Keyptur nýr ostaskeri

Denni skransali er sér til menningarlegrar uppbyggingar og alhliða sálrænnar bætingar æ sem oftast farinn að hlaupa með okkur, Hlaupasamtökum Lýðveldisins, á föstudögum. Sjálfsagt er líka grunnt á vonina um að menn fullnýti gamlar heimildir til Fyrsta Föstudags, sem eru orðnar allmargar. Engu að síður er gaman að fá þessa heimsókn, þótt úr öðru sveitarfélagi sé. Hins vegar varð dramatíkin mikil þegar í Brottfararsal var komið, því skyndilega dúkkar blómasalinn upp. Denni bregst hinn ævasti við og öskrar: "Var ekki búið að afboða þennan mann? Og ég sem kom gagngert vegna þess að ég taldi öruggt að hann kæmi ekki!" Svo sem fram kom í skeytum dagsins hafði blómasalinn lofað að fara á Jómfrúna í dag í stað þess að hlaupa.

Í Brottfararsal varð hávær umræða um misvísandi viðbrögð við hinum frábæra árangri Jörundar okkar í Amsturdammi. Var einkum rætt um óviðurkvæmileg ummæli álitsgjafa úr Garðabæ þar sem ágæti Jörundar var dregið í efa og voru menn sammála um að slíkt væri ekki til eftirbreytni, að hinu leytinu væri lofrulla ágæts frænda ritara um Jörund mjög til fyrirmyndar og sönnun þess að Jörundur er einhver mestur og beztur hlaupari í hópi vorum og sérstakt stolt Samtaka Vorra.

Þorvaldur Gunnlaugsson kom syngjandi glaður í Útiklefa, kvað skýringuna vera pólitískan afleik Guðfríðar Lilju í útvarpsviðtali. Síðan komu þeir hver af öðrum: Flosi, blómasalinn, Benedikt, Jörundur stórhlaupari og stolt Hlaupasamtakanna, Biggi, Unnur mín (eða "mean" eftir atvikum, þ.e. hin meinbægna), dr. Jóhanna, Rakel, ritari - liklega ekki fleiri. Úti á Plani ríkti almennt frjálsræði og var ýmist rætt um Nes eða hefðbundið. Dr. Jóhönnu var mjög litið til Ness, aðrir vildu hefðbundið. Svo tókum við bræður af skarið og lögðum af stað, ekki kom til greina að breyta til.

Jörundur var rólegur í dag, enda nýkominn úr Amsterdam-maraþoni, þar sem hann gerði góða hluti. Biggi kvefaður og búinn að bryðja hvítlauk eins og sælgæti. Þannig að fyrir utan hávaðann frá honum (sem stafar af heyrnarleysi, sem að sínu leyti stafar af áratugalangri mergsöfnun sem ekki hefur sætt hreinsun þrátt fyrir lofsverða viðleitni hinna fjölmörgu eyrnalækna Samtakanna til þess að taka á vandanum). Þannig að auk hins hefðbundna hávaða sem stafar frá þessum ágæta félaga þá var hvítlauksstybban að drepa okkur, reyndum við af þeirri ástæðu að skilja félagann eftir.

Við vorum nokkur sem skárum okkur úr í hlaupi dagsins. Flosi sem fyrr fremstur og skildi eiginlega alla aðra eftir. Einhver reyndi að hanga í honum, en það var tilgangslaust. Þá var það næsti hópur: Rakel, Benedikt, blómasalinn, ritari og fyrrnefnd Unnur. Þessi hópur reyndist býsna þéttur og hélt saman allt til enda. Komið í Nauthólsvík, upp Hi-Lux og brekkuna góðu. Og svo áfram hefðbundið skv. föstudagsprógrammi. Á leiðinni var fjallað um ýmislegt sem lýtur að viðskiptum á Íslandi, svo sem laus búðapláss á Laugavegi og um Kringluna, sem sumir töldu að væri ákjósanlegasta búðarpláss á landinu. Þangað fór Benedikt og keypti sér ostaskera sl. laugardag og fékk við mjög viðráðanlegu verði. Ef mig misminnir ekki keypti hann tvo ostaskera að fenginni umsögn ektakvinnu sinnar. Hlaut hann almennt lof hlaupara fyrir framtakið, fólk taldi mjög skynsamlegt að eiga tvo ostaskera, rökstuðninginn man ég ekki lengur.

Hlemmur, Sæbraut. Eitthvað um að menn reyndu að hlaupa fyrir bíla, en þeir eru orðnir varir um sig, sennilega farnir að þekkja ónefndan hlaupara af Óðagotsætt. Þessi hópur var mjög samstilltur og raunar merkilegt hvað Benedikt var stilltur. Einhver illa innrættur einstaklingur spurði hvort hann væri farinn að taka lyfin sín, en Benedikt lét slíkt sem vind um eyrun þjóta. Það var einkar ánægjulegt að taka þéttingsgott hlaup í hópi góðra hlaupara, hafa þennan stuðning til þess að slaka ekki á og gera aðeins betur en mann eiginlega langar til. Sérstaka athygli vakti frábær frammistaða Unnar, sem var fremst meðal jafningja í hlaupi dagsins.

Farið um miðbæinn, sem lengir hlaup um 500 m - mönnum er orðið óbærilegt að hugsa til ónefnds álitsgjafa eftir ósanngjarnar sendingar um hann Jörund okkar. Komið á góðum tíma til Laugar. Þar mættu þá óhlaupnir Björn kokkur, Melabúðar-Friðrik og Rúna. En þetta fólk er í sérstöku prógrammi og því afsökuð. Pottur gríðarlega þéttur, ekki færri en fjórtán einstaklingar fylltu hringinn og umræður allar hinar spaklegustu og var talað út og suður. Enn og aftur staðfest hvílíkur hópur er hér á ferð. Menn söknuðu prófessors Fróða, sem er haldinn dularfullum sjúkdómi.

Næsta hlaup er sunnudaginn 25. október kl. 10:10. Eru miklar vonir bundnar við það hlaup.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband