25.8.2009 | 20:05
Þessi hópur er ótrúlegur - hvernig er þetta hægt?
Á miðvikudegi eftir maraþon er ritari enn svolítið stirður og hefur afsökun til þess að fara stutt og hægt. Aðrir eru í prógrammi, einhverjir vilja fara 20, aðrir Þriggjabrúahlaup. Þjálfarar töldu sig telja nálægt þrjátíu hlaupara á Brottfararplani, ekki þori ég að ábyrgjast talnafærni þeirra, og sel þetta ekki dýrara en ég keypti. Meðal merkra hlaupara voru Jörundur, Ágúst, Magnús, dr. Friðrik, Flosi - og svo þetta venjulega lið, en þó enginn blómasali. Dr. Jóhanna komin með drengjakoll og minnti á hann Tuma sinn. Þarna var Kaupmaðurinn á Horninu, sem útleggst The Horny Grocer á útlenzkri tungu. Og fleiri og fleiri. M.a. nokkrar hortugar meyjar. Meira um það seinna.
Menn óskuðu okkur Jörundi til hamingju með maraþonið á laugardaginn, en bættu gjarnan við í vinsamlegum tóni: Þetta gengur bara betur næst hjá ykkur. Ágúst sagði að ég hefði átt að fara á undir fjórum tímum, hefði átt að fylgja gamla prógramminu hans.
Þjálfarar gáfu út mismunandi leiðbeiningar til hlaupara eftir því hvar í prógrammi þeir væru. Sumir fara í maraþon eftir mánuð, aðrir um miðjan október og svo þau fjögur sem fara í New York í byrjun nóvember. Feginn að vera búinn með þetta að sinni!
Þorvaldur fann golfkúlu á Ægisíðu og ég sagði söguna Marine Biologist úr Seinfeld. Hópurinn skiptist fljótlega upp í þrjár ef ekki fjórar deildir eftir hraða. Ég lenti með þeim Sirrý og Þorbjörgu, Rúnari og Rakel, í Hlíðarfæti. Rifjaðar upp myndir úr maraþonhlaupinu og svipurinn á ýmsum af hlaupurum okkar, Bigga, Eiríki o. fl. Ég spurði þær hvort þeim hefði ekki þótt menn svipljótir. "Svipljótir?", sagði Þorbjörg, "menn voru ekki svipljótir. Bara ljótir!" Svo mörg voru þau orð.
Jörundur hélt áfram í Þriggjabrúahlaup, enda er hann farinn að undirbúa Amsterdam-maraþon í október. Þetta er eitthvað annað en próf. Fróði, sem eyddi laugardeginum uppi í sófa og horfði á maraþon meðan félagar hans hlupu maraþon.
Hittum Benna við Laug. Hann var búinn að hlaupa tvívegis í dag. Hljóp því ekki með okkur. Var með ungum syni sínum að lauga sig. Aðspurður hvort kona hans hlypi aldrei á þessum tíma, sagði hann að kona sín væri ávallt bakvið eldavélina að baksa við kvöldmatinn um kvöldmatarleytið.
Í potti var fjölmennt. Sif Jónsdóttir langhlaupari var mætt. Sameiginlega tókumst við á hendur að greina ástand próf. Fróða, harla vel hafandi í huga grein þá er B. Símonarson, hlaupari án hlaupaskyldu, sendi okkur um daginn og fjallaði um hlaupafíkn. Hún fjallaði um menn sem liggja uppi í sófa, fullir sjálfsvorkunnar og þunglyndis, þeir eiga við vanda að stríða. Þeir hafa ofgert sér í hlaupum, eru yfirhlaupnir, og einna helzt líkir þeim sem hafa drukkið of mikið og eru komnir á botninn. Eins og menn muna er Marathon des Sables slíkra manna Hafnarstræti hlauparanna. Neðar verður vart komizt. Menn hafa sér engin markmið lengur, hættir að hlaupa, sjá ekki tilgang með því að dröslast á fætur. Áður en langt um líður eru þeir komnir með skósíða vömb og sígarettu í munnvikið. Nei, þegar svo er komið er ástæða til þess að fara að leita sér hjálpar.
Þessi greining virtist smellpassa og andmælum var ekki við komið. Bjössi sagði okkur sögu af ketti. Kári kvaðst eiga stefnumót við lambalæri. Biggi að leita að tenór í kirkjukór Neskirkju. Framundan er Brúarhlaup, daginn eftir Fyrsta Föstudag að Jörundar. Hvílíkir tímar sem við lifum á!
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt 26.8.2009 kl. 21:11 | Facebook
Athugasemdir
Ég verð að segja að það er vel nýttur tími sem fer í að lesa skrif þín hérna á síðunni
Geir (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.