Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Frændur á ferð

Á kyrrlátum sunnudagsmorgni í desember mættu þessir til hlaups frá Vesturbæjarlaug: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Ólafur Grétar skrifari. Morgunninn var fallegur, heiðskírt og suðurhjólið að færast upp á festinguna, einhver gjóla og hiti um 2 gráður. Undirlagið gat verið hált og því varkárni þörf. Skrifari óhlaupinn í þrjár vikur eða svo vegna fótarmeiðsla og því forvitnilegt að sjá hvernig tækist til og hvort hnéð yrði til friðs.

Lagt rólega upp og rætt um ástandið í Sjálfstæðisflokknum, "þeirri gvuðsvoluðu flokksdruslu" eins og einn ónefndur álitsgjafi nefndi gjarnan flokkinn. Leitun væri að þeim forystumanni flokksins sem væri ekki innvikklaður í einhvers konar brask eða gróðabrall. Forvitnilegt yrði að sjá hver framvindan yrði eftir því sem þeirri kröfu hins almenna flokksmanns yxi fiskur um hrygg að til forystu veldist eingöngu fólk sem hefði stjórnmálin að aðalstarfa og væri ekki með einhvern hliðarbissness í skúffunni.

Þannig gekk nú dælan niður á Ægisíðu. Þar standa aldeilis bílarnir í röðum með flottum bílnúmerum og eðlilegt að næst væru þau tekin fyrir. Hér var Ólafur, frændi okkar Flosa, í essinu sínu og kvaðst hafa fengið að gjöf bók Guðmundar Magnússonar um íslensku höfðingjaættirnar. Þar væri heill kafli um bílnúmer og hver ætti hvaða bíl. Með þessu taldi Ólafur að búið væri að renna stoðum undir nýja fræðigrein innan sagnfræðinnar: bílnúmerafræði.

Á þessum degi hafði verið boðað til Bröns í Hlaupasamtökunum á Nauthóli. Þar sem Flosi ætlaði að mæta þar boðaði hann aðeins stutt hlaup um Hlíðarfót og Gvuðsmenn, en við frændur settum stefnuna á hefðbundið. Helga Jónsdóttir frá Melum var á stígum úti og gerði ýmist að dragast aftur úr okkur eða taka fram úr okkur. Við tókum nefnilega hefðbundna göngustansa og ræddum málin af nokkurri einurð. M.a. var tekin góð rispa á skólamálum, stöðu mála í Reykjavíkur Lærða Skóla og rifjaðir upp eftirminnilegir kennarar frá fyrri tíð og drykkfelldir árgangar.

Það blés eilítið við flugvöll og þá kólnaði manni hratt, en hita mátti fá í sig aftur með því að byrja að hlaupa og eftir Kirkjugarð má segja að það hafi verið bærilegt að hlaupa og ekki heldur kalt á Sæbraut. Farið um Miðbæ, hjá Kaffi París og úttekin viðeigandi hylling. Eftir það upp Túngötu, hjá Kristskirkju og niður Hofsvallagötu.

Í Pott mættu auk fyrrnefndra tveggja hlaupara dr. Einar Gunnar, dr. Mímir og dr. Baldur. Setið í góðan klukkutíma og tekin upp fyrri umræða um bílnúmer. M.a. bílnúmer Thors Thors, R-30. "Hvar er það í dag?" spurði Ólafur Þ. og hélt spurningum sínum mjög að Baldri. Einhver giskaði á öskuhaugana. "Nei, aldeilis ekki. Situr á gljáfægðri bifreið í bílskúr á miðju Seltjarnarnesi." "Og hver á bílinn í dag?" Spurningunni var beint að Baldri. Engin svör. Nefndur var eigandi bifreiðarinnar, Bjarni sonur Thors. Enn var frændi í essinu sínu. En þá spurði Baldur á móti: "Og hver er dóttir hans?" Það komu vöfflur á frænda og hann reyndi að snúa sig út úr spurningunni með því að leiða talið að öðru. En Baldur gaf sig ekki og heimtaði svar. Ólafur varð að viðurkenna að þetta vissi hann ekki og þá varð Baldur kátur. Svona gengur þetta nú stundum fyrir sig.

Gott hlaup í góðu veðri og fóturinn nokkurn veginn til friðs.


Fyrsti föstudagur

Sumir mættu í hlaup á Fyrsta Föstudegi hvers mánaðar í desember 2012. Nefndir voru Benzinn, Denni, Karl Gústaf, Þorvaldur, Rúna og svo ungur, slánalegur maður á að gizka 25 ára sem Denni vissi ekki nafnið á. Hlaupurum var fagnað í Potti Vorum í Vesturbæjarlaug að hlaupi loknu og samanstóð móttökusveitin af Kára, Önnu Birnu og skrifara. Setið lengi vel í Potti og tekið upp nördahjal um siglingavegalengdir og -tíma. Alveg til þess að drepa mann!

Af þessum voru aðeins tveir hinir fyrstnefndu auk skrifara sem sáu sóma sinn í að mæta á hefðbundinn Fyrsta á Ljóninu. Þar var nú öllu gáfulegri umræðan yfir glasi af jólaöli. Rætt um ESB, gjaldmiðilsmál, sjávarútveg, stönduga fjölskyldu í Eyjum og gamlan Golf.

Vonandi munu félagar Hlaupasamtakanna sýna hefðbundnum Hátíðisdögum Samtakanna meiri ræktarsemi í framtíðinni og mæta þar sem vaskir piltar koma saman.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband