Fyrsti snjórinn

Veður fer kólnandi, hráslagalegt var um að litast er mætt var til hlaups í dag. Ekki langaði mann til að hlaupa, en lét sig hafa það, hefði ella verið kallaður "sólskinshlaupari" eins og þessi fáu skipti sem maður missir af hlaupi af óviðráðanlegum ástæðum. En það er eins og veður hafi engin áhrif á þátttöku, aldrei fleiri sem hlaupa en þegar veður er hvað leiðinlegast. Nú voru þessir hefðbundnu 30 sem mættu, meðal þeirra mátti þekkja dr. Friðrik, Melabúðar-Friðrik, próf. Fróða, Magga, Bjarna Benz sem er að rísa af beði eftir langvarandi meiðsl - og þannig mætti áfram telja. Það var Clint Eastwood-keppni í útiklefa, Flosi, ritari og blómasali komu hver á eftir öðrum og slógu upp tjaldinu svo að þeir sem fyrir voru hrukku í kút. Það var líka ætlunin. Hins vegar kom Bjössi aldrei svo að aðalnaglinn tók ekki þátt í keppninni. Bjössi er hættur í útiklefa sökum kulda.

Þjálfari var leyndardómsfullur þegar hann sagði að það ætti að taka brekkuspretti í Öskjuhlíðinni, en greinilegt var að eitthvað annarlegt bjó undir. Lagt í hann. Það átti að fara rólega. Enginn tók mark á því, það var farið á 5 mín. tempói inn í Nauthólsvík, blómasalinn í forystu og hefur ekki hlaupið af þvílíkum krafti lengi, hann minnti einna helzt á fjögurra vetra vakran fola. Frikki Meló mátti hafa sig allan við að hanga í honum. Við hinir, helztu drengirnir á eftir, ritari, Flosi, próf. Fróði, próf. dr. Keldensis og Bjössi. Bjössi og Fróði voru á stuttbuxum og virtist heldur kalt.

Á daginn kom að Rúnar var greinilega búinn að lesa einhvern undarlegan hlaupalitteratúr, miðað við æfingarnar sem við vorum látin gera austan við HR-bygginguna, sem betur fer var þetta í vari og ekki margir sem hafa séð herlegheitin. Ekki verður hér gerð nánari grein fyrir þeim af virðingu fyrir viðstöddum og orðspori þeirra. Nú var farið upp í brekku og teknir 5-8 sprettir allt eftir því hver taldi. Þarna hlunkaðist maður upp og niður eins og meðalbúttuð húsmóðir og blés vart úr nös. Prófessor Fróði neitaði að fara fleiri en fimm spretti og varð það niðurstaðan að halda áfram hefðbundinn föstudag, með í för Bjössi, Einar og Guðmundur sterki.

Fátt markvert á heimleiðinni annað en að það byrjaði að snjóa. Við Einar töldum laus búðarpláss á Laugaveginum og kom í ljós að þau eru aðeins 15, hefur fækkað um helming síðan síðast var talið. Gríðarlegur sprettur niður Bankastrætið. "Sástu þetta?" spurði Einar. "Sástu kraftinn?" Ég sagðist telja að þetta hafi verið þyngdarkrafturinn að verki, enginn annar kraftur. Farið á hægu tölti til Laugar.

Geysilega vel mannaður pottur og margt rætt af djúpri speki. Nú fór að snjóa fyrir alvöru og um leið fór vatnið í pottinum að hitna verulega svo að sauð upp úr. Rætt um eins árs "afmæli" kreppunnar. Langt á miðvikudag, ekki styttra en 26 km.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband