10.10.2010 | 14:23
Þetta fer bara batnandi...
Getur gott orðið betra? Já, ekki ber á öðru. Endalaus veðurblíða þessa haustdaga, sól skín í heiði, hiti eins og á góðum sumardegi og það hreyfir ekki vind. Vel auglýst hlaup lokkar til sín vaska drengi: Jörundur, Gísli, Flosi, Þorvaldur, Bjössi, Benzinn, Kári, Ólafur ritari, Ingi - og loks, Einar blómasali, seinn að vanda. Það var lagt í hann stundvíslega 10 mínútur og 10 sekúndur yfir 10.
Farið afar hægt af stað að beiðni viðstaddra. Ekki var beðið eftir blómasalanum, enda löngu búið að ákveða brottfararstund. Það er bara hans mál ef hann hunsar fyrirfram ákveðna brottfarartíma, hann sér þá að það er ekki beðið eftir honum. Ægisíðan skartaði sínu fegursta, hafflöturinn spegilsléttur, sjóbað hvarflaði að einhverjum, og Gísli sagði að það hefði verið gott að fara í sjó, "en það er bara aldrei gert á sunnudögum". Þar með var ekki talað meira um það. Spurt eftir Sveifluhálsfaranum, engar fréttir. "Ætli hann sé ekki enn að hlaupa" sagði einhver.
Er komið var í Skerjafjörð mætti okkur einkennileg sjón: Ó. Þorsteinsson á reiðhjóli og kona hans Helga hlaupandi með. Vissulega hópuðust hlauparar um Foringja sinn og spurðu almæltra tíðinda. Hann varðist frétta, en lofaði tveimur góðum sögum í potti. Við áfram með það. Gerður hefðbundinn stanz í Nauthólsvík þrátt fyrir að menn vildu helzt halda áfram, en hefðirnar eru sterkar.
Gísli var skilgreindur "nýr" í hópnum og þurfti því að fá að heyra söguna um hjónin í Garðinum. Jafnframt fylgdu einhverjar glósur um umgengni frænda míns um staðreyndir, sem ku vera alla vega. Við hlupum áfram upp úr Garði og hefðbundna leið hjá Veðurstofu niður á Klambratún. Enn var rifist um nafnið á túninu. En það stöðvaði okkur ekki frá því að taka sprettinn og fórum við nokkrir á undir fjögurra mínútna tempói þar.
Farið niður á Sæbraut og horft á Hörpu. Einar blómasali farinn að blanda sér í hlaupið. Mýrargata, þar rákumst við á dr. Friðrik á reiðhjóli, Ægisgata, Hofsvallagata. Teygt lengi vel á Plani og spjallað við aðvífandi gesti. Biggi mættur á reiðhjóli, ásamt konu og dóttur, óhlaupinn. Í potti var dr. Baldur spurður að því hversu mörg prófastsdæmi væru í landinu. "Það veit ég ekki og hef engan áhuga á að vita heldur." "Ja, þá veiztu ekki mikið!" var svarað að bragði. Rifjuð upp saga þessara ummæla, og talið að þau eigi rót að rekja til jarðarfarar þar sem meðal gesta voru Ólafur landlæknir og HHG. Frábær dagur í frábærum hópi að baki. Það gerist varla betra.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt 11.10.2010 kl. 05:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.