Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hvert leitar klárinn?

Allt var með kyrrum kjörum er valdir hlauparar mættu til hlaups í dag, mánudag, og skal fyrsta telja Ólaf ritara og Björn kokk, sem er þó öðruvísi kokkur en Kalli kokkur. Téður Karl var einnig mættur. Auk þessara var ótrúlegt mann- og kvenval, ekki færri en tveir tugir hlaupara og væri að æra óstöðugan að nefna alla þá. Í Brottfararsal sat dr. Friðrik og gat bætt við sögu Jörundar af langafa ritara, nánar tiltekið um afdrif Hreimsstaða í Norðurárdal. Aðrir ræddu örlög óforsjálla hlaupara sem ekki kunnu fótum sínum forráð, fóru ekki að ráðum lækna, hlupu eins og vitleysingar þegar þeir áttu að hvíla, breyttu hvíld í hvíldarhlaup, og hvíldarskokki í hvíldarspretti. Menn sem reka gjarnan tærnar í gangstéttarhellur sem skaga upp úr landslaginu, takast á loft, liggja láréttir um stund í loftinu og íhuga lífshlaup sitt, skella með dynk á Fósturjörðinni - og draga engar skynsamlegar ályktanir af því sem gengið hefur á. Menn voru sammála um að slíkir væru ekki til eftirbreytni í Samtökum Vorum.

Magnús var mættur, fullur af velviljuðum meiningum í garð íþróttaliðs nokkurs í Fossvoginum, sem fyllir tíunda tuginn á næsta ári. Hann velti fyrir sér hvort ekki væri mikil gæfa að lið þetta hefði ekki fallið alla leið niður í 2. deild, svo hafi fallið verið mikið. Nú hló hann ægilega og var skrýtin tilfinning að sjá þennan prúða tannlækni í þessum ham gegn vini sínum og velunnara hlaupa og framfara í Vesturbænum. En nú var klukkan komin, allir mættir í fullu gíri, einhverjir ekki í alveg hreinum fatnaði, en það mátti sjá gegnum fingur sér með það, þegar konurnar voru svona margar. Líklega segir það meira um stærðfræðikunnáttu mína en nokkuð annað, að ég kom ekki tölu að fjölda kvenna í dag. Úti á stétt gaf þjálfarinn skipanir um hlaup dagsins: farið skyldi hefðbundið út skv. áratugahefð mánudagshlaupa, en þó upp á Víðimel, þaðan út á Suðurgötu og þannig áfram. Síðan voru þarna einhverjir sem fóru hægar og þurftu sérstaka meðferð. Hópurinn lagði í hann.

Svo er ekkert með það, nema þegar við erum stödd á Hofsvallagötu, hvað sjáum við nema blikið af kampavínslitri jeppabifreið með einkennisstafina R-158. Hér braust út brjáluð trylling í hópnum, slík voru fagnaðarlætin þegar við börðum augum Formann Vorn til Lífstíðar, sem að sínu leyti ljómaði eins og tungl í fyllingu með sólgleraugu, og virtist fögnuðurinn ekki vera minni inni í bílnum. Breiddist út almenn sælutilfinning meðal viðstaddra og gaf þessi viðburður fyrirheit um velheppnað hlaup.

Ég hljóp með Einari blómasala, sem hefur ekki hlaupið lengi. Bæði er hann orðinn feitur og þungur, en eitthvað hefur hann verið slæmur í baki. Nú átti að láta reyna á ástandið. Hann fór strax að kvarta yfir að eiga enga stauka af Smarties lengur og bað ritara að bjarga sér. Hér var rætt um hádegisverði: rjómagúllas og pótatismús í Arnarhváli, með miklu af salati; einn banani og hálfur lítri af trópí hjá G. Arasyni. Svona er misskipt mannanna láni. Með okkur hljóp Kalli sem er allur að koma til og fer þó skynsamlega. Við fórum fetið í Skerjafjörðinn, leyfðum hinum að æða áfram eins og þeim sýndist. Þó var Sigurður Ingvarsson rólegur framan af. En svo kom að því að hann vildi vita hvað fremstu menn væru að hugsa og hvarf okkur rólyndismönnunum.

Er kom út að í Skerjafjörð var farið að blása leiðinlega úr óhagstæðri átt og orðið kalt, og við kumpánar aftastir. Dagsskipunin var að taka spretti frá síðasta húsi í Skerjafirði og eina 250 m vestureftir. Fjórum sinnum! Við vorum lítt mótíveraðir að taka spretti hér og Kalli mátti það beinlínis ekki, enda má segja að munurinn á Kalla og sumum, ónefndum hlaupurum sem aldrei læra af vondri reynslu, að hann hlustar vandlega á þau merki sem líkaminn sendir honum. Við fórum því hægt þennan sprett í fullkomnu sólídariteti við Kalla. Sáum hóp fólks sem hljóp fram og tilbaka í algjörri, rómantískri tryllingu. Þeirra á meðal mátti kenna þá Kaupþingskumpána, og var annar þeirra einkennilega tómeygður er hann var spurður um heilsu. Ekki drógu menn af sér. Hér hljóp eitthvert kapp í okkur fóstbræður, ritara og blómasala. Við tókum upp á því að spretta tilbaka eins og við ættum lífið að leysa, var m.a. til þess tekið hvernig ritari þeysti fram úr prófessornum af Keldum og minnti einna helst á Berlínarsprett Haile Gebreselassie, kunningja Jörundar, og frægt er orðið. Nú var sprett fram og tilbaka og voru menn furðu léttir á sér. En það var svo anzi kalt að menn héldu þetta ekki út lengi, áfram Ægisíðu og tilbaka í pott. Hinir harðgerustu héldu áfram á Nes og segir ekki meira af þeim.

Í potti urðu einna helzt umræður um graffiti, veggjakrot, innflutning á spraydósum. Í potti voru Gísli, Helmut, dr. Jóhanna, dr. Anna Birna, og fleira merkilegt fólk. Einnig Björn kokkur og var mikið rætt um matargerð, chili con carne, hvað mætti vera og hvað ekki, Waldorf salat, má setja sellerírót í Waldorf salat? Afródísíaks, svæfa konu eða örva hana, hvað er bezt í matinn? Menn sáust steðja úr potti út í Melabúð eða Hagkaup. Þannig enda hlaup stundum, hvað á að borða? Í gvuðs friði. Pása til sunnudags fyrir þennan hlaupara.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband