Stringbeans og sundaðferðirnar fjórar

Veðurútlit slæmt, norðangarri og grimmdargaddur í hádeginu. Hlýnandi með eftirmiðdeginum og farið að rigna. Á slíkum dögum kemur bezt í ljós hverjir eru naglar og hverjir eru það ekki. Af þeirri ástæðu verða þeir taldir upp sem mættu til hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á þessum miðvikudegi: próf. Fróði, Flosi, dr. Friðrik, Þorvaldur, Bjössi, Biggi, Magga þjálfari, Sirrý, Rúnar þjálfari og nýliðinn Ragnar. Loks komu Ósk og Hjálmar, en Melabúðar-Friðrik var óljós hugmynd í myrkrinu, við sáum hann ekki fyrr en í potti, en hann kveðst hafa hlaupið. Blómasalinn hafði meldað sig veikan af ótilgreindum sjúkdómi sem ekki verður farið út í hér.

Ýmsar hugmyndir uppi um vegalengdir, prófessorinn vildi fara hægt og stutt vegna meiðsla í ótilgreindum líkamsvöðva. Bjössi og Flosi vildu fara langt. Aðrir stefndu á Þriggjabrúahlaup. Samstaða um að fara hægt af stað. Byrjað á 5:40, fljótlega komið niður í 5 mín. tempó. Ég hékk í þeim fremstu fyrstu 2 km - svo voru þeir horfnir, en á eftir mér voru þjálfarar, Sirrý, Ósk og Hjálmar. Þau náðu mér við Boggann og fóru fram úr en ég hafði félagsskap af Rúnari og Sirrý yfir á Kringlumýrarbraut, þar yfirgaf þjálfarinn okkar á hröðu skeiði og við tvö fórum fetið tilbaka um Sæbraut. Þar gekk sjór yfir hlaupastíg, en við létum það ekki á okkur fá. Lentum ótrúlega oft á rauðu ljósi á leiðinni, sem tafði mikið fyrir.

Ritari var of mikið klæddur, m.a. í flíspeysu, sem gerðist mjög þung af regni og svita þannig að það var kvalræði að ljúka síðustu 2-3 kílómetrunum. Það var mun hlýrra en ég hélt, svona klikkar maður stundum á klæðaburðinum. En hlaupið var frábært og líðan góð við komu í Móttökusal þar sem við hittum Flosa og Ágúst, sem fóru svipað og við. Þar voru einnig Kári og Anna Birna óhlaupin, og loks kom blómasalinn og virtist alls ekki veikur. Bar við vinnu. Hann var mættur til þess að fara í pott. Þar lýsti hann yfir því að hann væri á leið í leikhús, sér væri boðið. "Á hvaða stykki?" spurðum við. "Það er eftir einhvern Stringbean og heitir Sundaðferðirnar fjórar." 

Minnt er á Fyrsta Föstudag nk. föstudag, Dauða Ljónið kl. 19. Eftir hlaup, að sjálfsögðu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband