín. tempói  inn í Nauthólsvík með Bjössa, Jóhönnu og Helmut. Þar ákváðum við að bíða eftir hægari hlaupurum, Magga, Bjarna og blómasalanum. Er hér var komið vildi blómasalinn halda áfram og fara Þriggjabrúa, við þvældum honum Hlíðarfótinn með fyrirfram sviknu loforði um að hlaupa Powerade með honum á morgun. Hér gáfu þeir Benzinn í. Hægðu þó á sér á plani hjá Gvuðsmönnum. Þar náði ég þeim, laumaðist upp að hægra eyranu á blómasalanum og öskraði eitthvað um að drulla sér áfram, fitubollan þín! Hann tók kipp og skaust áfram og stakk okkur af, hefur líklega aldrei hlaupið jafnhratt á ævinni, enda sýndi klukkan hans 4 mín. tempó hraðast í dag.

Á Hringbrautinni fórum við Þrjár brýr til að lengja og enduðum í 8,4 km á meðaltempói 5:25. Teygðum á Plani, enda veður enn með miklum ágætum. Þar tóku menn að munnhöggvast, m.a. um jólin. Blómasalinn sagði að ef maður tæki matinn, drykkinn og gjafirnar út úr jólajöfnunni mætti alveg eins fella þau niður. Talið barst að Jóni Gnarr og Orkuveitunni, sem Benzinn vildi meina að hefði farið á hausinn við að kaupa einhverja sveitahitaveitu af Borgfirðingum, sem aðrir töldu að hlyti að vera misskilningur.

Pottur stuttur og snarpur. Rætt um transfitusýrur og beztu poppunaraðferðina. Bjössi gaf út lýsingu, nota grænmetisolíu, Isio-4 eða Canola, láta fljóta yfir baunirnar og hitann í botn. Þegar lokið færi að lyftast er hitinn tekinn af, pottur af hellu og lok tekið af til þess að tryggja ferskleika. Biggi var mættur í pott er hér var komið og gaf út eigin lýsingu, sem hann át að mestu leyti upp eftir Bjössa. Blómasalinn á leið í Kópavoginn að borða saltkjöt og baunir. Hann var minntur á vogun í fyrramálið - það runnu á hann tvær grímur og hann vissi ekki hvernig hann gæti leyst þetta dilemma.

Föstudagur og afmælishátiíð Hlaupasamtakanna á næsta leiti - sjáumst hress og kát!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband