Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020
30.4.2020 | 08:40
Sumarhlaup hafin
Æskulýðsstarf í Hlaupasamtökum Lýðveldisins stendur með miklum blóma þessi missirin. Því til staðfestingar mættu fjórir af unglingum Samtaka Vorra til hlaupa í gær, miðvikudag, kl. 17:30. Mikið vildi ég til gefa að geta sagt "stundvíslega" - en sumum verður víst seint kennd listin að lesa af armbandsúri eða yfirleitt að átta sig á tilganginum með notkun slíks gripar. Við stóðum sumsé nafnar tveir og opinberir starfsmenn, Ólafur skrifari og Ólafur Gunn, og skeggræddum. Veltum m.a. fyrir okkur líkunum á því að Bjarni mætti og þá í hvers konar útrústningu. Varla höfum við sleppt orðunum þegar grá Benz-bifreið rennir í hlað með miklum fyrirgangi og út stekkur nefndur Bjarni í fullum herklæðum, stuttum buxum og hlaupajakka. En ekkert bólar á blómasala, sem þó hafði stefnt okkur öllum til hlaups og bætt við af röggsemi "og engar afsakanir!".
Við rennum af stað formælandi þessum vini okkar, hvers konar slugsari og draugur þessi maður sé. Varla höfum við farið nema nokkra metra þegar spúsa blómasala verður á vegi okkar og má vart á milli sjá hvert okkar verður furðu slegnara, við eða hún. "Hvar er Einar? Var hann ekki með ykkur?". Við beindum spurningunni til móðurhúsanna og mæltum: "Seg þú oss!". Héldum áfram ferð okkar við svo búið. Ekki það við höfum haft yfir neinu að kvarta, 9 stiga hiti, sterk sól og nánast logn. Gerast ekki betri veðrin að sumri til hlaupa. Bjarni rólegur til að byrja með, en færðist svo í aukana er á leið, að ekki sé minnst á áhrifin á þennan geðþekka félaga okkar þegar blómasali dúkkar loks upp á Ægisíðunni eins og draugur að nóttu. Þá hófst mikill reiðilestur og fúkyrðaflaumur sem stóð linnulaust nánast allt hlaupið.
Einhverra hluta vegna fór hjólreiðafólk mjög í taugarnar á okkar manni þennan daginn. Ef við mættum slíkum fyrirbærum á leið okkar voru viðkomandi umsvifalaust stöðvaðir og þeim bent á að þeir væru að hjóla þar sem eingöngu væri heimilt að vera gangandi eða hlaupandi - "eins og öll sjáanleg skilti benda til" sagði Bjarni og benti eitthvað út í buskann. Þar á meðal stöðvaði hann eina virðulega og góðlega húsfrú sem var mjög brugðið yfir þessum viðtökum og vissi vart hvaðan á hana stóð veðrið. Það var svona nokkurn veginn við Skítastöð. Reiknuðum við hinir fastlega með að mæta lögreglubíl er komið væri í Nauthólsvík og við inntir skýringa á framferðinu. Við bjuggum til sögu. Hún var nokkurn veginn svona: "Jú, sjáið þið manninnn á stuttbuxunum og bláa hlaupajakkanum sem fer á undan okkur og stöðvar fólk á reiðhjólum. Hann er nefnilega sjúklingur í leyfi frá ótilgreindri deild Landspítalans og við erum gæslumenn hans, en búnir að týna spennitreyjunni. Við vonum að hann hafi ekki orðið til mikilla leiðinda og biðjumst þá innilega afsökunar á framferði hans. En við skulum gæta hans vel." Með svo ágæta sögu töldum við góðar líkur á að fá að halda áfram ferð okkar.
Jæja, við ákveðum að endurnýja kynnin af Suðurhlíðinni og Bjarni tætir upp brekkuna eins og fjallageit, við hinir furðu þungir á okkur. Farið hjá Perlu og niður stokkinn. Afbrigði við Hringbraut, farið yfir á Snorrabraut og upp í Skólavörðuholtið og niður Skólavörðustíg. Myndir teknar við nánast öll minnismerki og síðast á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið. Kannski að myndirnar fáist birtar. Nú voru menn farnir að ræða próf. Fróða og viðbrögð hans er minnst er á Boðaþing í pistlum. Þá hverfur hann af alheimsradarnum líkt og starfsmenn Byko gera unnvörpum þegar menn skjóta þar inn kolli leitandi eftir þjónustu. Því er enn varpað fram þeirri hugmynd hvort gera eigi ferð í sveitina og tekinn hringur um garðinn hans Gústa gamla.
Eins og sést af frásögn er æskulýðsstarf sumarsins komið vel á veg og er þess vænst að fljótlega bætist fleiri ungmenni í hópinn. Í gvuðs friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2020 | 17:43
Bjarni - 9,5
Já, ég veit það ekki. Hvað skal segja? Við vorum nefnilega mættir helstu drengirnir - og svo hann Bjarni - til hlaups á föstudegi. Það var skipst á kurteislegheitum og vingjarnlegum athugasemdum, allt þar til er Bjarni kemur brunandi á Benz-bifreið sinni. Ekki hafði hann haft fyrir að klæða sig í hlaupagallann. Nei, hann var í flónel vinnuskyrtu, gallabuxum og einhverju sem gæti gengið sem hlaupaskór. Hann klæddist þó hlaupajakka og kom þannig albrjálaður enda greinilega búinn að liggja með eyrað límt við Útvarp Sögu frá hádegi. Maður náði vart að henda á hann kveðju áður en fúkyrðaflaumurinn var byrjaður að berja hlustirnar í manni utan og bunan stóð út úr honum linnulaust inn að Veðurstofu. Það var Icelandair. "Í tunnuna með þá!" heimtaði Bjarni. Það var Covid. "Já, það er lygi að Trump hafi ráðlagt inntöku á frostlegi!" Og þegar ýjað var að þeim möguleika að Trump væri ekki með öllum mjalla kom mikill pistill um hvað Trump hefði sagt á fyrsta fundi sínum með Nato og hvernig hann og boðskapur hans væri affluttur alla daga á Rúv. Ekki var orði skjótandi á Bjarna í þessum ham, hvað þá að hægt væri að halda uppi rökræðum sem staðið gætu undir því nafni. Við vorum óupplýstir fávitar sem aldrei reyndu að afla sér réttra upplýsinga, heldur lægjum í lygasneplum eins og Washington Post sem fullyrti að einn mánuðinn hefði Trump logið 1800 sinnum (og lygarnar raktar). "Já, en könnuðuð þið nánar fullyrðingar Washington Post? Neeeiiii, það gerðuð þið ekki!"
Við sem komnir vorum til þess að hreyfa okkur mitt í faraldrinum, njóta útiveru, góðs veðurs, góðs félagsskapar og skiptast á vinsamlegum orðum. Hlaupið var mjög krefjandi andlega og við vorum eiginlega eins og sprungnar blöðrur á eftir.
Að öðru leyti var þetta nokkuð gott, hefðbundið föstudagshlaup. Hugur okkar leitaði upp í Kópavoginn, nánar tiltekið í Boðaþing, þar sem við eigum félaga sem hleypur í garðinum hjá sér í algjörri einsemd. Kannski við ættum að kíkja til hans og taka sosum eins og eitt hlaup í Heiðmörkinni, upp á gamlan kunningsskap?
Á leiðinni niður Laugaveg rákumst við Einar á dragtklæddar karríerkvinnur sem voru úti á galeiðunni að njóta lífsins. Ósköp fannst okkur það trist.
Nú hefur Laug Vor verið lokuð í mánuð og menn almennt að missa vitið af þeim sökum. Og boðuð er lokun alla vega mánuð í viðbót. En við verðum að þrauka og höldum úti hlaupaprógrammi voru. Næst verður fast hlaup á morgun, sunnudag kl. 9:15 frá VBL. Vel mætt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)