Hlaupið á sögulegum tímum

Á tímum uppgjörs og endurskoðunar gegna Hlaupasamtök Lýðveldisins lykilhlutverki í greiningu og miðlun upplýsinga. Til hlaups á sunnudagsmorgni voru mættir Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Flosi, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur ritari. Magnús strax byrjaður að leita undankomuleiða eða afsakana fyrir styttingu og gátu menn sér til að hann ætti lista heima með afsökunum: þarf að hitta mann, þarf að fara í messu, þarf að fara á Kirkjuráðsfund o.s.frv. Nú brá svo við að frú Sigurlína var með og staðfesti að hann ÆTTI að hlaupa fullan hring í dag - og engar afsakanir! Nei, nei, Magnús sagðist hafa mælt sér mót við mann.

Gríðarlega efnismikið hlaup vegna hinna dramatísku atburða í stjórnmálalífinu í gær þegar tvær forystukonur  kvöddu vettvang stjórnmálanna með tárum. Um þetta var rætt og fleira í upphafi hlaups, en þó einkum um stakketið og fólk sem dvelst ýmist hérna megin að hinu megin stakkets. Farið rólega yfir eins og jafnan á sunnudögum. Rifjaðar upp sögur úr eldri hlaupum. Sumir hlauparar sáu viðtal við Melabúðar-Frikka á ÍNN í vikunni, og var áhyggjum lýst af útganginum á honum. Sagt frá Háskólahlaupi sem var þreytt sl. föstudag undir stjórn Ó. Þorsteinssonar og var heldur fámennara en á seinasta ári.

Fastur þáttur á sunnudögum er spurningaþátturinn Hvað er nýjast af Vilhjálmi? Undir þeirri rúbríkku greinir Ó. Þorsteinsson frá seinustu símtölum og svo reyna menn að geta í eyðurnar og draga fram mynd af tilveru þessa félaga okkar sem hleypur einn í fjarlægri kommúnu í stað þess að blanda geði við okkur, vini sína. Við dóluðum þetta hefðbundið um Nauthólsvík og Kirkjugarð. Það ber meira á því nú en áður að menn sleppi hefðbundnum stoppum. En það sáum  við frændur og Magnús um að yrði virt.

Er komið var að samkomuhúsi frímúrara kom í ljós aðstreymi meðlima á leið á neyðarfund og var ekki erfitt að geta sér til að fundarefnið yrði forystukreppan í Sjálfstæðisflokknum. Við áfram á Sæbraut þar sem við hittum ónefndan fréttamann á Ríkisgufunni sem svaraði greiðlega fyrirspurnum okkar frænda um aðila sem nýlega hafa verið í þáttagerð og vakið forvitni okkar.

Teygt stutt á Plani og svo farið í Pott. Mættir dr. Baldur og dr. Einar Gunnar ásamt frú Helgu. Ekki þarf að koma á óvart að helztu umfjöllunarefni voru Skýrzlan og Askan. Einnig rætt um lata eiginmenn sem eiga kort í líkamsræktarstöðvar en fást ekki til að róta sér af sófanum og telja það næga líkamsrækt að hreyfa kjálkavöðvana til að tala eða tyggja.

Í gvuðs friði. Ritari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband