Við stóðum okkur vel

Við stóðum okkur vel í Brúarhlaupi: unnum tvo flokka kvenna og lentum í öðru sæti í flokki karla fimmtugra og eldri. Tímar góðir og tjóir ekki að bera því við að þarna hafi verið þreytt kapphlaup við einhverja sveitamenn: þetta voru alvöru hlauparar. Frammistaðan var lofsverð! Um þetta var rætt í Brottfararsal Laugar á sunnudagsmorgni er menn söfnuðust saman til hlaups. Blómasalinn mætti með litla skjóðu á baki og engin hlaupaföt, hann dæmdi sig til aumingjaskapar og útilokunar. En þessir mættu og hlupu. Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Flosi, ritari og Benz. Ritari fór 18 km í gær og Jörundur tæpa 24 km.

Af nægu söguefni var að taka, enda Vilhjálmur bæði í sjónvarpi og Séð og heyrt. Ó. Þorsteinsson í hefðbundinni Víkingstreyju í tilefni af góðu gengi félagsliðs hans í boltanum og til að storka Möllerum og Schrömurum Vesturbæjarins. Þessi fámenni hópur afbragðshlaupara lagði rólega af stað í ágætu veðri, 15 stigum, þurru veðri og hægu. Það fengust fréttir af Fyrsta Föstudegi á Ljóninu þar sem nokkrir félagar lentu í slagtogi við hjúkrunarfræðinema sem gerðu sér glaðan dag. Voru nefndir til sögu blómasali, próf. Fróði, Jörundur og Biggi.

Fátt tíðinda gerðist framan af, en er komið var í Nauthólsvík tókum við eftir að búið er að helluleggja skotið hjá Brokey sem hann Magnús hefur merkt sér. Getgátur voru ennfremur uppi um að menn frá Rafmagnsveitum ríkisins hefðu lagt þar í rafmagnsþil í þeirri von að stuðla að auknu hreinlæti og bættri umgengni, en veggir þarna eru sumir mosavaxnir.

Það var þetta hefðbundna, Kirkjugarður, Veðurstofa, Hlíðar og Klambrar. Benzinn var með hávaða alla leiðina, meira hvað sá maður getur bæði hlaupið og blaðrað. Við héldum nokkurn veginn hópinn og stönzuðum til þess að tímajafna og drekka vatn. En það var haldið vel áfram, farið um Austurvöll og upp Túngötu, framhjá Kristskirkju, þar sem var stoppað og menn signdu sig.

Í potti voru þeir spekingar Mímir, Baldur og Einar Gunnar. Setið góða stund og tekin góð rispa á helztu málefnum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband