Þetta hefur ekki gerst áður

Fyrir hlaup upplýsti blómasalinn að hann hefði farið í svínaflensusprautu og veikst, gæti ekki hlaupið. Við komu í Laug var mætti Sirrý og tilkynnti að hún væri meidd og gæti ekki hlaupið næstu 3 mánuði. Vel var mætt í hlaup dagsins og óvenjumargir sem ritara vantaði nöfn á. Þjálfari á spariskónum og ekki líklegur til stórræða. Í boði stutt, Þriggjabrúa og langt. Það er eiginlega ekki frá neinu að segja. Fólk hvarf mér einfaldlega á Ægisíðu, sjaldan hefur ritari verið jafnaumur, aumari en blómasalinn sl. föstudag. Ég fór svo hægt yfir að ég náði ekki einu sinni Kára, sem hvarf úr hlaupi í Nauthólsvík, eða fór þennan alræmda stytting sem þeir kalla Hlíðarfót, og er svo skammarlegt að ætti eiginlega ekki að kalla hlaup, miklu frekar ævintýri á gönguför. Hann var í för með Þorvaldi og kvenmanni sem ég þekki ekki. Ástand ritara var dapurlegt, en þó ekki svo dapurlegt að hann færi að stytta. Fannst honum Hlíðarfótur eiginlega of mikill aumingjaskapur fyrir hann. The Horny Grocer fór fram úr mér í Skerjafirði og mældi hraða annarra hlaupara 4:45 - sem er náttúrlega bara bilun.

Til greina kom að fara Suðurhlíð, en þegar til kom var stefnan sett á Þrjár brýr. Það var allt í lagi þótt hægt væri farið, ég var einn og yfirgefinn eins og venjulega, en lét það ekki á mig fá. Fór hefðbundna leið upp hjá Bogganum, upp á Útvarpshæð, yfir hjá Kringlu og niður Kringlumýrarbraut. Veður gott, en þó einhver mótvindur á leiðinni austurúr, en kom ekki að sök. Mér varð hugsað til þess á leiðinni hvað Hlaupasamtökin væru góð við íturvaxna hlaupara, það skiptir ekki máli þótt menn séu veikir fyrir mat og drykk og falli í freistni þegar svo býður við að horfa, þeim er ávallt fagnað þegar þeir mæta sakbitnir til hlaups á ný og vilja bæta ráð sitt. Engum er vísað frá þótt hann sé feitur, en menn fá hins vegar að finna það óbeint þegar aðrir hlauparar skilja þá eftir. Það er einmanalegt.

Einhverjum lá á að fara að horfa á landsleik í handknattleik og fóru því bara stutt. Sumir fóru á spretti inn að Víkingsheimili og tilbaka á spretti. Flosi, Ágúst og kaupmaðurinn fóru að ég held nokkuð langt, um eða yfir 20 km. Hefðbundin vizka í potti og afslappelsi, von á góðum svefni eftir svo ágæta frammistöðu.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágætu hlaupasamtök!

Hafandi fengið áskorun frá ýmsum mikilsmetandi félögum í Hlaupasamtökum lýðveldisins – Kára, dr. Friðriki, Ósk og Hjálmari, svo nokkrir séu nefndir – langar mig að lýsa því yfir í heyranda hljóði að ég fór loksins að stunda hlaup í sumar og sæki hér með formlega um aðild að Samtökunum.

Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að ég dvel um þessar mundir í London og hleyp aleinn um Hyde Park (sennilega í verra færi en heima eins og sakir standa!) Ef mér verður hleypt inn í Samtökin, þá kann að vera spurning hvort vert færi að setja á stofn sértaka Lundúnadeild – eða almenna aflandsdeild?

Að öðrum kosti verð ég næst á landinu bláa í vikutíma seinni hluta febrúarmánaðar og stefni á að læra allt um skítastöð, stíbblu og þriggjabrúahlaup. [Innskot: Af lestri bloggs þessa er ritari samtakanna bæði afskaplega elókvent og félaginu mikil lyftistöng, enda þótt hann kunni að vera einhver dragbítur á meðaltalsárangur í hlaupum.]

--

Hlaup dagsins (í Lundúnadeild?) átti að vera 13.3k í garðinum (einn heilan hring og tvo kringum Serpentine-tjörn). Fann á fyrsta hring forláta Blackberry-síma í snjónum og greip með mér á ferð.

Hálftíma síðar hringir kona, furðu lostin yfir því að ég skuli vilja skila tækinu. Tek einn og hálfan aukahring kringum tjörnina (5k) meðan ég bíð eftir kerlu og er  orðinn all-andstuttur, því fyrri hringi hafði ég tekið með sprettum; óétinn og lítið sofinn. Varð því þakklátur er ég gat skilað símanum af mér við ítölsku gosbrunnana.

En nú fór í verra: Kona þessi reynir að bera á mig fé, og er ég færist undan setur hún peningaseðlana einfaldlega niður um hálsmálið á níðþröngu hlaupagírinu (snögg, og greinilega þaulæfð hreyfing). Til að finna þakklæti hennar farveg datt mér í hug að stinga upp að gefa peningana karli einum sem ég hafði nú í þrígang farið framhjá undir brúnni þar sem The Ring þverar garðinn.

Hljóp við svo búið til karls með 10 pund í hendi og hreinar hugsanir í hjarta (sem var mér nauðsynleg lyftistöng þegar hér var komið sögu) og eftir stutt samtal við brúarbúann hélt ég heim á leið og fór síðustu tvo kílómetrana á Guðsblessun einni saman líkt og Magnús sálarháski.

--

Vonandi var þessi litla anekdóta öðrum jafnánægjuleg aflestrar og hún var mér, en lærdómurinn er auðvitað sá, að við ættum öll að hlaupa meira og hirða allt sem við sjáum.

Bestu kveðjur til allra.

Guðmundur Löve

Guðmundur Löve (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 23:43

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Varðandi feita hlaupara: Nokkuð er um liðið frá því ónefndur háskólamaður veittist að undirrituðum svo segjandi: "Djöfull ertu orðinn feitur!" Síðan eru liðin þrjú ár og sá feiti hleypur sem aldrei fyrr; veit ekki með háskólaborgarann. Saga þessi rennir stoðum undir það sem kemur fram í pistli, nefnilega að feitir eiga sér viðreisnar von.

ps.  Það skaðar ekki ef þeir feitu skilja nokkur kíló eftir á hlaupabrautinni.

pps. Korrespondent í Lundúnum er í senn skýr til augnanna og vel máli farinn. Með hliðsjón af háu gáfna- og menningarstigi Hlaupasamtaka Lýðveldisins sýnist hann rakinn kandidat til inngöngu, með skertu eineltistímabili

Flosi Kristjánsson, 14.1.2010 kl. 10:00

3 identicon

Hvernig væri að Lundúnaramaðurinn skráði sig á hlaup.com og í lið Hlaupasamtaka Lýðveldisins?

Sigurður Ingvarsson (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 10:06

4 identicon

Bestu þakkir fyrir jákvæðar undirtektir við inngöngubeiðni minni í Hlaupasamtök Lýðveldisins, sem og fyrirheitum um takmarkað einelti.

Ég hef í dag skráð mig á félagaskrá Samtakanna gegnum hlaup.com og vonast til að geta endrum og eins birt fréttaskeyti frá Lundúnadeild á þessum vettvangi.

Guðmundur Löve (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 13:13

5 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

Velkominn Guðmundur (góði : ) Tek undir með Sigurði endilega að skrá sig á hlaup.com og þá í lið Hlaupasamtaka Lýðveldisins? Gangi þér með hlaupin, góðverkin og allt annað : ) Sjáumst í feb.

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 14.1.2010 kl. 15:38

6 identicon

Velkominn Guðmundur!
Mér þótti gott lofið, en þurfti smátíma til að ná vopnum mínum, hef ekki vanist því að um mig falli vinsamleg orð á þessum vettvangi. Það er hvalreki að fá mann til liðs við hópinn sem er læs og skrifandi, en eins og þú tekur eftir eru fæstir af félögum okkar það, afar fáir sem lesa bloggið og enn færri sem tjá sig um það sem þar er sagt.

Áréttað skal að meðlimir gangast undir staðlað greindarpróf sem lagt er fyrir á sunnudagsmorgnum kl. 10:10. Þá hleypur frændi minn, Ólafur Þorsteinsson Víkingur, með hópnum og segir langar sögur með útúrdúrum og ættfærzlum. Þeir sem ná að fylgja honum og skilja sögurnar - þeir standast prófið. Til þess þarf þroskaða bókmenntalega hugsun og gjörhygli sem er ekki öllum gefin. Varðandi eineltis- og hunzunartímabil (eitt ár af hvoru tveggja), sem Flosi bróðir vísar til, skal aðeins þetta sagt: verður til frekari ígrundunar.

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 19:26

7 identicon

Ég velti fyrir mér hvort hægt er að taka út þessar samfélagslegu refsingar á hefðbundinn íslenskan hátt – með útlegð? Í því tilfelli myndi ég telja mér til tekna hálft annað ár ytra og eygi þar með von um fulla sakaruppgjöf í vor.

Varðandi greindarprófið, þá hef ég ekki enn lent í því að sofna á hlaupum – en eins og þetta er lagt upp hvað varðar tímasetningu prófs og efni, hef ég óneitanlega af því nokkrar áhyggjur.

Guðmundur Löve (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 20:23

8 identicon

Lofar góðu, meðal herópa Samtakanna er þetta: okkur líður bezt illa. Þannig að vanlíðan og áhyggjur eru eitthvað til þess að vera ánægður með.

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband