Sprettir í byrjun viku

Fjöldi hlaupara mættur á mánudegi. Fremstan meðal jafningja skal nefna Formann til Lífstíðar, frænda ritara, Ó. Þorsteinsson Víking, í nýrri Víkingstreyju sem hann vann í spurningakeppni. Við áttum langt spjall á tröppu Laugar, sem meðal annars leiddi í ljós að V. Bjarnason væri allur að mildast í afstöðu til félaga sinna í Hlaupasamtökunum, auk þess sem rispa var tekin á þýzkum menntamönnum  sem sóttu Ísland heim á þriðja og fjórða áratug fyrri aldar, ferðuðust um landið, tóku myndir og skráðu hjá sér frásagnir um ferðalögin. Allt birt í tímamótaverki Örlygs Hálfdanarsonar, Úr torfbæjum inn í tækniöld.

Plan dagsins: sprettir í Öskjuhlíð. Margrét ein með hópinn og virtist ráða fyllilega við óstýriláta hersinguna. Blómasalinn seinn að vanda, Friedrich Kaufmann - en menn höfðu litlar áhyggjur af þeim. Þeir voru vísir til að ná okkur. Farið af stað í rólegheitum, veður ágætt, skýjað, logn og hiti 15 gráður. Þetta skiptist von bráðar upp í kunnuglegar fylkingar, hraðafantar fremstir, ritari einn einhves staðar á milli, og svo hægfarar á eftir.

Það eru átök fyrir mann nýstiginn upp úr veikindum að brjótast á 5:30 tempói inn í Nauthólsvík, en það hafðist. Þar stóð Magga vaktina og gætti þess að allir færu rétta leið upp Hi-Lux og gerðu sig klára fyrir spretti í Löngubrekku. Svo var sprett úr spori, stefnt á 6-10 spretti, en við blómasalinn og Jörundur létum okkur nægja að taka fjóra, enda erum við feitir, gamlir eða þreyttir. Svo var stefnan sett á Hlíðarfót og Gvuðsmenn. Margt rætt af trúnaði sem ekki fer lengra, enda er blogg Hlaupasamtakanna ekki vettvangur gróusagna. Á næsta ári ætlar Jörundur að halda upp á sjötugsafmælið með því að hlaupa Laugaveginn og fulla porsjón í RM. Við blómasalinn melduðum okkur strax í heiðursvörðinn.

Pottur var einstaklega vel mannaður. Við blómasali fundum fyrir Ó. Þorsteinsson á tali við unga konu, sem ku vera dóttir Sigríðar sem kenndi ritara frönsku í Reykjavíkur Lærða Skóla. Svo var haldið áfram umræðu um þýzka gesti á Íslandi fyrr á tíð, ferðir þeirra, bæi sem þeir heimsóttu, bændur og búalið, ættingja og afkomendur. Áfram umræða um afdrif Þjóðverja sem sendir voru í fangabúðir á stríðsárunum og þaðan til Þýzkalands, þar sem þeir í vissum tilvikum lentu vitlausu megin við járntjaldið og misstu endanlega tengsl við ástvini á Íslandi. Stuttu síðar komu dr. Björn Á. Guðmundsson, dr. Jóhanna, próf. Flúss og Friedrich Kaufmann. Færðist þá gáski í umræðurnar.

Næst er hlaupið á miðvikudag. Verður farið langt?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband