Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
16.9.2012 | 13:38
Reykjafellshlaup 2012
Reykjafellshlaup var þreytt laugardaginn 15. september 2012. Þessir söfnuðust saman við Vesturbæjarlaug kl. 14: Helmut og Jóhanna, Maggie, Þorvaldur, S. Ingvarsson, Dagný, Benedikt, Einar blómasali, Rúna, Frikki á hjóli búinn að hlaupa á Nes, Ragnar og Ólafur ritari. Þorvaldur lagði af stað á undan öðrum, Einar hljóp heim að ná í drykki og svo var okkur ekið á eftir þeim hinum sem voru lögð af stað. Biggi hjólaði í kringum okkur út í Nauthólsvík, en svo ekki söguna meir, var að fara á myndakvöld. Ekki bólaði á Denna sem ætlaði að vera á reiðhjóli.
Stoppað í Nauthólsvík og beðið eftir Rúnu og Einari. Við vorum fimm sem héldum hópinn framan af, auk skrifara voru það Dagný, Helmut, Rúna og Einar. Næsti áfangi var Víkingsheimili og var jafnvel vænst þess að þau fremstu biðu eftir okkur þar, eins og hefð er um. Svo var þó ekki og var hlaupi bara haldið áfram. Hér mun Bjarni Benz hafa bæst í hópinn. Næst staldrað við í brekkunni upp af Gullinbrú og beðið eftir þeim síðustu. En eftir þetta var engin miskunn, það var bara sprett úr spori meðfram ströndinni og golfvöllunum og alla leið upp í Varmárlaug.
Frábært hlaup og menn ótrúlega frískir. Góð tilfinning að skella sér í pott og ísbað á eftir. Svo var haldið í sveitina til Helmuts og Jóhönnu, þangað mættu einnig Anna Birna og Kári, Flosi og Ragna og loks sjálfur Vilhjálmur Bjarnason. Urðu þar eðlilega fagnaðarfundir. Borin fram dýrindis kjötsúpa og kveiktur varðeldur um kvöldið. Ógleymanleg stund. Takk fyrir okkur!
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2012 | 20:58
Prófessor Fróði mætir til hlaupa á ný eftir heilt ár af depurð
Dagurinn lofaði ekki góðu um hlaup, vestan ofsaveður og kalt. Þó voru menn steigurlátir í skeytum dagsins og lýstu yfir góðum ásetningi um hlaup. Af þeim sem þar kvöddu sér hljóðs mættu eftirtaldir: skrifari, gamli barnakennarinn og Gummi Löve. Aðrir mættir: Magnús, Ragnar, Rúna og svo prófessor Fróði eftir árs fjarveru. Eru tilgreindir hlauparar því réttnefndir KARLMENNI. Aðrir mega sólskinshlauparar heita.
Rúna var spurð í Brottfararsal: "Hvurnig er með hann Frikka? Er hann maður eða mús?" "Hann er mús," sagði Rúna. "Og hvar er hann?" "Hann er í músarholunni sinni," svaraði Rúna að bragði. "Væntanlega að ígrunda sín músarholusjónarmið," var sagt og var efnið afgreitt með því. Það sást til Friðriks læknis, en hann var bara á leið í Pott, ekki hlaup.
Dagurinn var merkilegur fyrir það að félagi okkar, prófessor Fróði, var að mæta til hlaups með Hlaupasamtökunum í fyrsta skipti síðan í október 2011. Síðustu tólf mánuðir hafa verið honum ein löng þrautaganga: fyrst meiðsli í hné sem kölluðu á aðgerð; þegar gróið var um heilt og fyrir lá að hefja hlaup af nýju sá hann grjótvöluna ofan af reiðhjólinu í Sviss og paníkkeraði, greip í allar bremsur á 50 km hraða og flaug á hausinn og brotnaði lífshættulega á höndum og fótum. Nú var allt orðið gott og tímabært að fara að hreyfa skankana.
Menn tóku vel móti prófessornum og margir heilsuðu honum. Steinunn í afgreiðslunni tilkynnti öllum sem heyra vildu að Ágúst Kvaran væri mættur á ný til hlaupa. Hann var svo klæddur að hann var í svörtum hlaupagalla og á rauðum hlaupaskóm með nýtt Garmin-úr sem hann kunni ekki á. Hann bar sig afar illa og hafði þungar áhyggjur af hlaupi dagsins. Við hugguðum hann með því að við myndum bara fara stutt, Hlíðarfót eða svo. Hér helltist angistin yfir prófessorinn og hann sagði: "Er það ekki óþarflega langt?" Hér urðum við svolítið hissa, því að það eru hátt í 20 ár síðan Skátarnir skófu hann Ágúst okkar upp eftir 9 km hlaup í Laugardalnum.
Málamiðlunin var að fara upp á Víðirmel, út á Suðurgötu og austur í Skerjafjörð að strætóskýli, þaðan vestur úr. Þessi áætlun var skynsamleg því að það var erfitt og leiðinlegt að hlaupa í dag, menn þungir á sér og lítið skjól að hafa. Þarna kjöguðum við gömlu félagarnir, Gústi, Flosi, Maggi og skrifari, Gummi og Ragnar farnir í spretti og Rúna týnd. Við börðumst við storminn í Skerjafirði og inn á Ægisíðu, en fórum svo aftur inn á Suðurgötuna og um bakgarða 107 tilbaka til Laugar. Svo til alla leiðina, heila 6 km, kvartaði prófessorinn yfir hraðanum, sem var jafnaðarlegt 6 mín. tempó.
Pottur yljaði. Þangað mætti Jörundur og kvaðst vera meiddur. Talaði um golfkúlu sem einhver hefði grýtt í sig á Nesi svo hann féll við og laskaðist. Nú þegar prófessorinn er mættur aftur fara hlaup að færast í eðlilegt horf og vantar bara Gísla til að setja punktinn yfir i-ið.
9.9.2012 | 13:42
Einn á ferð á sunnudagsmorgni
Skrifari hlakkaði mikið til að hitta félaga sína í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á þessum fagra sunnudagsmorgni í september. Stillt veður og fagurt, ákjósanlegt til hlaupa. Er klukkan var orðin 10:10 sat skrifari einn í Brottfararsal og ekki einn einasti hinna hefðbundnu sunnudagshlaupara mættur. Úr því rættist ekki og hljóp hann því einn í dag. Gat hann sér þess til að fjórir þessara einstaklinga væru að vitja veraldlegra eigna sinna úr timbri, steinsteypu og gleri, en létu útiveru og holla hreyfingu sitja á hakanum.
Það var yndislegt að hlaupa á þessum degi, laus við barlóm um búksorgir og peningaleysi. Í Kirkjugarði var tekin aukalykkja til þess að skoða og signa yfir leiði venslafólks. Að öðru leyti var hlaupið í alla staði hefðbundið með stoppi á réttum stöðum.
Pottur góður með þeim dr. Einari Gunnari, dr. Baldri og Jörundi, auk Benzins og Bigga sem dúkkuðu upp. Allir tilgreindir voru óhlaupnir.
Framundan eru spennandi tímar. Prófessor Fróði ku ætla að mæta til hlaupa af nýju eftir slys á mánudag. Nk. laugardag er svo Reykjafellshlaup. Í gvuðs friði.