Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Hátíðlegt á sunnudegi

Á sunnudögum mæta prúðbúnir menn til hlaupa í Brottfararsal. hátíðlegir í fasi og prúðir. Sunnudagar eru óneitanlega sérstakir og var þessi engin undantekning á því. Ritari mætti snemma til þess að skella sér í pott og mýkja upp stirða vöðva eftir 22 km hlaup gærdagsins. En það skyldi sprett úr spori aftur í dag. Er ég kom til búningsklefa var þar mættur frændi minn, Ó. Þorsteinsson, einnig mættur snemma og gat vart hamið hlaupagleðina. Einnig mættur Þorvaldur Gunnlaugsson. Við tökum til við að undirbúa brottför og vildum gefa eftirlegukindum tækifæri til það sameinast okkur og bjuggumst við mönnum eins og Magga eða Jörundi. En hver kemur á síðustu stundu, þegar klukkuna vantar 2 mínútur í hlaup, nema Einar blómasali? Það er merkilegt hvað menn eru reiðubúnir að afsaka þann mann og óstundvísi hans lengi, ég hef margoft sagt að hann muni ekki læra á klukku fyrr en hann sér á eftir okkur leggja af stað í hlaup án hans. Nei, nei, það má ekki, þetta er nú einu sinni blómasalinn!

Lagt af stað og var minn maður stirður. Á sunnudögum ræður frásagnargleðin ríkjum, bannað er að ræða um peninga og hrun, en minnt var á að við erum nú búin að hlusta á barlóminn í eitt ár og er mál að linni. Þess í stað var rætt um persónur, ættfræði, viðburði og ýmislegt sögulegt. Sunnudagar eru sérstakir í starfsemi Samtaka vorra, það er nánast eins og að fara í kirkju og mönnum líður eins og hreinsuðum hundum á eftir. Eðlilega var um margt að ræða, ekki sízt áskriftahrun Dödens avis sem sumum finnst vera meira feimnismál en kynhneigð eða innkaup í Bónus.

Fyrsta stopp í Nauthólsvík eins og hefðin býður. Ég var feginn stoppinu því það gaf kærkomið hlé fyrir stirðan skrokk. Svo áfram í kirkjugarð. Ég upplýsti félaga mína um það að Brynleifur Tobíasson menntaskólakennari sem þar hvílir hafi verið í hópi þeirra sem tóku á móti Stephani G. Stephanssyni þegar hann kom til Akureyrar 1917.

Á Klambratúni rauk kona upp um hálsinn á blómasalanum og sáum við hann ekki aftur fyrr en á Hofsvallagötu. Áfram niður á Sæbraut og tilbaka, en stoppað nokkuð oft á leiðinni, um margt var að ræða. Á Mýrargötu rákumst við á Gunnar Gunnarsson útvarpsmann, það kallaði á stutt spjall.

Í pott mættu þeir Baldur Símonarson, Jörundur og Einar Gunnar Pétursson, auk Helgu Jónsdóttur Zoega Gröndal og St. Sigurðssonar verkfræðings. Umræðuefni morgunsins fóru í endurvinnslu og gerð enn betri skil en um morguninn. Einar Gunnar upplýsti að hann ráðgerði að fara að lesa ævisögu Jóns Sigurðssonar eftir Pál Eggert - var honum ráðið frá því og þótti vinarbragð.  

Næsta hlaup mánudag kl. 17:30 - sprettir.


Hlaupið í hauststillum

Í gær var Fyrsti Föstudagur í Hlaujpasamtökum Lýðveldisins, þá var hitzt á Dauða Ljóninu og drukknir nokkrir bjórar í tilefni dagsins. Bjössi sagði Berlínarsögur af þeim Bigga og nýjum hlaupara sem mun vilja hlaupa með okkur, Erni. Mikið handapat.

En í dag tók við alvara lífsins. Hópur hlaupara fór frá Vesturbæjarlaug kl. 9:30, en áður voru Rúna og Jóhanna farnar í langhlaup, toppað fyrir New York, 30 km. En hér voru mætt: Rúnar, Margrét, Þorbjörg K., tveir Finnar og Ólafur ritari. Svo bættust tvær sprækar dömur í hópinn, mér skilst þær heiti Jóhanna og Gerða. Veður gerist ekki betra á haustum, 4 stiga hiti, sól og stillt. Lagt upp á hægu tölti.

Ritari fór fyrir hópnum með reistan makka. Það var góð tilfinning að vera á stígum úti á þessum fagra, svala morgni og eiga náttúruupplifun í vændum. Nú gerist það að um það bil sem hópurinn er að ná mér í Nauthólsvík verður á vegi okkar stórfrændi minn og vinur, Ól. Þorsteinsson Víkingur. Var hann á sinni hefðbundnu laugardagsrúndu og tók marga tali á leiðinni. Hann stöðvaði mig og ég leyfði þeim hinum að fara fram úr. Við þurftum að ræða marga hluti, þennan helztan: 96 ára samfelldri áskriftarsögu þriggja kynslóða í beinan karllegg að Dödens avis lauk fyrir skemmstu. Viðbrögð tíðindablaðsins voru þau að senda örvæntingarfullt hótunarbréf til áskrifanda, sem verður svarað af festu á næstu dögum.

Á móti okkur kom Jörundur stórhlaupari sem þreytir Amsterdam-maraþon eftir 2 vikur og fara á fullri ferð, eftir ekki færri en 20 km að því er virtist. Hann tók stóran sveig framhjá okkur og yggldi sig ægilega framan í okkur, gvuð má vita hvers vegna.

Ég fór áfram í Fossvoginn með Þorbjörgu, þau hin voru löngu horfin. Við héldum kompaní inn að Breiðholtsbraut, þá sneri hún við en ég hélt áfram upp að Stíbblu. Það var einstök tilfinning að fara þennan hluta leiðarinnar, áin, hólminn, gróðurinn, fossinn - engu líkt! Hvílík forréttindi að eiga þess kost að hlaupa á laugardagsmorgni á þessari leið! Mér varð hugsað til allra vina minna sem lágu heima undir fiðri og misstu af herlegheitunum.

Nóg af orkudrykk með í för og ég staldraði við á stíflunni og horfði yfir sköpunarverkið. Áfram niður úr. Að þessu sinni var ritari í góðu formi og vel upplagður fyrir langhlaup. Það var farið niður hjá Rafveituheimili, yfir árnar, og stefnan sett á Laugardalinn. Svo hefðbundið niður á Sæbraut, þar sem ég mætti Krumma, bekkjarfélaga úr Reykjavíkur Lærða Skóla, á reiðhjóli. Hann er orðinn hjólreiðafantur á gamals aldri, en við vorum báðir í samtökum á menntaskólaárunum sem helguðu sig baráttunni GEGN íþróttabölinu!

Hlaupið gekk vel fyrir sig og var líðan góð að því loknu. Setið í potti og svo kom dr. Jóhanna hafandi hlaupið 30 km með Rúnu. Enn og aftur fylltist maður vorkunn í garð félaga sinna, sem misstu af þessu góða hlaupi á frábærum degi í hauststillu.

Nýtt hlaup að morgni, 10:10. Vel mætt!

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband