25.10.2010 | 21:22
Nú vitum við hverjir eru Naglar
Ritari sendi út misvísandi tilkynningu á póstlista Samtakanna fyrr um daginn, gefandi í skyn að vegna Kvennafrís myndu tilteknir hlauparar hugsanlega vera of uppteknir af eldamennsku og ómegð til þess að geta mætt í hlaup. Skilaboðin voru auðvitað send út til að prófa karaktér ákveðinna einstaklinga. Blómasalinn féll á prófinu. Hann nýtti sér skilaboðin til þess að skrópa í hlaupi dagsins og taldi sig hafa gilda afsökun. En afsakanir eru engar til og engar teknar gildar á dögum sem þessum: menn sem ekki mæta til hlaups vegna veðurs eru kallaðir einu nafni: SÓLSKINSHLAUPARAR!!! Þannig er það og þannig mun það vera. Veður var sumsé ekki það hagstæðasta til hlaupa, austanalvitlaust með rigningu.
Af þessari ástæðu verða þeir nefndir sem mættu í hlaup dagsins og eru því réttnefndir NAGLAR: Magga, Rúnar (ja, á hjóli..?, OK nagli),Flosi, Karl, Magnús tannlæknir, Bjössi (nema hvað?), Helmut, Georg, Jóhanna, Birgir hlaupari, Rannveig Oddsdóttir, dr. Jóhanna, Frikki Meló. Ekki man ég eftir að hafa séð prófessor Fróða og er hann þó upphafsmaður sólskinshlauparanafnbótarinnar. Ekki var Benzinn eða Kári, einhverjir mestir harðdálkar sem hlaupa með Hlaupasamtökunum.
Ekki að þetta hafi verið merkilegt hlaup. Það var dólað sér út að Dælu gegnum bakgarða í 107 og um Skerjafjörðinn. Þaðan var farið á spretti tilbaka og mátti skilja fyrirmæli þjálfara sem svo að menn mættu hætta við Hofsvallagötu. Fáir létu sér nægja svo stutt hlaup, enda er það í vorum hópi kallað Aumingi. Ég tölti með Helmut vestur að Hagkaupum og svo fórum við um bakgötur tilbaka austur úr til Laugar í nokkrum mótvindi. Einhverjir þraukuðu lengur og fóru alla leið vestur á Lindarbraut, en þaðan um götur milli húsa á Nesi.
Blómasalinn mætti í pott og hafði engar afsakanir fram að færa fyrir fjarvist sinni. Er nú að sjá hvort hann bætir ráð sitt n.k. miðvikudag.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:33 | Facebook
Athugasemdir
Sólskinshlaupari er sá sem hleypur sér til ánægju og heilsubótar. Sólskinshlaupari er sá sem hleypur ekki í roki og stórhríð. Sólskinshlaupari kemur í mark með SÓLSKINSbros og líður vel. Sólskinshlaupari hleypur ekki í óveðri með harðlífissvip og líður illa. Ég er sólskinshlaupari.
Jörundur (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.