Hlaupið í hauststillum

Í gær var Fyrsti Föstudagur í Hlaujpasamtökum Lýðveldisins, þá var hitzt á Dauða Ljóninu og drukknir nokkrir bjórar í tilefni dagsins. Bjössi sagði Berlínarsögur af þeim Bigga og nýjum hlaupara sem mun vilja hlaupa með okkur, Erni. Mikið handapat.

En í dag tók við alvara lífsins. Hópur hlaupara fór frá Vesturbæjarlaug kl. 9:30, en áður voru Rúna og Jóhanna farnar í langhlaup, toppað fyrir New York, 30 km. En hér voru mætt: Rúnar, Margrét, Þorbjörg K., tveir Finnar og Ólafur ritari. Svo bættust tvær sprækar dömur í hópinn, mér skilst þær heiti Jóhanna og Gerða. Veður gerist ekki betra á haustum, 4 stiga hiti, sól og stillt. Lagt upp á hægu tölti.

Ritari fór fyrir hópnum með reistan makka. Það var góð tilfinning að vera á stígum úti á þessum fagra, svala morgni og eiga náttúruupplifun í vændum. Nú gerist það að um það bil sem hópurinn er að ná mér í Nauthólsvík verður á vegi okkar stórfrændi minn og vinur, Ól. Þorsteinsson Víkingur. Var hann á sinni hefðbundnu laugardagsrúndu og tók marga tali á leiðinni. Hann stöðvaði mig og ég leyfði þeim hinum að fara fram úr. Við þurftum að ræða marga hluti, þennan helztan: 96 ára samfelldri áskriftarsögu þriggja kynslóða í beinan karllegg að Dödens avis lauk fyrir skemmstu. Viðbrögð tíðindablaðsins voru þau að senda örvæntingarfullt hótunarbréf til áskrifanda, sem verður svarað af festu á næstu dögum.

Á móti okkur kom Jörundur stórhlaupari sem þreytir Amsterdam-maraþon eftir 2 vikur og fara á fullri ferð, eftir ekki færri en 20 km að því er virtist. Hann tók stóran sveig framhjá okkur og yggldi sig ægilega framan í okkur, gvuð má vita hvers vegna.

Ég fór áfram í Fossvoginn með Þorbjörgu, þau hin voru löngu horfin. Við héldum kompaní inn að Breiðholtsbraut, þá sneri hún við en ég hélt áfram upp að Stíbblu. Það var einstök tilfinning að fara þennan hluta leiðarinnar, áin, hólminn, gróðurinn, fossinn - engu líkt! Hvílík forréttindi að eiga þess kost að hlaupa á laugardagsmorgni á þessari leið! Mér varð hugsað til allra vina minna sem lágu heima undir fiðri og misstu af herlegheitunum.

Nóg af orkudrykk með í för og ég staldraði við á stíflunni og horfði yfir sköpunarverkið. Áfram niður úr. Að þessu sinni var ritari í góðu formi og vel upplagður fyrir langhlaup. Það var farið niður hjá Rafveituheimili, yfir árnar, og stefnan sett á Laugardalinn. Svo hefðbundið niður á Sæbraut, þar sem ég mætti Krumma, bekkjarfélaga úr Reykjavíkur Lærða Skóla, á reiðhjóli. Hann er orðinn hjólreiðafantur á gamals aldri, en við vorum báðir í samtökum á menntaskólaárunum sem helguðu sig baráttunni GEGN íþróttabölinu!

Hlaupið gekk vel fyrir sig og var líðan góð að því loknu. Setið í potti og svo kom dr. Jóhanna hafandi hlaupið 30 km með Rúnu. Enn og aftur fylltist maður vorkunn í garð félaga sinna, sem misstu af þessu góða hlaupi á frábærum degi í hauststillu.

Nýtt hlaup að morgni, 10:10. Vel mætt!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af undarlegri náttúru 

Það er undarleg náttúra sem hefur gripið menn að undanförnu. Fyrir nokkrum árum fóru menn að tala opinskátt um kynhneigð sína, eins og það komi öllum öðrum við. Hin nýja náttúra er að opinbera áskrift sína að Morgunblaðinu.

Mér finnst rétt og eðlilegt að fólk opinberi það hvort þeir kaupa matvörur í Bónus og nota síma í áskrift frá Nova.

Það er einkamál manna hvort þeir kaupa Morgunblaðið og kemur alþjóð ekki við.

Með vinsemd og virðingu, Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur Bjarnason (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband