Rólegur mánudagur að loknu Samskokki

Mikil ánægja var með Samskokk í boði Hlaupasamtaka Lýðveldisins laugardaginn 6 nóvember. Veður mun hafa verið einstakt. Ó. Þorsteinsson Formaður var viðstaddur og þótti tilkomumikil sýn að sjá á annað hundrað hlaupara skeiða af stað eftir hlaupastíg á Ægisíðu og sást vart annað en hlauparar svo langt sem augað eygði. Hér fylltist formaðurinn stolti. Að hlaupi loknu dúkkaði blómasalinn upp og hafði tekið að sér flutning aðfanga fremur en að hlaupa. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram á þessu háttalagi blómasalans og verður ekkert fullyrt hér. Veitingar miklar og rausnarlegar í boði Melabúðar eftir hlaup. Viðstaddir voru ánægðir með fiskikar fullt af köldu vatni, en menn lýstu jafnframt vonbrigðum yfir því að fá ekki að berja augum þær þjóðsagnakenndu sögupersónur blómasalann og ritarann - og einstaka átti sér þá ósk heitasta að fá að sjá Benzinn. ´Nú, nú, það verður ekki á allt kosið.

Margir afbragðshlauparar mættir í hlaupi dagsins. Síðustu drög að afmælishátíð lögð  og verður dagskrá fljótlega send þeim sem staðfest hafa þátttöku. Fremur kalsalegt var í veðri, vindur og lágt hitastig. Þrjár vegalengdir í boði: Hlíðarfótur, sprettir á Nesi og Stokkur. Ég ákvað að slást í för með Magga, Benzinum, dr. Jóhönnu og Georgi - en öll fórum við stytztu leið, sem í hlaupinu hlaut nafnið "Hlífðarfótur" vegna þess að aðeins lökustu hlauparar láta það fréttast að þeir hlaupi þessa skammarlegu vegalengd. En við vorum alveg róleg og bara ánægð með okkur. Við Benzinn sýndum Magnúsi mikla gæzku, biðum eftir honum og hvöttum hann áfram. En þegar komið var í Hlíðina fórum við að herða á kappanum, öskruðum á hann að drullast úr sporunum og halda uppi einhverju tempói. Maggi kvartaði sáran undan hraðanum og hörkunni sem við sýndum honum, en það var engin miskunn hjá... Benzinum.

Dr. Jóhanna nokkuð á undan okkur ásamt Georgi, en Rúnar hjólandi á hælunum á okkur. Við ákváðum að taka þrjár brýr á Hringbrautinni, enn og aftur var það Benzinn sem stjórnaði för og keyrði okkur áfram. En þetta var rólegt, stoppuðum iðulega og tókum spjall saman. Kláruðum þetta svo með góðum spretti. Teygt í Móttökusal og fljótlega komu þau hin sem tóku spretti á Nesið í skítakulda og létu illa yfir hlutskipti sínu: Flóki, Magga, Siggi Ingvars og Frikki Meló.

Í potti spunnust umræður um hvað þeir Flosi og Fróði hefðu tekið sér fyrir ... fætur. Var rifjaður upp sá vani prófessorsins að  teyma menn með sér, helzt út fyrir bæjarmörkin, skilja þá eftir þar og taka sprettinn heim. Í pott kom Flosi og kvað þá Fróða hafa hlaupið austur að Elliðaám. Þar reyndi prófessorinn að skilja Flosa eftir, en tókst ekki, enda átti hann í erfiðleikum með Stokkinn fyrsta spölinn. Það var ekki fyrr en við Umferðamiðstöð að prófessorinn náði að hrista barnaskólakennarann af sér og skilja hann eftir, sem getur varla talizt mikið afrek er þar var komið.

Blómsalinn lýsti með fjarveru sinni í dag, enda fluttur með rekstur sinn í Hafnarfjörð og þyrfti helzt að taka bátinn frá Álverinu í bæinn til að ná hlaupi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband