Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2022

Sögulegur Sunnudagur

Kaupmannahafnarmaraþon verður þreytt um miðjan maí, eftir fjóra mánuði, og ekki seinna vænna að fara að huga að undirbúningi, hvað þá skráningu. Þar kemur ónefndur blómasali sterkur inn. Meira um það seinna. 

En nú var sem sagt sunnudagur og á sunnudögum eru hlaup ævinlega stunduð frá Sundlaug Vesturbæjar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Mætt til hlaupa voru Friðrik, Einar, Ólafur, Súsanna og hinn nýi meðlimur, Kjartan. Já, það er að vísu ákveðin sagnfræðileg ónákvæmni fólgin í því að segja að Friðrik hafi verið mættur því að af mörgum dýrmætum mannkostum hans er kunnátta á klukku ekki hvað efst á blaði. Hann náði okkur sem sagt í Nauthólsvík. 

Við hin bara spræk, gott veður, hiti við frostmark, föl á jörðu en stilla. Ákveðið samt að fara rólega því að sumir voru að næra sig á nautalund með bernaise-sósu í gærkvöldi og slíkur kostur sígur í. Færi gott og alls ekki hált. Rætt um Kaupmannahafnarmaraþon sem blómasalinn ætlar að taka þátt í. Hann á að vísu eftir að skrá sig, en það gæti gerst mjög fljótlega. Og æfingar mjög fljótlega eftir það. En stórar ákvarðanir eins og þessi kalla á góða hvíld á eftir og hefur hún verið í fyrirrúmi frá því að ákvörðunin lá fyrir um miðjan desember. Einnig var rifjað upp hvers vegna próf. Fróða er svo illa við Skátana sem raun ber vitni, en þá sögu hafði Kjartan ekki heyrt. Alltaf gaman að geta breitt út sagnaarf Samtakanna. 

Góður hraði á fólki nema hvað það þurfti að sækja Einar nokkrum sinnum af fyrr greindum ástæðum. Hann var með mannbrodda, en skildi þá eftir í bílnum, vildi því fara varlega. Myndataka í Nauthólsvík þegar Friðrik hafði bæst í hópinn. En þegar hópurinn kom í Kirkjugarð breyttist hlaupið í Gög og Gokke kvikmynd. Fyrst gerðist það að Einar hvarf og töldum við að hann hefði stytt sér leið. Fórum að skyggnast um eftir honum og rákum þá augun í hann þar sem hann var að brölta á fætur. Hann hafði af öllu að dæma flogið á hausinn í glærunni undir snjófölinni. Frikki rauk af stað að hjálpa og flaug með það sama á hausinn, bókstaflega talað, því að dynkurinn sem framkallaðist þegar hnakkinn á honum skall í klakann kom að sögn fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar og varð efni í nýjan pistil frá Trausta veðurfræðingi. Þá stökk Ólafur skrifari til og vildi bjarga Frikka en flaug sjálfur á hausinn, tognaði í baki og meiddist á handlegg. Einar var með böggum hildar yfir nýju hlaupabuxunum sem hann hafði rifið í fallinu: "Ég hef bara farið þrisvar í þær" sagði hann. 

Hafi það farið fram hjá nokkrum þá var glerhált á hlaupaleiðinni í dag og mikil mildi að hálf Hlaupasamtökin enduðu ekki uppi á Bráðamóttöku ofan í öll önnur veikindi og meiðsli sem þar þarf að kljást við. Segja má að við höfum farið afar hægt eftir þetta alla leið yfir á Klambratún þar sem þeir Frikki og Einar duttu aftur, enda verður seint sagt að þeir læri af fyrri reynslu, sbr. orðlagða stundvísi þeirra. En þó verður að segjast eins og er að ekki eru uppi vísbendingar um að Frikki hafi orðið mikið verri af þessu falli öllu. 

Laugavegurinn var bara góður yfirferðar og neðarlega stöðvaði atvinnuljósmyndari okkur og heimtaði að fá að mynda okkur. Var það auðsótt af okkar hálfu, enda ekki plöguð af feimni eins og margir hlauparar þó eru. Eftir þessa rússíbanareið þótti ekki annað boðlegt en bjóða okkur á Edition Hotel í morgunkaffi með snúðum. Stóð Kjartan fyrir því boði af miklum rausnarskap og var vel tekið á móti okkur á kaffiteríu hótelsins eins og ævinlega þegar við komum. Líklega halda starfsmenn hótelsins að hér séu stórmenni, eða alla vega athafnamenn, á ferð. 

Einhvern veginn tókst okkur að skakklappast til baka og vorum fegin því að komast til Laugar og skella okkur í Pott þar sem biðu okkar Mímir, Guðni og Erla, Jörundur, og Ó. Þorsteinsson sem kom blaðskellandi á tólfta tímanum. Í anddyri voru í boði súkkulaðimolar í tilefni af afmæli Árna Björnssonar sem fyllir níutíu ár á þessum degi. Hafði Óli prestur séð til þess að haldið yrði upp á afmæli hans með þessum hætti. 

Næstu dagar munu leiða í ljós hversu mikil meiðsli menn hlutu af þessari hættuför og hvort Kaupmannahafnarmaraþon er í voða stefnt. En hún sýnir hvílík hetju- og fórnarlund er Samtökum Vorum í blóð borin, í bland við hæfilegan skammt af gáleysi. Í Guðs friði. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband