Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020
23.3.2020 | 12:27
Hlaup á válegum tímum
Tilkynnt hefur verið að Laug Vorri verði lokað á miðnætti í kvöld í nokkrar vikur héðan í frá í þágu baráttunnar gegn veirunni. Hverfur þar með uppsöfnunarstaður hlaupara í Samtökum Vorum, að ekki sé nefnd sturta og pottur eftir hlaup. Hvað gera menn þá? Neita að skera hár sitt og skegg, neita að þrífa sig og bursta tönnurnar? Nei! Við stöndum bein í baki, berum höfuðið hátt og höldum uppteknum háttum okkar. Bara með öðrum formerkjum. Það má velja sér hvern þann punkt í Borgarlandinu sem söfnunarstað fyrir hlaupara þaðan sem hlaupa má vítt og breitt um vaknandi vornáttúru landsins. Ætla má að tillögur þar að lútandi berist á eternum í fyllingu tímans.
Hlauparar hafa verið duglegir að hreyfa sig fyrstu mánuði ársins undir dyggri formennsku foringja vors, Ó. Þorsteinssonar. Það eru aðallega skrifari, Blómasali, Benz og Magnús tannlæknir sem hafa reimað á sig skóna, en aðrir hafa sosum sést, Hjálmar, Ósk, Frikki, Súsanna og Flosi. Það hefur verið farið á hefðbundnum hlaupatímum, mánu- og miðvikudögum kl. 17:30, föstudögum kl. 16:30 og sunnudögum kl. 9:15. Auk þess hafa skrifari og blómasalinn laumast út kl. 6:02 á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum til þess að bæta lítillega í prógrammið. Það meiðir engan.
Á válegum og óvenjulegum tímum er nauðsynlegt að halda í allt það góða og uppbyggilega sem við höfum. Þar gegna hlaup veigamiklu hlutverki. Því er það brýning til allra hlaupara að taka fram skóna og setja hlaup á dagskrá sem að flestu öðru leyti er í tómu rugli. Bráðum kemur betri tíð og aftur kemur vor í dal.
Meira síðar um tíma og brottfararstaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)