Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

Hlauparar niðurlægðir

Mættir til sunnudagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins Helmut, Jörundur, Magnús, Ó. Þorsteinsson og skrifari. Hlaupasamtökin eru að ná vopnum sínum og viðburðir Samtaka Vorra að ná fyrri virðingu og eftirtekt. Helstu málefni reifuð í Brottfararsal, en frekari ígrundun beið hlaups. Nægur var tíminn, við sáum fram á hátt í tveggja tíma hlaup, göngu, sögur og hvers kyns greiningar. Sunnudagshlaup eru hátíð. Góðir, velviljandi og velmeinandi piltar taka töltið og segja sögur.

Menn ræddu málefni próf. Fróða, sem ætlar í eitt langt hlaup í Grenoble í sumar, 170 km með 10.000 metra hækkun. Var það álit manna að prófessorinn væri magnaður afreksmaður verandi ekki íþróttamannslegar vaxinn. En þetta var nú bara okkar prívat skoðun, nokkurra vaskra drengja í Vesturbænum. 

Tölt var af stað í yndislegu veðri, björtu og fögru þótt svalt væri. Sama sagan og áður með þá Jörund og skrifara, nokkuð langt í að eðlilegt þrek byggist upp eftir árs fjarveru frá hlaupum, en þetta kemur vonandi smám saman. Farið hægt um Ægisíðu og Formaður heilsaði á báða bóga - á ensku - sýnandi að í þessu landi býr kúltíveruð þjóð sem kann erlend tungumál. Þeir hinir nokkuð á undan, en við Jörundur bara spakir. 

Sama gilti og síðasta sunnudag, stefnan sett á Nauthólsvík með gönguhléum, eftir það er skrokkurinn orðinn heitur og ræður betur við eðlilegan hlaupatakt. Í Kirkjugarði fóru þeir Helmut, Jörundur og Magnús að vitja vökumanns garðsins, sem jarðsettur var þar 1932, en við frændur héldum áfram upp úr garði og settum stefnuna á Veðurstofuhálendið. Rætt um reykingar og ísbúðir. 

Héldum raunverulega nokkuð góðu tempói og samfelldu hlaupi út á Rauðarárstíg, þar sem félagar okkar náðu okkur loksins. Niður á Sæbraut og svo áfram um Miðbæ og Túngötu.

Gott hlaup, hiti og sviti. Blómasalinn kom í Pott og kvaðst hafa verið upptekinn við að spartsla, slípa og mála heima við. "Maður verður að forgangsraða" sagði hann til skýringar. Hlaut hann háðulega ádrepu fyrir svo vanhugsaða "forgangsröðun" Hlaup hafa alltaf forgang.

Aðrir í Potti: Unnur og Pjetur, Mímir, próf. dr. Einar Gunnar, Stefán og Helga - auk fyrrnefndra hlaupara. En hlutirnir komust fyrst á hreyfingu þegar Maggie kom, hún tilkynnti vafningalaust að Fyrsti Föstudagur maí-mánuðar yrði hjá henni á Ljósvallagötu 30, föstudaginn 6. maí nk. Í boði verður namibískur matur. Strictly BYOB policy. Skipulegt borðhald hefst kl. 19:00. Formaður minnti á Melahlaup í lok júlí, en þar stendur Maggie vel að vígi að vinna bikarinn til eignar eftir góða frammistöðu síðastliðin tvö ár. 

Næst er hlaup á morgun kl. 17:30.


Hamingja

Hvílíkur hópur sem mættur var til hefðbundins sunnudagshlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Formaður Vor til Lífstíðar, Þorvaldur, Bjarni Benz og svo við Jörundur, ef okkur skyldi kalla, þvílíkir erum við nú um stundir. En hálfmaraþon er framundan í sumar og ekki dugar að slá slöku við. Veðrið var bara eins og úr íslenskri kvikmynd, sól, stilla, milt, 2ja stiga hiti sem hækkaði skjótt. 

Rætt um þá lúðulaka og lufsur sem Kári segir að fylli þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Er Þingmaður Vor þar á meðal? Um það var spurt á þessum fallega morgni. Við vorum keikir er við lögðum upp, en söknuðum þó félaga okkar, Magnúsar og blómasalans. Með slíkum hefði hópurinn verið nánast fullmannaður.

Jæja, lagt upp á rólegu nótunum og þeir fóru fyrir Formaður, Þorvaldur og Benzinn. Frétzt hefur að Denni hafi óskað eftir frestun á Fyrsta Föstudegi til 15. apríl nk., og er sjálfsagt að verða við því að því tilskildu að fram komi uppbyggileg tillaga frá téðum frestunarsinna um virðulegan og viðeigandi viðburð þann dag. Varla munu menn sætta sig við Ljónið, trúlega ala einhverjir í brjósti sér vonir um svenska köttbullar, prins korv og revbensspjäll. 

Jæja, þetta gengur vonum framar, létt skokk, létt spjall og menn bjóða góðan daginn á báða bóga. Einhverra hluta vegna býður frændi minn gjarnan góðan daginn á ensku, hafandi ekki í hug sér að flestir sem hann mætir eru Íslendingar. Þeir verða skiljanlega forviða á svo framandlegri kveðju, og mætti e.t.v. benda honum á að bregða fyrir sig "nýfenginni þýzkukunnáttu", svo vitnað sé til próf. dr. Baldurs. Meira um það seinna.

Fátt varð tíðenda á leið okkar, engir þekktir einstaklingar urðu á vegi okkar og enginn sem þurfti að stöðva og ræða heimsmálin við. 

Nú kemur upp spurningin: hversu langt skal halda í dag hálf farlama manni og fótafúnum? Skítastöð, Hlíðarfótur eða hvað? Jörundur sagði skrifara í algjörum trúnaði: "Ólafur Þorsteinsson mun hætta hlaupi eftir Kirkjugarð og taka upp göngu og kjaftagang, svo að það skiptir engu máli þótt við fylgjum honum þangað." Á þann veg plataði hann skrifara að fylgja þeim hinum eftir alla leið inn í Nauthólsvík og þaðan áfram í Kirkjugarð. Sem var hið besta mál því að félagar okkar biðu eftir okkur Jörundi og sáu til þess að eðlileg umræða og upplýsing gæti átt sér stað.

Eftir Kirkjugarð er þetta nánast búið, Hlíðar þar sem Vilhjálmur Bjarnason mundi ekki nafnið á Björk Guðmundsdóttur, Miklabraut þar sem Þorvaldur Gunnlaugsson hefur æ ofan í æ storkað almættinu, Klambrar þar sem ónefndur heilbrigðisstarfsmaður tæmir gjarnan skinnsokkinn sinn undir vel völdu tré, Rauðarárstígur þar sem ávallt er gengið og hér margfölduðust kveðjur Formanns til forviða og óundirbúinna túrhesta.

Stefnan sett á Sæbraut og þar mátti svala þorstanum í vatnsbrunni Hjálmars okkar, og kaldara og heilnæmara vatn býðst ekki annars staðar í Borgarlandinu.

Nú seig á seinni hlutann í hlaupi dagsins, Bjarni bara í fantaformi og þeir Jörundur og skrifari furðu sprækir, hefur þó sá síðarnefndi vart hreyft sig í heilt ár. Farið hefðbundið um Miðbæ, hylling hjá Café París, og þaðan upp Túngötubrekkuna. Við Jörundur signdum okkur hjá Kristi og mömmu hans, enda höfum við ekkert upp á þá slekt að klaga. Komið á Plan og teygt, sviti og þreyta, en hamingja að afstöðnu ágætu endurhæfingarhlaupi.

Pottur hreint ótrúlegur, Baldur að vísu farinn á vit schitzchel von kalb, að sögn Formanns, sem varð tilefni orðahnippinga milli hans og Baldurs í Brottfararsal og fram kom ásökun prófessorsins áðurnefnd um "meinta" þýzkukunnáttu" Formanns. Aðrir mættir frú Helga læknuð handarmeina sinna og Stefán verkfræðingur, Unnur og Pétur, próf. dr. Einar Gunnar, Mímir, og svo fyrrnefndir hlauparar. Ungt par var og í Potti sem skrifari taldi að myndi flæmast fljótt á brott, en annað kom á daginn og sátu þau sem fastast og nutu sérvitringslegrar umræðu með vísbendingaspurningum, persónufræði og bílnúmerum. 

Það voru mikil vonbrigði að hvorki Magnús né blómasalinn skyldu mæta í svo ágætt hlaup, ganga í vaskra sveina hópi um Kirkjugarðinn á sunnudagsmorgni. Ef það er ekki hamingja þá skil ég ekki hugtakið. Næsta hlaup á morgun kl. 17:30.


Skrifari mætir til hlaupa á ný

Þau tíðindi urðu í dag í annálum Samtaka Vorra að Skrifari mætti til hlaups á sunnudegi og mun vera í fyrsta skipti í ár að það gerist. Aðrir mættir voru Jörundur, Maggi og Einar blómasali. Veður fagurt, hægur vindur og 6 stiga hiti, gerist vart betra á þessum árstíma. Var skrifara að vonum fagnað eftir svo langa fjarveru, en jafnframt lýst yfir vilja til að fara hægt, jafnvel ganga inn á milli.

Í Brottfararsal var sett fram hugmynd um það að Vilhjálmur þingmaður vor flytti tillögu í þingflokknum um slit stjórnarsamstarfs. Með því tryggði hann sér þingsetu alla vega eitt kjörtímabil í viðbót. 

Lagt upp frá Laug á hægu tempói og snerist umræðan um væntanlegan Kastljóssþátt í kvöld þar sem er að vænta mikillar afhjúpunar. Við Jörundur héldum hópinn en þeir hinir fóru á undan með miklum gorgeir og yfirlýsingum. Fórum bara rólega og ræddum möguleikann á að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoni, við myndum þó alla vega vera á undan VB þótt engar yrðu rósirnar.

Gengið í Skerjafirði og leitað að Bauganesi. Svo var hlaupið áfram og eftir það skiptist á göngu og hlaupi sem er svo sem ekkert nýtt á sunnudögum. Náðum þannig einum 5 km og allnokkrum svita sem verður að teljast bara þokkalegt í fyrsta hlaupi eftir meiðsli. Mættum Línu á leið til kirkju og lýsti hún yfir mikilli ánægju með þessa tvo hlaupagarpa.

Pottar allir meira og minna dysfunksjónal svo að menn urðu að hnappast í stóra pottinn, en þar var valinn maður í hverju rúmi: Helmut og Jóhanna, Unnur og Pjetur, Tobba, Einar Gunnar, Mímir, Dóra og Stefán verkfræðingur auk okkar Jörundar. Sumsé enginn Formaður til Lífstíðar og er því eðlilegt að menn spyrji: hvar var Formaður á svo ágætum degi þegar við helstu drengirnir í Vestbyen hlupum?

Næst er hlaupið á morgun mánudag kl. 17:30.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband