Hlaupið með höfðingja

Ritari mættur snemma í Útiklefa og bjó sig undir hlaup. Fljótlega mættu Ó. Þorsteinsson Víkingur, Björn Guðmundsson matreiðslulistamaður, Flosi Kristjánsson barnaskólakennari og E. Jónsson Breiðdal Blómasali. Það urðu heldur betur umræður og umfjallanir meðal þessara félaga. Björn sagði farir sínar ekki sléttar af skemmtiferð með vinnufélögunum út í Viðey á laugardeginum þar sem hann var lokaður inni frá 19 til 22 og hefði helzt kosið að synda í land. Ég vakti athygli frænda míns á þeim sið Reynimelsbræðra að klæðast fyrst af öllu sokkum, en standa að öðru leyti berrassaðir á miðju klefagólfi. Þetta háttalag verður félags- og sálfræðingum framtíðarinnar stöðugur hausverkur, og hafa þá hvárirtveggja nakkvat at iðja.

Nokkur fjöldi hlaupara í Brottfararsal og þykir ekki ástæða til að nefna aðra en próf. Fróða, sem hefur ekki sýnt sig mikið á meðal vor upp á síðkastið. Ég var upptekinn af að ræða við frænda minn og uppfræða hann um það helzta sem gerzt hefur í Vesturbæjarlaug í seinni tíð, og missti því af fyrirmælum þjálfara. Þótt ég ætti að vinna mér það til lífs gæti ég ekki sagt hvað þeir lögðu fyrir í kvöld. Seint og um síðir silaðist hersingin af stað og setti stefnuna á Víðimel. Þaðan í austurátt út á Suðurgötu og svo suður úr í átt að Skerjafirði.

Við frændur tókum því rólega, enda af mörgu að taka í umræðum um það sem nýlegast er. M.a. lýsti ég fyrir honum fyrirhugaðri eldamennsku í tilefni af brotthvarfi dóttur minnar til New York á morgun: Canelloni. Var það löng lýsing og ítarleg, með öllum ingredíönsum, kryddum og eldun. Nokkurn tíma helguðum við umfjöllun um hlaupafélaga okkar og það sem nýjast væri á þeim vettvangi. Gerður stanz í Skerjafirði og lagðar línur um spretti vestur úr. Við dóluðum okkur í humátt á eftir þeim hinum og töldum okkur trú um að þetta væru sprettir. Mættum Neshópi,  þar sem fara í fylkingarbrjósti glaðbeittar og glæsilegar konur. Hver hlaupahópur væri vel sæmdur af svo glæsilegum fulltrúum!

Svo var aðeins Ægisíðan og við tókum glæsilegan lokasprett, það var staðnæmst við Hofsvallagötu, létum það gott heita. Aðrir fóru á Nes og skilst okkur að menn hafi lokið 12 km á hlandspreng, menn komnir af léttasta skeiði sáust á harðaspretti á eftir hindunum okkar sem þekkja hvorki þreytu né þrekleysi. Það var setið góða stund í potti og haldið áfram að fjalla um seinustu jarðarfarir og þau ævintýri sem gerast við slík tækifæri.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband