7.3.2010 | 14:46
Kynlausir þvergirðingar
Dagurinn var hreint frábær á hlaupum, Ólafur Þorsteinsson lék á als oddi og geislaði af frásagnargleði. Ýmislegt fróðlegt bar á góma, það voru stjórnmál, það var persónufræði, það voru vísbendingar. Meira um það seinna. Mættir til hlaups jafnbeztu og jafnlyndustu hlauparar Samtakanna, menn sem kalla ekki allt ömmu sína: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Einar blómasali og ritari. Menn skröfuðu hljóðlega í Brottfararsal og það var varpað fram vísbendingaspurningu um persónu í spurningaþætti. Engan óraði fyrir hvað framundan var - dæmandi af hljóðskrafinu einu saman.
Lagt af stað rólega. Einar upplýsti að hann hefði ekki farið í langt hlaup í gær frá Grafarvogslaug og hafði þá skýringu að það hefði enginn haft samband við sig um það að hlaupa. Þó á að heita að þessi maður sé að undirbúa sig fyrir Parísarmaraþon og á að vera að fara langt. Nei, nei, það var setið í afmælisveizlum og innbyrt mikið magn af mat. Við hlupum framhjá lögmanninum Möller og vörpuðum á hann kveðju, Ólafur frændi minn varð að stoppa aðeins og ræða málin, eins og hann gerir jafnan þegar mikilsháttar menn verða á vegi hans. Vitanlega vær rætt um þjóðaratkvæðagreiðsluna og voru menn almennt sammála um að hún hefði verið marklaus þar eð ekki var ljóst um hvað væri spurt eða hverju menn væru að svara með atkvæði sínu.
Í Nauthólsvík var stanzað og rætt um fólk. Áfram haldið og í kirkjugarði var áfram haldið að ræða um fólk. En þar var allt sagt í fullum trúnaði og fer ekki lengra. En á Klambratúni gerðust hlutirnir. Það var stanzað og Ó. Þorsteinsson bað um orðið. Þar stóðum við ekki skemur en í 10 mínútur meðan hann lét móðan mása um hús eitt í Norðurmýrinni sem hafði verið renóverað afar smekklega og er sannkallað fjölskylduhús. Sagði hann sögu fjölskyldunnar alla frá 1939 til þessa dags, sem er saga föður, móður og sona. Saga velgengni, uppgangs, framgangs, auðs, smekkvísi, meiri auðs og skynsamlegra fjárfestinga.
Eftir þessa sögustund leið okkur eins og nýjum mönnum og á leiðinni niður á Sæbraut gerðum við okkur grein fyrir því menningarhlutverki sem Hlaupasamtökin leika í þjóðlegum efnum. Um stund veltum við fyrir okkur að fara Laugaveginn og telja tóm verzlunarrými, en ákváðum að gera það seinna. Niður á Sæbraut og enn var stanzað til þess að hlýða á fleiri sögur frá Formanni Vorum. Er upp var staðið var þetta líklega eitthvert lengsta sunnudagshlaup til þessa, þvílík var frásagnargleðin.
Ekki minnkaði sagnaefnið í potti þar sem Mímir, dr. Einar Gunnar, dr. Baldur og þau hjón Stefán og Helga voru mætt venju samkvæmt. Áfram var haldið með umræðuefnið "kynlausir þvergirðingar" sem var leiðarhnoða dagsins á hlaupum. Þar er ekki komið að tómum kofanum sem frú Helga er, hún á alltaf til viðbót við upplýsingar Samtakanna. Þannig lauk umræðum dagsins á hátimbruðum nótum. Í næstu viku ætlar blómasalinn að hlaupa 105 km - fróðlegt verður að sjá hvernig hann ætlar að gera það, endaþótt hann losni við að elda alla vikuna.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.