6.10.2010 | 21:40
Titill þessarar frásagnar var ritskoðaður í miðju hlaupi
Við erum misjafnlega viðkvæm fyrir því sem fer í blogg Samtaka Vorra. Ritari er ekki viðkvæmur fyrir því að láta sem mest flakka. Hins vegar hafa menn bannað mér að setja sumt í pistla. Jafnvel hringt í mig og beðið mig um að þurrka út úr frásögnum atriði sem þeim hafa þótt meiðandi. Hef ég orðið við því undanbragðalaust í öllum tilvikum.
Slíkur fjöldi mættur til hlaups að fljótlegra er að telja upp þá sem voru fjarverandi: Jörundur, Benedikt, Eiríkur, Dagný, Þorbjörg M., dr. Jóhanna - nei, heyrðu þetta getur haldið áfram í það endalausa. En mæting dagsins (22 hlaupandi, einn á hjóli) sýndi fram á að hér fer öflugur hlaupahópur og góður félagsskapur. Veður var líka með slíkum eindæmum að það hefði verið syndsamlegt að sleppa hlaupi: 8 stiga hiti, logn, haustblíða. Magga vildi breyta til. Kvíða- og angistarstunur liðu yfir Plan. Þegar til átti að taka var þetta sosum engin nýjung, dól út að skítastöð, og þéttingur út að Suðurhlíð, upp hjá Perlu, niður stokk, Flugvallarveg tilbaka í Nauthólsvík og svo tilbaka.
Við Ágúst horfðum hvor á annan og púkar hoppuðu á öxlunum á okkur og öskruðu: strákar! ekki gera eins og Magga segir ykkur! Ekki þurfti að endurtaka þetta oft, við ákváðum að á slíkum degi væri óhjákvæmilegt að lengja. Ég vildi draga blómasalann með mér, hann eygir enn von um haustmaraþon. Svo lagði ég að Magga að renna skeiðið inn að Elliðaám. Hann var fullur efasemda, en ætlaði að sjá til.
Gríðarleg stemmning á Ægisíðu, mikill hugur í fólki, mikið grín, mikið gaman. Ég bauðst til þess að rifja upp gamla brandara, en það var afþakkað. Ágúst upplýsti að hann ætlaði í Sveifluhálshlaup á laugardag, en það mun vera um 42 km. Ekki hafði hann orð á að öðrum væri boðið, en þó er ekki ósennilegt að fólk geti komið inn í hlaupið á völdum stöðum. Þarna munu einnig hlaupa Melkorka með maka í undirbúningi fyrir New York maraþon.
Bjarni varð óður þegar hjólreiðamaður kom á hlaupastígnum í Skerjafirði, við óttuðumst að hann myndi ráðast að manninum og reyndum að róa hann. Í Nauthólsvík var fjöldi fólks á baðströndinni og í sjónum, enda hásjávað. Áfram á Flanir og hér vorum við Maggi orðnir einir, en Einar kom í humáttina á eftir okkur. Við yfir brú og áfram í Fossvoginn, prófessorinn á undan okkur. Hann tók Kópavogslykkju og náði okkur, við fylgdumst að um sinn og mættum fjölda glæsilegra kvenna sem heilsuðu okkur.
Ágúst fór upp í Kópavoginn, en við fórum hjá Víkingsvelli og út í hólma í Elliðaám. Aftur undir Breiðholtsbrú og settum stefnuna á Stokk. Hér ákváðum við að hægja ferðina og ganga upp Stokk. Það var allt í lagi, við sögðum hvor öðrum ævisögur okkar, einkum þá hluta er við vorum Íslendingar í útlöndum að störfum á ólíkum vettvangi. Mikill fróðleikur, mikill lærdómur. Er komið var að Réttarholtsskóla dúkkaði blómasalinn upp að baki okkur og hafði tekið sprett. Eftir þetta héldum við hópinn og ræddum málin í þaula. Á einhverjum tímapunkti datt heiti pistils niður í kollinn á ritara, en hann var óðara stoppaður með titilinn þar sem hann þætti of djarfur.
Ósköp fannst manni þetta létt og löðurmannlegt verk, farið rólega yfir og reynt að njóta hlaupsins til hins ítrasta. Áður en maður vissi af var þessu lokið. Við Hagatorg ákvað Maggi að fara inn á Hótel Sögu og sækja einhvern til þess að vekja athygli á járni sem stendur upp úr jörðinni fyrir utan hótel og vegfarendum stafar hætta af. Við Einar áfram til Laugar og teygðum vel á Plani. Þar spannst umræða um breiðband og hvernig væri rétt að snúa sér í þeim málum og koma með krók á móti þessu skítabragði Símans. Allmargir farnir er komið var í pott, þó voru þar Flosi, Bjössi, Bjarni og Guðrún dóttir hans. Síðastur til Laugar kom Ágúst og hafði farið 24,5 km.
Næst hlaupið föstudag, 16:30.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.