Minningarhlaup 8. júní 2010

Í dag var þreytt minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar, en í gær, 7. júní, voru 6 ár liðin frá ótímabæru andláti þessa unga og efnilega félaga okkar. Til þess að heiðra minningu hans söfnuðust nokkrir hlauparar saman við Hrafnhóla-afleggjarann ofan við Gljúfrastein og mátti þar bera kennsl á S. Ingvarsson, Ágúst Kvaran, Jörund, S. Gunnsteinsson, Vögg Magnússon, Sif Jónsdóttur, Helmut og dr. Jóhönnu, blómasalann, ritara og fleiri góða hlaupara sem mig vantar nöfnin á. Ágúst kvartaði yfir því að pistlar væru farnir að styttast og lesturinn, sem áður fyrr hefði enst kvöldið, tæki nú í mesta lagi tvær mínútur. Væru þetta mikil viðbrigði fyrir fjölskyldu hans sem vissi fátt skemmtilegra á kvöldvökunni en hlýða á upplestur á pistlum ritara.

Nema hvað, við höldum af stað upp úr 17:30 frá afleggjaranum og austur úr móti umferðinni á veginum. Eftir að við vorum komin yfir Stardalsá sveigðum við yfir veginn og fórum út af veginum og út í móa. Hlupum í átt að Svanavatninu, sem Jörundur svo kallar, niður að því og meðfram því í sandfjöru, upp frá vatni, upp á kindagötur og um móa og djúpt graslendi, þar sem erfitt var að hlaupa. Þarna var gengið á köflum, enda beinlínis hættulegt að hlaupa, þurfti maður á allri sinni einbeitingu að halda. Komið upp á Línuveg og honum fylgt upp á veg. Vegurinn var ójafn og erfiður yfirferðar, mikið af grjóti og krafðist fullrar einbeitingar.

Er hér var komið höfðum við farið 9 km. Biðum eftir þeim sem hægar fóru. Svo var myndaður hringur um minnismerki Guðmundar og flutti Ágúst minningarorð og fræddi viðstadda um Guðmund. Sagði hann að ávallt heyrðust umkvartanir vegna erfiðra hlaupa á þessum slóðum, en ástæðan fyrir hlaupi væri alltaf sú sama: Gummi hefði elskað það!

Eftir þetta var haldið af stað tilbaka, meðfram veginum í mótvindi sem var svalandi, þetta er langur og leiðinlegur kafli, en hlauparar voru yfirleitt í góðum gír og luku hlaupi á góðum spretti. Tekin mynd af hópnum sem verður birt á bloggi Samtaka Vorra innan skamms. Ekki var staldrað lengi við heldur haldið til bæjar. Við Helmut, Jóhanna og blómasalinn fórum í Varmárlaug þar sem við ræddum hótelprísa og ferðalög. Ánægjulegt og gefandi hlaup að baki, á morgun verður Þriggjabrúa, ekki styttra!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Enginn Kvaran?

Flosi Kristjánsson, 9.6.2010 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband