Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Síðustu sprettir fyrir París

Hópur hlaupara mættur í Brottfararsal, flestir á leiðinni til Parísar, og ætlunin að taka stutta æfingu með sprettum til upprifjunar fyrir maraþonið í París um næstu helgi. Þarna voru líka tveir hlauparar í aukahlutverki, ritari Samtakanna og Þorbjörg hans Rúnars. Veður var eins og best verður á kosið á þessum árstíma: stillt, hlýtt og uppstytta. Eflaust hefur það villt um fyrir mörgum að það snjóaði í gær, en í reynd voru slík hlýindi í dag að það mátti hlaupa húfulaus og í þunnum bol.

Ákveðið að streyma eftir Sólrúnarbraut austur að Kirkjugarði og var ekki erfitt að sjá getumun á hlaupurum og ljóst að sumir eru tilbúnir að þreyta maraþon að viku liðinni. Samt fórum við Þorbjörg allhratt yfir í dag og má segja að við höfum haldið okkur nálægt fimm mínútna tempóinu. Náðum hópnum við Kirkjugarð þar sem þau stoppuðu, við héldum áfram, en þau fóru tilbaka og á Nes, enduðu með 8 km spretti vestur úr. Við Þorbjörg fórum hefðbundinn sunnudag og var þetta ný leið fyrir henni. Það var óneitanlega skrýtið að fara þessa leið á þessum hraða og staðnæmast hvergi. Þó var haldið í þann hluta hefðarinnar að segja sögur og ræða málin.

Við Laug sagði mér blómasalinn að hann hefði hitt Ó. Þorsteinsson við flugvöll og sá hefði viljað upphefja mikið samtal um landsins gagn og nauðsynjar, en blómasalinn varð að banda frá sér og segja að hann mætti ekki vera að þessu. Brást Ólafur þá hinn versti við og hrópaði: "Hvuss slags er þetta eiginlega!?" Mætti segja mér að frændi hafi í framhaldinu veifað gula spjaldinu fyrir þessa ósvífnu framkomu - þetta er náttúrlega under sygekassegrænsen í mannlegum samskiptum.

Næsta hlaup: hefðbundið sunnudagshlaup á annan í páskum kl. 10:10 frá Laug. Spurning hvort ekki verði tekinn snarpur hringur til heiðurs Magnúsi Júlíusi sextugum, og heiðurshringurinn kórónaður með aukinni næringu gróðurs á Óttarsplatz.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband