Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Kári snýr aftur

Á hlýju en myrku nóvembereftirmiðdegi mættu eftirfarandi til hefðbundins hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Magnús tannlæknir, Flosi, dr. Jóhanna, Heiðar, Snorri, Hjálmar, Tobba og skrifari. Ég spurði Steinunni hvort hún hefði séð Einar "sprett". "Já, hann er kominn og farinn." "Ha?" hváði skrifari. "Já, kominn og farinn, hann sagðist vera með einhverja pest, kom og fór fyrir allnokkru síðan." Ja, sér er nú hver afsökunin fyrir því að mæta ekki í hlaup! 

Allt kyrrt í Útiklefa og skrifari mættur tímanlega í Brottfararsal. Svo kom Magnús og við spjölluðum góða stund um ráðstefnur í útlöndum og um morðið á Kennedy. Á brottfarartíma var stigið út á stétt og tekið veður. Hiti 8 gráður, stytt upp eftir hellidembu fyrr um daginn, logn, en fjári dimmt. Nú gildir að vera í endurskinsvestum og vera vel sýnilegur. Lagt upp og stefnan sett á Ægisíðuna, nokkuð hefðbundið fyrir mánudag. Ég held að flestir hafi verið stemmdir fyrir stutt. 

Magnús sagði: "Óli minn, við förum bara hægt." Og það byrjaði nógu efnilega, þau hin voru fljótlega byrjuð að derra sig, en við Flosi, Tobba og Maggi vorum róleg og fórum skynsamlega af stað, þó fullhratt fyrir feitlagna hlaupara sem eru í endurkomu.

Enda fór það svo að skrifari missti fljótlega af þeim hinum og vissi því ekki hvert umræðuefnið var og hefur í sjálfu sér ekki frá neinu að segja. Það voru vissulega vonbrigði að Magnús skyldi svo fljótt gleyma loforði um rólegt hlaup og skilja vin sinn eftir. Hér gleymdist hið forna kjörorð Samtaka Vorra: Hér er enginn skilinn eftir!

Nú er orðið dimmt mjög af degi er hlaup stendur yfir og jafnvel svo dimmt á óupplýstri Ægisíðunni og er ástæða til að hafa áhyggjur af því að rekast á annað fólk í myrkrinu. Það var kjagað áfram í einsemd alla leið inn í Nauthólsvík, gengið upp brekkuna inn á Hlíðarfótinn og hlaup tekið upp af nýju. Hér var skrifari orðinn heitur og átti ekki í vandræðum með að ljúka glæsilegu hlaupi með sóma. Félagar mínir voru þegar komnir á Plan er komið var tilbaka og það var teygt og rætt um íslenskar nafnahefðir. Kári var mættur á Plan og stefndi á hlaup. Hlaupið það stóð þó ekki lengi, því að er Kári var kominn að Neskirkju varð hann fyrir opinberun og ákvað að snúa til Laugar á ný og eiga gæðastund með félögum sínum. 

Við tók klukkutímaseta í potti og mætti Helmut óhlaupinn í pott auk hlaupara og kunni ekki að skammast sín. Fljótlega barst talið að mat, drykk og skemmtunum. Fram var flutt formleg bón um að skrifari gengist fyrir um að finna veitingastað er væri fús til að taka við félögum Hlaupasamtakanna og bjóða upp á mat af einhverju tagi, ekki endilega julefrukost. Nú verður sem sagt farið að finna heppilegan stað sem tæki við okkur í byrjun desember þegar hann Ágúst okkar og frú Ólöf eru komin heim frá Kýpur.  


Einvalalið á sunnudegi

Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Menn voru náttúrlega ekki að skilja þetta hrikalega niðurlag sem Garðabær leið fyrir e-u utanbæjarfólki sl. föstudag. "Og það fyrir Keflavík, af öllum stöðum!" sagði frændi minn Ólafur Þorsteinsson, Formaður Hlaupasamtaka Lýðveldisins. "Þetta er under sygekassegrænsen, það er bara ekki hægt að segja annað." Svofelld orð féllu í Brottfararsal Laugar Vorrar á sunnudagsmorgni, þegar saman söfnuðust fyrrn. Ólafur, frændi hans og nafni, skrifari sömu samtaka, Þorvaldur Gunnlaugsson, orðvar maður og hæverskur, Bjarni Benz, stóryrtur og hávaðasamur, Rúna Hvannberg, Irma Erlingsdóttir, Ósk Vilhjálmsdóttir og Jörundur prentari. Einvalalið. 

Veður var gott, stillt, hiti yfir frostmarki og bjart. Lagt upp frá Plani á rólegum nótum, skrifari óhlaupinn í þrjár vikur - og Jörundur með svipaðar syndir. Sem fyrr segir var hugur manna hjá vinum okkar í Garðabæ, en að sama skapi gátu menn ekki annað en dáðst að frammistöðu og kímni þeirra Keflvíkinga, sem virðist vera rísandi byggðarlag eftir að hafa losnað undan andlegri áþján erlends herflugvallar.

Dólum þetta í rólegheitunum og nú fer að blása móti okkur af austri og það andar köldu. Bjarni var með hund með sér sem hann hefur í pössun. Hann sótti hundinn um miðja laugardagsnóttina og þurfti að byrja á að setja hann í bað og var ekki kominn í bælið fyrr en undir morgun. Mætti þó alhress til hlaups kl. 10. Það var ákveðinn kostur að Bjarni skyldi vera upptekinn af hundinum, þá hafði hann minni tíma til að djöflast í okkur. En verst var að hundkvikyndið var að þvælast fyrir okkur þegar hann var í bandi og hefði hæglega getað drepið okkur.

Í Nauthólsvík sagði Rúna skilið við okkur og fór Hlíðarfót. Stuttu síðar yfirgaf Ósk hópinn og fór í Fossvoginn. En við hin héldum áfram í Kirkjugarðinn. Í ljósi þess að nýr hlaupari var í hópnum, Irma, var gerður stanz við leiði Brynleifs Tobíassonar og Guðrúnar konu hans og fluttur stuttur pistill. Pistilinn flutti Ólafur frændi minn og var í öllum meginatriðum farið rangt með staðreyndir eins og löng hefð er komin á. Irma var hins vegar mjög impóneruð af þekkingu frænda míns á sögu og lögfræði.

Svo var dólað áfram yfir Hálendið og framhjá æskuheimili Vilhjálms Bjarnasonar í Grænuhlíðinni, yfir Miklubraut, yfir Klambratún og þá leið áfram. Við stoppuðum næsta lítið á þessari leið, og altént stutt í hvert skipti, enda kólnaði maður hratt niður ef stoppað var of lengi. Á Hlemmi beitti Þorvaldur brögðum, sneri inn á Laugaveginn og gabbaði Irmu til þess að fylgja sér eins og þetta væri eðlilegasti hlutur. Hún hefur sjálfsagt haldið að það ætti að beygja þarna. En við frændur og Bjarni og hundurinn héldum áfram niður á Sæbraut og hlupum þá leið tilbaka. Við vorum ósáttir við þetta óþverrabragð hans Þorvaldar og hugsuðum honum þegjandi þörfina.

Farið um Miðbæ og heilsað upp á fólk í Austurstræti og á Austurvelli, en mjög margir Reykvíkingar virðast eiga erindi við frænda og vilja leita ráða hjá honum í ýmsum brýnum málum. Gengum upp Túngötuna, skrifari tók ofan húfu við Kristskirkju, hneigði höfuð og signdi sig. Bjarni heimtaði að Ó. Þorsteinsson gerði slíkt hið sama. "Nei, aldrei. Ég er einnarmessumaður." Svo var haldið áfram niður Hofsvallagötu og hlaupi lokið. Teygt í móttökusal og stuttu síðar kom Jörundur og hafði farið sömu leið og við.

Þar sem skrifari býst til að skola af sér í Útiklefa dúkkar ekki Einar blómasali upp og þykist vera veikur. Hann hlaut fyrir eyrnafíkjur frá Bjarna og skrifara og var sagt að skammast sín fyrir að vera með svona málatilbúnað. Baldur var mættur í pott er skrifari kom þangað, auk Mímis og Ólafs Þorsteinssonar. Áður en yfir lauk höfðu þeir feðgar dr. Einar Gunnar og Ólafur Jóhannes heiðrað okkur með nærveru sinni, og svo hjónin Stefán og Helga. Rætt var um morðið á Kennedy og samsæri almennt út frá því. Bjarni æsti sig einhver ósköp yfir því hversu alríkisstjórnin hefði reynt að hylma yfir morðið og komið í veg fyrir að það yrði rannsakað almennilega. Hann hefði lesið grein um málið í Tíme sem segði frá e-m 361. ramma í Zapruder myndinni sem hefði verið haldið leyndum árum saman, en sýndi Kennedy á því augnabliki er seinni kúlan hæfði hann. Mönnum var ekki skemmt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband