Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Einar "gleymir" skónum

Það var búið að gefa út instrúx um hefðbundið miðvikudagshlaup og þegar skrifari mætti til Laugar æddi blómasalinn um landareignina eins og búfénaður sem misst hefur höfuðið. Ekki var auðvelt að giska á hvað olli æði þessa hugljúfa hlaupara. Kom þó á daginn þegar eftir var leitað að frú Vilborg hafði gleymt að setja skóna í töskuna eiginmannsins. Ekki varð af hlaupi og fór blómasali því í Pott með skrifara og stundi: "Niederlag! Niederlag!" Hlaupa gerðu próf. Fróði, Maggie, Flosi og Þorvaldur.

Próf. dr. Einar Gunnar mætti í Pott og áttum við gæðastund í umræðu um íslensk fræði.

Nú hefur verið um rætt að endurnýta Fyrsta Föstudag frá því í síðustu viku því hann var hálf misheppnaður, aðeins þrír mættir og kvöldið hálf nöturlegt fyrir vikið. Það yrði þá Ljónið aftur, og vonandi er Denni með á nótunum í þetta skipti.

Textinn er fremur stuttur í þetta skiptið, skrifaður á ipad með tveimur puttum.

Í gvuðs friði

skrifari


Skrifarinn og prentarinn

Auglýst var hefðbundið Sunnudagshlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudegi, og hvað gerist? Til hlaups mæta tveir alslökustu og aumustu hlauparar Samtakanna: Jörundur prentari og skrifari Samtakanna. Magnús tannlæknir var að vísu mættur, en fór uppstrílaður á Kirkjuráðsfund til þess að tala um gvuð, í stað þess að hlaupa með góðum drengjum og hugsa um gvuð. Svo sást til gamla barnakennarans að þreyta sund i Laug í stað þess að hlaupa. Það voru okkur Jörundi mikil vonbrigði að sjá ekki R-158 í stæði enda er það tilhugsunin um að eiga gæðastund að morgni með Formanni til Lífstíðar sem knýr okkur til að mæta hvern sunnudagsmorgun. 

Jæja, ekki var að fást um það, heldur gíra sig upp í að fara út í norðangarrann og frostið. Það var kalt að hlaupa í dag, en við lögðum upp á sjö mínútna tempói og vorum stoltir af. Fyrsta hlaup skrifara síðan gvuðmávitahvenær og annað hlaup prentara frá upprisu. Fórum á rólegum nótum eftir Ægisíðunni og mættum fáum. Stefnan sett á Jósefínu, nú yrði enginn kirkjugarður eða veðurstofa. Tókum gönguhlé í Skerjafirði, en héldum svo ótrauðir áfram útí Nauthólsvík og ræddum ýmis þjóðþrifamálefni á leiðinni, svo sem Framsóknarflokkinn og þau þjóðþrif að losna við það fyrirbæri af yfirborði jarðar.

Farinn Hlíðarfótur og skrafað um landaeignir þar, um hjá Gvuðsmönnum og ferð hraðað um hlaðið á Hlíðarenda. Snúið í vestur og stefnan sett á Laug. Við bara býsna brattir og tókum heimferðina svo að segja í einum rykk. En það var kalt að hlaupa í dag.

Í Pott mættu helztu drengirnir, próf. dr. Einar Gunnar, prof. dr. Baldur, dr. Mímir, frú Helga Jónsdóttir Zoega o.fl., ing. Stefán, Pjetur og Unnur - og hver dúkkaði ekki upp án þess að sýna minnstu merki um iðrun annar en Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur! Bar hann við köldu veðri þegar hann var spurður um fjarveru frá hlaupi dagsins. Þarna fóru fram spaklegar umræður um þarfleg málefni með vísbendingaspurningum, ættarnöfnum og bílnúmerum.

Nú er spurt: verður framhald á afrekum? Munu menn hlaupa af nýju á morgun, mánudag? Gvuð einn veit.


Vetrartími

Upp er runninn vetrartími í starfsemi Hlaupasamtakanna, hvað menn athugi. Nú er hlaupið frá Laug Vorri á sunnudögum kl. 10:10. Þetta hefði Maggie betur athugað áður en hún kom stjórnlaus í hádegispott og úthúðaði öllum viðstöddum fyrir að senda óljós skilaboð. 

Jæja, mættir í hefðbundið hlaup Formaður til Lífstíðar, frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, og Jörundur prentari. Þeir hlupu hefðbundið - og er þó Jörundur að jafna sig eftir hjartafeil, en þeir gerðu stanz þegar svo bar undir. Er þeir komu tilbaka beið þeirra heldur betur mannaður Pottur: próf. dr. Einar Gunnar Pétursson, sonur hans, Ólafur Jóhannes, Baldur Símonarson, dr. Mímir, Helga Jónsdóttir frá Melum, Helga Jónsdóttir af Ægisíðu, Stefán Sigurðsson verkfræðingur, Magano, skrifari auk téðra hlaupara. Eðlilega urðu fagnaðarfundir og menn hófu óðara að rifja upp nýleg andlát og jarðarfarir. Rætt um jólabækur, Helga frá Melum venju fremur ktítísk á rithöfunda samtímans. Upplýst um vegferð V. Bjarnasonar gegn braskarastétt einni - og var skrifari sleginn yfir að hafa ekki fengið erindi frá VB af því tilefni.

Formaður óskaði eftir að boðum yrði komið á framfæri við hlaupara að vetrartími er genginn í garð og hlaup stunduð frá Vesturbæjarlaug á sunnudögum kl. 10:10.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband