Menn hlaupa annars staðar - eða hlaupa alls ekki

Er von menn spyrji: hvar var fólkið? Ekki nema handfylli hlaupara mætt í Brottfararsal og mátti þar bera kennsl á prófessor Fróða, Flosa, Magnús Júlíus, Þorvald, Möggu, Bjössa, Benzinn, Guðrúnu dóttur hans, Ólaf ritara, Þorbjörgu K., Frikka kaupmann, dr. Jóhönnu og Jóhönnu hlaupara. Það fréttist af Jörundi hlaupandi í hádeginu (prívathlaup). Þar fyrir utan hefur frétzt af Helmut og Eiríki hlaupandi kl. fimm á morgnana í Laugardalnum. Þetta þarf að rannsaka.

Prófessorinn hefur lýst áhuga á að þreyta ofurhlaup í Atacama-eyðimörkinni í Chile í marz á næsta ári. Undirbúningur er hafinn. Hann fer aðeins löng hlaup þessi missirin. Í dag var það 28 km. Ekki voru fleiri með löng hlaup á prjónunum, ætluðu Þriggjabrúa. Um þetta fór þjálfari nokkrum orðum. Þorvaldur hafði á orði að orðum væri ekki einu sinni eytt að fyrirætlunum aumingja sem ætluðu styttra en Þriggjabrúa. Hér er vissulega brotalöm í starfsemi Samtakanna sem þarf að taka á. Það að fara stutt, segjum 8 km, er betra en fara ekki neitt eins og dæmi eru um á þessum degi, meira um það seinna.

Varla þarf að fara mörgum orðum um upphaf hlaups, það var í hefðbundnum stíl, sama fólk og venjulega sem æddi áfram á undan öðrum. Einhver vindur á suðaustan, rigndi öðru hverju, 14 stiga hiti. Ritari eitthvað þungur á sér og þreyttur, en ákvað engu að síður að fara Þriggjabrúa með þeim hinum. Það fór þó svo að ég lenti í slagtogi við Benzinn og dóttur hans sem var að fara sitt fyrsta Þriggjabrúa og stóð sig með miklum sóma.

Það sást á eftir prófessornum í Fossvoginn og Federico fór með honum, enda á leiðinni í maraþon á Ítalíu í nóvember, þarf að fara að lengja. Við hins vegar upp Boggabrekkuna erfiðu. Áfram eftir Bústaðavegi og yfir hjá RÚV - Fram og þannig áfram. Þegar við snerum niður Kringlumýrarbraut gerðust hlutirnir, blá jeppabifreið stanzaði hinum megin við götuna, ökumaðurinn skrúfaði niður bílrúðuna og hóf að þenja bílflautuna og veifa ákaft.Var þar mættur blómasalinn, sem kaus að sinna störfum sínum frekar en mæta til hlaups eins og félagar hans búast við af honum. Var haft á orði hvað bílflautan í bílnum hans væri orðin hommaleg.

Við áfram niður eftir og þau feðgin yfirleitt á undan mér, sýndu mér þá aumingjagæzku öðru hverju að staldra við og bíða eftir mér. Stoppað við brunninn á Sæbraut og drukkið vatn. Ákveðið að fara á gamlar slóðir, Mýrargötu, Ægisgötu. Stoppað við Kristskirkju hvar við Benzinn signdum okkur. Og hlaupi lokið. Teygt í Sal með Bjössa og Jóhönnu. Þar var einnig Biggi, en ekki vissu menn til þess að hann hefði hlaupið. Fellur hann þar með í katagoríu þeirra sem þarf að hefja rannsókn á og ákveða aðgerðir gegn.

Í potti sátu dr. Jóhanna, Flosi og ritari. Svo kom Bjössi. Þá komu sundkrakkar úr KR. Við reyndum að hræða þau með Bjössa, og hann yggldi sig. En þau hlógu bara og sögðu: vertu nú alminlegur við okkur. Þá kom Bjarni, þá héldum við að mætti hræða þau duglega: þið viljið ekki reyta þennan mann til reiði! Þá upphófu þau mikla lofrullu um Geir Haarde og sögðu að Benzinn hlyti að vera mikill snillingur. Benzinum þótti gott lofið og mýktist allur við. Börn eru útsmogin nú til dags!

Á föstudag er Fyrsti Föstudagur og auk þess fyrsti október 2010. Hefð er um það að hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins geri sér glaðan dag á þeim degi. Er þess vænst að menn geri skyldu sína í þeim efnum og er jafnframt kallað eftir liðsstyrk af Nesi svo að vel megi vera. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband