"... hann var með skrýtna vini sínum..."

Anekdótur í potti eftir hlaup - meira um það seinna. Geysilegur fjöldi hlaupara var mættur til miðvikudagshlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í dag. Meðal þeirra mátti greina kunnugleg andlit svo sem tilheyrandi Jörundi, Helmut, Ágústi, S. Ingvarssyni og Flosa nýkomnum úr fjallaferð. Rúnar þjálfari var mættur og einhver ókunnra andlita, en það bætist stöðugt við hóp hlaupara og loksins getum við stært okkur af því að hafa endurvakið áhuga kvenna á hópnum.

Það fór fram lýðræðisleg umræða á Plani um fyrirætlanir hlaupara í hlaupi dagsins. Menn horfðu feimnislega hver á annan. Þjálfari spurði hvað menn ætluðust fyrir, "ætla einhverjir langt?" Tja, sagði einhver. Kliður fór um hópinn og það heyrðist hvíslað "Goldfinger". Þjálfari tilkynnti Þriggjabrúahlaup með tempói eftir upphitun út að Skítastöð. Aðrir máttu fara lengra eða skemmra eftir smekk. Við Sigurður og Ágúst ákváðum að fara Goldfinger - hið skemmsta.

Svo var bara þetta hefðbundna út að Skítastöð. Birgir angaði af hvítlauk, líklega enn eitt úrræðið gegn feimninni. Farið rólega, þar til þeir fantar Eiríkur og Benedikt tóku á rás og hurfu. Þjálfari hélt fljótlega í humátt á eftir þeim og var sömuleiðis horfinn. Stór hópur beygði upp hjá Borgarspítala samkvæmt fyrirframákveðinni áætlun, en við Siggi og Gústi héldum áfram í Fossvoginn. Það var ákveðið að fara rólega, menn voru eitthvað þungir í dag.

Brekkan góða var indæl og við gerðum hefðbundinn stanz hjá Goldfinger - enn var lokað. Við áfram yfir í Mjóddina, stoppað og drukkið vatn við Olís-stöðina og áfram í Elliðaárdalinn. Í Laugardalnum var í raun tekinn þéttingur, þannig að þetta með þyngslin var eitthvað orðum aukið. En í það stóra heila var tekið vel á því og menn komu þreyttir og sveittir tilbaka. Stefnt er á Reykjavíkurmaraþon og markaði þetta hlaup hið fyrsta í upptaktinum að þeirri áætlun.

Það var ansi þéttur pottur eftir hlaup. Rifjaðar upp sögur úr Bláskógaskokki, Biggi reyndi að ná athyglinni, en gekk illa, atyrti menn fyrir að geta ekki fylgst með. Einhvern tíma meðan á hlaupi stóð spurði Rúna Stellu dóttur sína hvort hún hefði séð föður sinn. "Já, hann var way out of it!" "En hvar var hann?" spurði Rúna. "Hann var þarna með þessum skrýtna vini sínum..." Rúna var engu nær um hver þetta var, lýsingin gat átt við hvern þessara sextán hlaupara í Hlaupasamtökunum sem tóku þátt í hlaupinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband