Taco Bell tekur toll

Í Útiklefa rifjaði Svanur Kristjánsson upp æskudaga á Ísafirði, sólarlausum firði fyrir vestan. Tilefnið var náttúrlega að nú nálgast vorið óðfluga, án þess að það hafi nokkurn tíma komið vetur á Íslandi. Hann er annars staðar. Óvenjulegir hitar á Grænlandi að sögn. Þeim mun meiri ástæða til þess að þreyta hlaup í vorblíðunni. Mættir fjölmargir hlauparar og skal aðeins þeirra helztu getið: dr. Friðrik, Jörundur, Bjarni Benz, Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði, Magga, Rúnar, Frikki Meló, Eiríkur, René, Ólafur ritari, Einar blómasali, Þorbjörg K., Dagný, Ósk, Hjálmar, Kári - og einhverjir fleiri.

Ýmislegt í boði, brekkusprettir í Öskjuhlíð, Stokkur, Hlíðarfótur, allt eftir smekk og prógrammi. Parísarfarar og fylgihnettir stefndu á spretti, aðrir ætluðu bara að leika sér. Farið rólega út, en áður en langt um leið var hersingin komin á fulla ferð. Fljótlega kom í ljós að einhverjir höfðu syndgað í hádeginu, játning lá fyrir: sumir voru teymdir gegn vilja sínum inn á Taco Bell þar sem snædd var sterk máltíð og drukkinn með hálfur lítri af ropvatni. Ætla menn virkilega aldrei að læra að forðast freistingarnar á hlaupadegi?

Farið út í Nauthólsvík, þar var snúið í brekkurnar, meðan einhverjir héldu áfram í Fossvoginn og enn aðrir sneru beinustu til baka. Við vorum nokkur sem tókum eina 8 320 m spretti í löngu brekkunni í Öskjuhlíð, innan um bílaperrana. Það var smokkfullt af bílum þarna og fullkomlega óskiljanlegt hvað fólk er að gera þarna. Samkomulag um að fjarlægja alla vegi þarna eftir sveitarstjórnakosningar í vor, í mesta lagi skilja eftir bílastæði, svo getur fólk bara fengið sér göngutúra um göngustíga og iðkað heilbrigð samskipti við aðra.

Eftir spretti var snúið tilbaka og bætt í hraða og endað á góðu tempói, 13,7 km lagðir að baki. Góð æfing. Pottur stuttur og snarpur, Benzinn með læti við útlendinga. Næst farið á miðvikudag, langt, ekki styttra en Stíbbla.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband