Þetta varð sögulegt. Kalt í veðri, 2ja stiga frost og kuldanæðingur, en þó bjart yfir. Mættir valinkunnir hlauparar og hetjur frá París: Rúnar, Margrét, Benedikt, Einar blómasali, og svo við hin, ritari, Flosi, Þorvaldur, Magnús, dr. Karl, dr. Friðrik, Karl af Brimum, Jóhanna (eða svo sögðu þeir, ég veit hins vegar ekki að greina á milli Jóhönnu og Gerðar, því er þetta getgáta). Jæja, það var óskað fólki til hamingju með góðan árangur í París, enda hefur þetta lið ekki látið svo lítið að sýna sig að hlaupum síðan þau komu tilbaka. Margar nýjar upplýsingar komu fram þegar við upphaf hlaups.
Það var sosum ekkert nýtt að þegar hlauparar í París fóru á steikarstað eftir hlaup þar sem bjórinn kostaði 9 evrur, þá fór blómasalinn yfir á MacDonalds, pantaði ostborgara á 2 evrur, heimtaði ókeypis poka undir hann og hljóp með réttinn yfir á steikarstaðinn og snæddi innanum hlaupara sem átu 15 evru steikur og drukku 10 evru bjóra með. Þessu sagði blómasalinn stoltur frá. Hitt er nýtt að karlinn eyddi laugardeginum í búðaráp og notaði við það upp mikla orku sem hefði betur verið geymd fyrir sjálft hlaupið, kannski það hefði náðst sæmilegur árangur þá. Þannig gekk dælan í hlaupinu.
Jæja, planið var að fara upp á Víðimel, að Dælu og á Nes. Þorvaldur hlustaði náttúrlega ekki frekar en fyrri daginn. Var vitlausu megin við Hofsvallagötu og virtist ætla stytztu leið á Nes, en gætti þó að því hvert við ætluðum. Kom svo yfir til okkar á móts við Víðimel og fylgdi okkur, eða réttara sagt, var fremstur meðal jafningja á Suðurgötu. Um það leyti hljóp ég með Benedikt og sagði hann mér í löngu máli frá framferði blómasalans í París. Mætum við þá ekki hlaupara sem gerði sig breiðan og ekki líklegan til að víkja. Við í Hlaupasamtökunum erum ekki heldur þekkt að því að víkja. Þannig að það var bara um það að ræða að spenna fram kassann og sýna breiðfront. Téður hlaupari fékk heldur betur ástæðu til þess að sjá eftir afstöðu sinni, því að hann mætti ritara í öllu sínu veldi, skullu þeir saman og við það kastaðist hlaupari þessi langt út á Suðurgötu og var næstum lentur undir bíl. Mun hann að líkendum hugsa sig tvisvar um áður en hann býður Samtökum Vorum birginn.
Jæja, áfram. Þær hindur voru áfram léttfættar og það var stefnt áfram Fjörðinn. Staldrað við Drulludælu og beðið eftir eftirlegukindum. virðist sem Jóhanna sé ein í prógrammi, aðrir léttir á bárunni. Hún spretti úr spori, aðrir á eftir á dóli. Það var derringur í blómasalanum og hann gerði sér far um að fylgja félögum sínum frá Ódáinsvöllum, en svo sprakk hann og var þá mikið hlegið í mínum hópi. Hann kvaðst vera veikur og viðurkenndi að hann hefði hljómað eins og Andrés Önd að morgni dags. Af því tilefni rifjaði ritari upp þetta ljóð sem blökkusöngkonan Bessie Smith flutti árið 1933 og varð vinsælt:
If you want to have some luck
give your baby your last f...k
don´t come quacking like a duck
do your duty.
Það dugar sumsé skammt að koma kvakandi eins og önd. Jæja, áfram var haldið. Benzinn hafði blandað sér í málin einhvers staðar á leiðinni og þá fara hlutirnir jafnan að gerast. Það er hávaði, það eru sögur. Blómasalinn var við það að gefast upp, en við drifum hann áfram. Við Hofsvallagötu kvaðst hann uppgefinn. Á þetta var ekki hlustað og við nánast héldum á honum gegnum Skjólin. Út að Vegamótum og svo um Rauðvínshverfið tilbaka, Einar rifjaði upp æskuminningar úr hverfinu þar sem hann var frægur Skelfir.
Fjöldi baðgesta í Laugu, svo að við urðum að láta okkur nægja barnapott. Þangað mætti dr. Einar Gunnar og spannst fróðleg umræða um eldgos og málfar. Eitthvað rætt um mat. Flosi og Benzinn mættu í pott með munna fulla af súkkulaðikúlum og olli það blómasalanum slíkri hugarraun að hann hvarf á braut - vonsvikinn. Það hefði hann ekki átt að gera því að fljótlega flæddu súkkulaðikúlur út um allt. Skerjafjarðarskáldið heiðraði okkur með nærveru sinni og flutti ljóð. Rætt um kollubana. Næst hlaupið á miðvikudag. Langt.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Athugasemdir
Í gær var það Gerður Rún sem rann svo létt skeið með okkur.
Flosi Kristjánsson, 20.4.2010 kl. 10:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.