Talandi um tvíræðni: afturvirkar kviðmægðir - vor á Flönum

Það var fámennt í hlaupi dagsins. Ritari mætti í Útiklefa og fann þar á fleti fyrir Þorvald þar sem hann límdi sig allan saman á hæl og hnakka - búinn að týna nýjum hlaupaskóm sem hann skildi eftir í Sundhöllinni um daginn. Þumli stungið út í loftið til að mæla loftþyngd og hitastig - síðan leit ritari á vömb sér og taldi tryggara að klæðast jakka til þess að fela bumbuna. Annað með menn eins og Þorvald sem geta státað af sléttum maga. Hann bauðst til þess að hjálpa mér að vinna á vandanum, gekk til íþróttastofu Laugarinnar þar sem hægt er að taka magaæfingar. Þær virtust dálítið of erfiðar fyrir ritara.

Mætt til hlaups á miðvikudegi auk framangreindra: próf. Fróði, Magga, Rúnar, blómasalinn, Frikki, Ragnar, svo kom Kári hjólandi á Plan rétt fyrir hlaup og kvaðst hafa tafist í traffík. Hér er óhjákvæmilegt að láta þess getið að í samskiptum dagsins hafði ritari lagt til langt hlaup. Blómasali brást við með hvatningu um 30 km hlaup - hið minnsta. Próf. Fróði var aðeins hófstilltari og lagði til 20 til 30 km. - með áherzlu á lægri mörkin. Ritari klykkti út með að segja: það verður sjór! Þjálfarar sögðu: hefðbundið, Þriggjabrúa.

 Hæg ferð um Sólrúnarbraut. Prófessorinn lét þess getið að sig langaði að hlaupa almennilegt hlaup á morgun, kringum Þingvallavatn - helzt 50 km. Ekki voru fleiri sem létu þessa löngun í ljós. Minnt á Neshlaup á laugardaginn. Nú gerðist það sem áður hefur verið gagnrýnt: hópurinn gliðnaði í sundur. Tilteknir hlauparar röðuðu sér fremst og hurfu. Þetta voru Rúnar, Magga, Frikki og Ragnar sem náði þeim með góðum þéttingi frá Dælu. Þar næst kom prófessorinn. Svo kom ritari. Það voru 100  m á milli hópa. Loks kom blómasalinn og Þorvaldur - það voru mikil vonbrigði að sjá feitlagna iðnaðarvörusalann beygja af hjá Nauthóli og stefna á Hlíðarfót. Hvað var í gangi? Hvað var að gerast? Er maðurinn algjör aumingi?

Jæja, áfram haldið. Á þessum kafla skaut þeirri hugsun upp í höfði ritara að fara Þriggjabrúa. En svo sá hann prófessorinn framundan, og þá var bara að halda áfram. Mættum hlaupahópi, líklega Laugaskokki, er komið var niður í Fossvog. Bunan mannhæðarháa söm við sig. Ekki margir hlauparar á ferð. Hlaupið inn að Víkingsheimili, prófessorinn vék af leið og fór í Kópavoginn þar sem gott er að búa, en ritari hélt sig innan eigin sveitarfélags, fór niður að Elliðaám, yfir í hólma og tilbaka aftur, upp Stokkinn. Þá fór vindur að blása móti hlaupara úr vestri eða norðvestri. Erfitt og leiðinlegt að hlaupa svona einn. Til hvers er maður í hlaupahópi ef maður hleypur alltaf einn? Er ekki rétt að hætta þessu bara, liggja heima í sófa og safna spiki?

Hvað um það, ég lauk hlaupi á hægum nótum. Kom til Laugar og hitti Melabúðar-Friðrik. Hann tjáði mér í óspurðum fréttum að til stæði að Vesturbæjarblaðið kæmi n.k. mánudag í Vesturbæjarlaug til þess að taka mynd af hlaupahópnum og afla efnis í grein um Hlaupasamtökin í tilefni af 25 ára afmælinu. Af þeirri ástæðu er brýnt að góð mæting verði á mánudag, einkum og sérílagi að hinar yngri konur mæti og sýni hvílíkt aðdráttarafl Samtök Vor hafa á æskuna. Aukinheldur skal því til skila haldið að næsta föstudag er Fyrsti Föstudagur, sem var slegið á frest seinasta föstudag. Eina vandkvæðið er að daginn eftir að Neshlaup, sem einhverjir kunna að vilja leggja áherzlu á. En vitaskuld gengur Fyrsti fyrir!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband