Sunnudagsmorgnarnir eru fallegir, eða Bumbus vulgaris

Sex vaskir hlauparar mættir til hlaups á sunnudagsmorgni þegar vindur blés napurt á norðan eða norðvestan. Sól skein skært og menn voru glaðir í bragði, þetta voru þeir Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi, Magnús, Einar blómasali og ritari. Fyrirheit um fagrar sögur, en fátt eitt látið uppi í Brottfararsal. Lagt í hann á hægu skeiði og bráðlega kom fyrsta vísbendingaspurning: spurt var um mann.

Eitthvað rætt um afstaðnar árshátíðir, matarsnæðing í Perlunni sem er einkar lofsverður, almennt um mat og matartilbúning. Í Nauthólsvík var sögð sagan sem lofað var í Brottfararsal: sagan af því þegar Jiang Zemin kom og Falun Gong líka og hótuðu með líkamsræktaræfingum á Arnarhóli, var stungið í grjót í Njarðvík - og maðurinn fór að gráta.

Áfram haldið í kirkjugarð og þar héldu áfram sögur, en Þorvaldur og Magnús yfirgáfu okkur, vildu ekki hlýða á meira. Hér var mikið rætt um blóm og blómasala - enda er konudagurinn í dag og því við hæfi að menn hugi að blómakaupum. Eitthvað rætt um sjúkdóma, m.a. menn með sjúkdóma. Á Rauðarárstíg uppgötvuðum við nýtt íbúðahótel sem hefur verið opnað og furðuðum okkur á því hverjum það væri ætlað. Farið um Laugaveg í þeim tilgangi helztum að skoða minningarlund sem Ólafur Þorsteinsson ætlar að stofna til heiðurs knattspyrnufélaginu Víkingi. Lundurinn er á horni Túngötu og Garðastrætis, en fyrir er minnismerki til heiðurs Bjarmalandsför Jóns Bala til Lettlands sællar minningar þegar hann frelsaði lettnesku þjóðina undan oki Sovétsins - en minnismerkið minnir á fokkjúputta sem beint er að rússneska sendiráðinu. Hér hefur Ó. Þorsteinsson ætlað sér lítið skot fyrir minnsivarða um stofnun Víkings sem átti sér stað hér árið 1908.

Þá var bara stubbur eftir til Laugar. Farið inn og teygt eitthvað til málamynda, en þeir sem hlaupa á sunnudögum teygja yfirleitt ekki mikið - sem kemur ekki að sök, þeir hlaupa ekki mikið heldur. En tala þeim mun meira og mættu þá e.t.v. einbeita sér að því að teygja kjálkavöðvana eftir hlaup. Nema hvað pottur góður, mættir Baldur Símonarson og Einar Gunnar, auk þeirra hjóna Helgu Jónsdóttur og Stefáns Sigurðssonar. Enn rætt um konudaginn, einhver ætlaði að bjóða konu sinni í bíltúr og á kaffihús, og minnt á að Hlaupasamtökin fylla aldarfjórðunginn í vor og þarf að halda upp á það með viðeigandi hætti. Einhverra hluta vegna var komið inn á tegundina Bumbus vulgaris og er ekki heitið á feitlögnum, íslenzkum, miðaldra hlaupara, heldur býflugu. Svona villa latnesku heitin nú um fyrir fólki.

Nú heldur ritari utan og verður frá hlaupum næstu vikuna, alla vega fram á föstudag. Þið hin haldið ykkur við efnið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband