Með storminn í fangið - og með vindinn í bakið

Gísli rektor var mættur í Brottfararsal 15 mín. fyrir brottför, slík var eftirvæntingin. Stuttu síðar mætti dr. Friðrik og var eftirvæntingin engu minni hér. Þessir tveir hlauparar eiga það sammerkt að þeir hlaupa sjaldan, vilja ekki ofgera þessu. Síðan tíndust þeir inn, hver af öðrum, hlaupararnir: Björn, Birgir, Bjarki, Stefán Ingi, Elínborg, Pawel, Þorvaldur, Flosi, Jörundur, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Ólafur ritari, Margrét, Rúnar, Hjálmar, Ósk, Eiríkur, Dagný og loks kom Friðrik kaupmaður inn í hópinn í Skerjafirði. Hvílíkur hópur!

Þjálfarar hafa brennt sig á því að vera að ráðleggja hlaup út frá veðurspá, það hefur ekki gengið vel. Í dag var 14 m vindur/sek á sunnan og ekki gott að átta sig á því hvernig hann myndi snúa sér þegar búið væri að hlaupa í sosum eins og 50 mín. Þess vegna þorðu þau ekki að segja neitt, sögðu bara: "Þið ráðið! Hver þorir?" Niðurstaðan var sú að sá sem varð fyrstur upp á horn mátti ráða hvort farinn yrði öfugur Þriggjabrúahringur eða hefðbundinn - eiginlega skipti það ekki máli, en yrði náttúrlega álitshnekkir viðkomandi ef vindur tæki upp á því að snúast í millitíðinni. Flosi var fyrstur og fór um bakgarða 107 og var ágætlega til fundið. En þegar komið var út í Skerjafjörð varð ekki undan því vikist að taka móti storminum. Sem betur fer var hann ekki kaldur, en það tók á að berjast gegn honum.

Ritari segir það sjálfum sér til hróss að hann hékk í fremstu og beztu hlaupurum inn að Borgarspítala. Fyrir neðan kirkjugarð gerðist það helzt tíðinda að Margrét þjálfari brá fæti fyrir þann ágætishlaupara Eirík með þeim afleiðingum að hann tók ágústínzkan flugtíma, en hafði þó til að bera forsjálni og hugvit til þess að snúa sjálfum sér í loftinu og lenda á þeim líkamspörtum sem mjúkir eru og taka vel á móti malbiki. Hlutust ekki meiðsli af og óðara var Eiríkur rifinn á lappir og við héldum áfram eins og ekkert hefði í skorist.

En svo kom brekkan erfið upp hjá Borgarspítala og þá dró í sundur með okkur. Þegar hér var komið var farið að bæta í og ekki slegið af er upp var komið hjá Útvarpi. Yfir Miklubraut hjá Kringlu, vestur að Kringlumýrarbraut og svo niður úr og niður á Sæbraut. Þá voru hlauparar farnir að spretta úr spori. Eftir á kom í ljós að Eiríkur hafði farið á meðaltempóinu 5:05 og aðrir á e-u viðlíka. Ég sá fólkið  á undan mér og hélt áfram á þokkalegum hraða, en brátt komu hinir skárri hlauparar og náðu mér, dr. Jóhanna og Birgir, svo einhverjir séu nefndir.

Ritari hélt áfram hefðbundið Mýrargötu og á horni Ægisgötu náðu loks þjálfarar að sigla fram úr, en létu þó vel valin orð um atgervi ritara falla, orð sem yljuðu þreyttu skari á stund örvæntingar. Þeim er einnig þakkað að fara ekki með fleipur um vindátt, spár stóðust í þetta skiptið.

Fólk var sumt hvað uppgefið að hlaupi loknu, Friðrik kaupmaður lá á grasflöt gersamlega búinn. Síðar fréttist af hlaupurum sem höfðu farið stutt, og vakti athygli slakt gengi blómasala nokkurs í hlaupi dagsins. Hann kvaðst einfaldlega hafa verið þreyttur. Teygt og farið í pott.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband