Mannræktarsamtök á ferð

Í Hlaupasamtökunum er jafnt stunduð mannrækt sem málrækt. Það er iðkaður patríótismi og andleg uppbygging. Menn mæta til hlaups niðurbrotnir á sál og líkam, en hverfa frá hlaupi og potti eins og nýslegnir túskildingar. Á þetta vorum við minnt í kvöld, þ.e. við sem höfðum þá skynsemi til að bera að mæta til hlaups og vorum svo bjartsýn að það myndi bæta eitthvað dapurlegt ástand okkar. Þetta voru dr. Friðrik, Margrét þjálfari, Anna Birna, Kári, Ágúst, Flosi, Þorvaldur, Einar blómasali, Jörundur, Bjössi, Friðrik Meló, einhver sem svaraði nafninu Haukur Húsvíkingur, kona til viðbótar sem ég hef ekki nafnið á, Eiríkur bættist í hópinn og svo man ég eftir Ósk í aftureldingunni. Menn kepptust um að bera saman skófatnað sinn, ótrúlega margir í nýjum hlaupaskóm.

Það var farið rösklega austurúr, í boði tvær leiðir: Þriggjabrúahlaup vaxandi og 69. Ritara langaði í 69, en ákvað á endanum að láta sér nægja Þriggjabrúastubb.

Það kom nefnilega á daginn að fyrir utan eymsli í mjöðmum, þá var ég þungur á mér og þreyttur. Það eru ekki góðir ferðafélagar á hlaupum. Félagar mínir jusu mig háðsglósum þegar ég kallaði eftir viðurkenningu og hvatningu, hver ég héldi að ég væri eiginlega að ata þá auri fyrir að mæta ekki til hlaupa á þriðjudegi, og mæta svo ekki sjálfur þegar hlaupið er. Ég var minntur á að fyrstu fimm ár aðildar að Hlaupasamtökunum færu í hunzun, næst tæki við ár af einelti - það væri ekki einu sinni komið að mér í eineltisröðinni. Vinsamlegast halda kúlinu á meðan.

Á Ægisíðunni mættum við einbeittum hlaupara sem var svo einbeittur að hann leit ekki upp og hljóp beint inn í hlaupahópinn okkar, gerði greinilega ráð fyrir að aðrir forðuðu sér frá þessari eimreið. Áfram veginn og í Skerjafirði var ég orðinn einn, þeir fremstu komnir langt á undan, fyrir aftan mig var hópur líka. Það var allt í lagi. Kom í Nauthólsvík, og ég sver að ég sá hlaupara beygja kunnuglega af og fara niður á rampinn, taldi að þar gætu hafa verið Friðrik Meló og einhverjir með honum, en Þorvaldur beið uppi á stígnum og vildi vita hvert menn ætluðu. Ég spurði um sjósund, en fékk engin greinileg svör, nennti ekki niður á ramp. Um það leyti bar Jörund að og saman fórum við fetið austur úr, báðir þungir og þreyttir.

Upp hjá Borgarspítala og við Bústaðaveg rákumst við á vegvilltan Laugaskokkara sem slóst í för með okkur. Upplýstum hann um  Hlaupasamtökin og helztu einkenni þeirra. Varð honum á orði að þetta væri alvöru hlaupahópur. Upp hjá Útvarpshúsi, gegnum Hvassaleitishverfið, yfir Miklubraut og út á Kringlumýrarbraut. Þessi félagi fylgdi okkur niður á Suðurlandsbraut en hélt eftir það í átt til Lauga. Við niður úr og niðrá Sæbraut. Á þeim kafla tók ég ágústínskt flug og flaug á hausinn, rak tána í ósýnilega örðu í nýsteyptri gangstétt, náði þó að pakka mér saman í loftinu og lenda mjúklega, fór stórslysalaust út úr þessu.

Á Sæbraut má svala sér á kaldasta vatni Höfuðborgarsvæðisins sem ófrosið er utandyra. Við fórum um Lækjargötu og Hljómskálagarð, hjá Háskóla og Sögu og þá leið til Laugar, rúma 14 km. Utandyra stóðu nokkrir hlauparar og lögðu mat á hlaup dagsins. Það var teygt á Plani og karpað um hlaupaskó. Stuttu síðar kom Einar blómasali og hafði farið 600 m lengra en við Jörundur, ekki hefur það verið mjög hratt hlaup! Inni voru Bjössi, Frikki og Eiríkur - og stuttu síðar kom Ágúst hafandi farið rúma 18 í 69 hlaupi dagsins. Flosi kom skömmu síðar eftir sömu vegalengd.

Í Potti var borið upp gamalkunnugt tema: Strákar, eigum við ekki inni ónýttan Fyrsta Föstudag? Svo varð mikil umræða um nýjustu afhjúpanir og svindilmál og fundu menn til vanmáttar síns að hafa ekki Vilhjálm Bjarnason til þess að útskýra hlutina fyrir okkur og leiðrétta misskilning, segja okkur hið sanna og rétta af stöðu mála. Lögð drög að næsta hlaupi sem er á föstudag er kemur. Vel mætt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Hlauparinn sem hljóp í gegnum hópinn slapp ekki alveg í gegn, hann lenti beint framan á mér.  Ég vona að það sé í lagi með hann, þetta var grannur maður en höggið var samt mikið.  Ég held að gleraugun hans hafi verið komin með móðu.

Kári Harðarson, 28.1.2010 kl. 12:48

2 identicon

Ólafur, ég verð að leiðrétta þig. S.kv.. hlaup.com. kom blómasalinn 7. mín. á undan okkur að sundlauginni ,en ekki hálfri mín. á eftir. Það er nú sannað að hann hefir látið klóna sig eins og okkur hefir lengi grunað.

Jörundur (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband