Afmælisveizla

Magga þjálfari var fertug í dag og var af því tilefni sunginn afmælissöngurinn í Brottfararsal. Utandyra var ákjósanlegt hlaupaveður, sól, 10 stiga hiti, vestanstæður hæglætisvindur, æ fleiri farnir að hlaupa í stuttbuxum og læraskjálftinn í Vestbyen orðinn að mælanlegur í andrúmsloftinu. Allgóð mæting á mánudegi - og bættust þó fleiri við síðar. Skylt er að nefna dr. Friðrik, próf. dr. Fróða, dr. S. Ingvarsson og Flosa. Þá skal getið Eiríks sem er að mæta í hlaup í fyrsta skipti eftir París. Þegar hann var inntur eftir ástæðum fjarverunnar fór hann eitthvað að þusa um blómasalann og hamborgarann sem hann keypti eftir maraþonið og kom með hlaupandi yfir á dýra veitingastaðinn. Ritari áttaði sig ekki alveg á samhenginu og hélt að þessi hlaupari væri með óráði. Og þegar hann var spurður hvort það væri rétt að ljósmóðir á færeysku væri "krakkatogari" sagði hann það helber ósannindi.

Þjálfarar vildu fá spretti í Öskjuhlíðinni. Prófessor Fróði hnussaði og tilkynnti samstundis að það yrði að minnsta kosti farið Þriggjabrúahlaup. Hlauparar af stað á allhröðu tempói. Prófessorinn gerði liðskönnun til þess að sjá hverjir færu Þriggjabrúa. Ritarinn sagði honum að það þýddi ekkert, hann yrði bara skilinn eftir eins og venjulega. "Nei, ekki í þetta skiptið," sagði prófessorinn. Hljómaði kunnuglega. Hópurinn skiptist í tvennt í Nauthólsvík, hluti fór upp í Öskjuhlíðina og tók þar 5-7 spretti í brekkunni, fjórir héldu áfram og fóru uppsetta porsjón: Fróði, Flosi, S. Ingvarsson og ritari.

Við fórum nokkuð hratt yfir og þar sem skjólsælt var gat orðið nokkuð heitt, svitinn rann í stríðum straumum, enda tekið vel á því. Þeir voru eitthvað aðeins á undan mér, en þó aldrei þannig að ég missti fyllilega sjónar af þeim, fyrr en þeir hurfu. Ritari í góðum fíling eftir Boggabrekkuna og gaf bara í. Lauk hlaupi á góðum spretti. Var hissa að sjá engan á Plani að teygja. Þá voru allir komnir inn. Og ekki skrýtið: Magga hélt upp á afmælið með skornum ávöxtum og súkkulaðitertu. Menn réðust á bakkann með góðgætinu og má segja að það hafi horfið eins og dögg fyrir sólu á fimmtán mínútum. Það var ótrúlega svalandi að raða í sig ananas, appelsínum, melónum, vínberjum - og svo tertu á eftir. Nýliði að hlaupum spurði hvort þetta væri alltaf svona eftir hlaup. Nei, bara á mánudögum. Og sem nýliða er komið að þér næst að bjóða upp á veizluna.

Langt á miðvikudag, ekki styttra en 20 km - og Neshlaup á laugardag. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband