Miðnæturhlaup á Jónsmessu í Laugardalnum

Metþátttaka var í Miðnæturhlaupi að þessu sinni, svo mikil raunar að loka varð fyrir skráningu er leið á kvöldið og urðu einhverjir frá að hverfa án þess að hafa erindi sem erfiði. Þarna mátti sjá marga félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Fyrstan og fremstan meðal jafningja að virðingu og góðmennsku skal nefna Ó. Þorsteinsson Víking ásamt sinni ágætu frú, Helgu Jónsdóttur frá Melum. Einnig mátti þekkja Þjóðskáld Samtakanna, Þ. Eldjárn, Flosa, Friðrik, Helmut, Rúnu, dr. Jóhönnu, Einar blómasala, Benedikt, Eirík, Bigga, Tinnu, Dagnýju, Sif, Sigurð Ingvarsson og Ólaf ritara. Þá var og Tumi á ferð, mikið hlaupaefni. Margrét þjálfari og Rúnar. Líklega hefur verið á annað þúsund hlaupara á ferð í kvöld.

Andkalt og einhver vindur á vestan, en hiti um 10 stig. Góður hugur í fólki án þess þó að fyrir lægju ákveðin markmið, víða heyrðist talað um að menn ætluðu bara að fara rólega og njóta hlaupsins. Blómasalinn fékk sér kjúklingasúpu í kvöldmat og viðbúið að það myndi gutla talsvert í belgnum á honum á leiðinni. Ritari gerði sér vonir um að ljúka hlaupi á innan við 50 mínútum, sem væri persónulegt met. Leikin diskótónlist á plani og upphitun fyrir þá sem það vildu. Aðrir búnir að spretta úr spori í Dalnum.

Svo reið skotið af, mikill troðningur í upphafi og þvagan þrengdi sér áfram, gangandi til að byrja með. Að þessu sinni var boðið upp á tímatöku með flögu, og af því tilefni þótti við hæfi að rifja upp sögu úr Reykjavíkurmaraþoni, þegar ónefndur maður spurði: "Hvaða helvítis flögu?" Svo það var allt í lagi þótt troðningur væri einhver, svo fór þetta að grisjast og loks komst maður á einhvern hraða.

Þegar ritari kom upp á Laugarásveg losnaði reim af skúm hans og hann varð að stoppa til þess að reima og var dágóða stund að hnýta skóþvengi titrandi fingrum. Hefur líklega misst 30 sek. úr hlaupi. Við það missti hann af félagsskap blómasala og Helmuts, sem varð örlagaríkt því að tiplið í blómasalanum hefur ótrúlega uppbyggileg, sálræn áhrif á hlaupara. Svo var bara að halda áfram og vonast til þess að ná félögunum.

Til þess kom þó ekki, en ég sá kunnuglega baksvipi nokkurra, valinkunnra félaga er leið á hlaupið. Engin leið var að átta sig á tímanum eftir fimm kílómetra, en mér fannst tempóið allgott. Svo tók við annar hringurinn og tilfinningin bara góð. Smásaman jók ég hraðann, en lenti í því að fá byrjunareinkenni krampa á lokasprettinum og varð því að hægja á mér. Það skipti engum sköpum, því að ég náði að vera undir 50 mín. - þ.e.a.s. ef klukkan sýndi réttan tíma! Almennt voru félagar ánægðir með sinn tíma, Tumi undir 40 mínútum, Biggi á 43, Jóhanna 44 og þannig fram eftir götum.

Farið í pott - sem var troðinn, og spýttust menn upp úr þegar nýir bættust við. Sögð sagan af Bandaríkjamanninum sem átti afmæli (og nógan pening), gúglaði "hlaup og Ísland" og fékk upp nafnið Ágúst Kvaran. Síðan prófaði hann (að sögn) "rugludallur og Ísland" og fékk sömu niðurstöðu, eða það sögðu menn í potti. Hvað veit ég? Þessi Ameríkani var víst í hlaupi kvöldsins, og verður að telja hann með Hlaupasamtökunum þar eð hann hafði hlotið þjálfun í föstudagshlaupi sl. föstudag. Verðlaunaafhending á eftir, en erfitt var að fylgjast með hverjir unnu því hljóð barst ekki vel þarna á sundlaugarbakkanum.

Menn yfirgáfu Dalinn sælir í sinni eftir enn eitt velheppnað hlaupið. En hvað verður á morgun? Hlíðarfótur með sjóbaði, eða Eiríksjökull?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband