Sólskinshlaupari sýnir yfirbót

Jörundur hefur opinberlega játað að vera sólskinshlaupari. Hann er stoltur af því. Hann kveðst ekki hlaupa með harðlífissvip. En þessi sólskinshlaupari mætti þó til hlaups á miðvikudegi þótt ekki væri veður skemmtilegt. Það var ekkert leiðinlegt, bara ekki skemmtilegt. Nokkur fjöldi mættur, þó var um það rætt að próf. Fróði hefur ekki sést að hlaupi lengi. Um þetta var rætt í Brottfararsal þar sem rektor Gísli og ritari sátu lengi vel og ræddu menn og málefni. M.a. var rætt um ágætan árangur hlaupara vorra í haustmaraþoni.

Magga þjálfari vildi sjá Þriggjabrúa með stígandi. Það voru nokkrir bjartir sem tóku forystuna þegar í upphafi. Athygli vakti hve blómasalinn virtist brattur framan af. Ritari hugsaði með sér að þetta gæti varla enst. Dólaði einn sér og fór sér hægt, alltof mikið klæddur. Á endanum drógum við þá Kára og Gísla uppi, sem höfðu lagt af stað á undan okkur. Hver er þá ekki lentur með þessum hægu félögum? Blómasalinn sprunginn og kominn í hæga gírinn. Þetta vissi maður!

Eftir þetta var grúpperingin þessi: Gísli, Jörundur, blómasalinn, ritari og svo Benzinn sem náði okkur við Kringlumýrarbraut. Einhvers staðar var Þorvaldur að snövla í kringum okkur og vorum við rétt búnir að missa hann í kirkjugarðinn, þar sem ungar konur hlupu, en við forðuðum því og drógum hann með okkur fyrir neðan garðinn. Hann var ekki alls kostar sáttur við þá tilhögun.

Farin Suðurhlíð, en menn tóku því afar rólega, gengu jafnvel á köflum. Við Benzinn pískuðum menn áfram, en nenntum svo ekki að bíða og skildum þá hina eftir. Farið upp hjá Perlu og niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Tókum brýrnar á Hringbraut og lengdum. Stóðst á endum að þeir hinir náðu okkur er við komum aftur suður yfir Hringbrautina. Dólað til Laugar. Þannig voru farnir einhverjir 10-11 km á rólegu nótunum. Hinir munu hafa tekið Þriggjabrúa á útopnuðu og komu tilbaka með blóðbragð í munni. Hefðbundið afslappelsi í potti á eftir.

Nú hverfa blómasali og ritari af landi brott og hlaupa næst í næstu viku. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband