Hræðilegur misskilningur - sumir hlupu of stutt!

Þegar Magnús verður sextugur verður sungið. Þótt afmælið beri upp á Föstudaginn langa er ekki við hæfi að syngja Passíusálmana, nei, það verður að vera eitthvað glaðlegra. Söngnum stýrir Ó. Þorsteinsson, sá æringi og gleðipinni. Um þetta var rætt í Brottfararsal fyrir hlaup dagsins, og ýmislegt fleira. Töluverður fjöldi hlaupara mættur: próf. Fróði, S. Ingvarsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Flosi, dr. Friðrik, Rúnar, Margrét, Eiríkur, Ósk, Melabúðar-Frikki, Ólafur ritari, Einar blómasali og Bjarni Benz. Það sást til René sem heldur sig frá hlaupum að ráði sjúkraþjálfara, en syndir þeim mun meira.

Það þurfti að bíða nokkuð lengi eftir sumum, engar lýsingar gefnar á leið, á endanum var hjörðin einfaldlega farin af stað. Stefnan tekin upp á Víðimel. Prófessorinn upplýsti að hann hefði skipulagt ljósmyndun í Nauthólsvík, við vorum harla glaðir yfir þessu framtaki. Honum fannst að við ættum að strippa fyrir ljósmyndarann, jafnvel fara í sjóinn. Hlaut þetta litlar undirtektir. Farinn Víðimelur, út á Birkimel, Suðurgötu og þannig suður úr. Menn fóru mishratt yfir, en Flosi fór fremstur og varð ekki stöðvaður. Er komið var í Nauthólsvík beið þar ljósmyndari frá DV sem myndaði prófessorinn í bak og fyrir, en þegar við félagar hans vildum vera með á myndinni brást hann hinn versti við og krafðist þess að okkur væri haldið utan myndavélarrammans. Var okkur mjög brugðið við þessa afstöðu.  

Eftir því sem bezt er vitað fór Flosi 69, 18,7 km - Fróði og S. Ingvarsson fóru Þriggjabrúa, Jörundur rúma 10 km - helztu hlauparar tóku brekkuspretti í Öskjuhlíð. En við Einar og Maggi fórum Hlíðarfót. Einar sagði að sér hefði verið skipað að fara stutt. Eftir hlaup kannaðist þjálfari ekki við þessa skipun og varð forviða. Svo kom skýringin: blómasalinn hafði farið í afmælisveizlu á Akranesi á sunnudeginum og hrúgað þar fjórum sinnum á diskinn alls konar kökum og góðgæti. Af þeirri ástæðu var hann þungur í hlaupi dagsins og fór bara stutt. Rifjaðar upp skemmtilegar meiðslasögur, eins og þegar blómasalinn fékk þursabitið hér um árið og Biggi fór með hann til sjúkraþjálfara sem datt einna helzt í hug að sækja kindabyssuna.

Færið var áfram erfitt í dag, ýmist of mikill laus snjór eða glerhálka. Mótvindur í Skerjafirði og fyrir flugvöll. Fremur kalt í veðri. Komið til Laugar á ný og teygt í góða stund, meðan við ræddum málin frá ýmsum hliðum. Gríðarlega gott og fallegt hlaup. Í potti var rætt um Þórarin Nefjólfsson og Noregskonung, einnig um Bjórdaginn, um bjórtegundir, um mat, fengum m.a. uppskrift að pitsusósu frá René. Minnt á Fyrsta Föstudag nk. föstudag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband